Fara í innihald

Meðskilningur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Meðskilningur, ífylling eða sýnekdóka (forngríska: συνεκδοχή, synekdokhe) er stílbragð sem felst í að orði er skipt út fyrir annað orð sem hefur víðari eða þrengri merkingu. Algengar gerðir meðskilnings eru:

  • Hluti fyrir heild (latína: pars pro toto): Orð yfir hluta af fyrirbæri er látið ná yfir fyrirbærið allt. Til dæmis eru menn stundum kallaðir góðir hálsar.
  • Heild fyrir hluta (latína: totum pro parte): Hluti af fyrirbæri er táknaður með orði sem nær yfir það allt. Til dæmis eru Bandaríki Norður-Ameríku stundum kölluð Ameríka.
  • Undirtegund fyrir yfirtegund (latína: species pro genere): Til dæmis eru konungar kallaðir Ynglingar þótt það sé upphaflega ein ákveðin konungsætt.
  • Yfirtegund fyrir undirtegund (latína: genus pro specie): Til dæmis er kúamjólk oftast kölluð mjólk.
  • Efni fyrir afurð: Til dæmis er skip kallað eik, bogi ýr og spjót askur í skáldamáli því að hlutirnir voru oft búnir til úr þessum trjátegundum.

Meðskilningur er náskyldur nafnskiptum og telja sumir að ekki sé ástæða til að greina þar á milli.

  • Árni Sigurjónsson (1991). Bókmenntakenningar fyrri alda. Heimskringla. ISBN 9979-3-0240-2
  • Eco, Umberto (1976). A Theory of Semiotics. Indiana University Press. ISBN 0-253-20217-5
  • Jakob Benediktsson (1983). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.