Fara í innihald

Menningarleg sjálfbærni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Menningarleg sjálfbærni er ný þverfagleg nálgunaraðferð sem miðar að því að gera menningu og menningarlegum þáttum hærra undir höfði í allri þróun í átt til aukinnar sjálfbærni, hvort heldur er á heimaslóðum, stærri svæðum eða á heimsvísu. Menning er mikilvægur liður í sjálfbærri þróun þar sem hún tengist því hvernig við skiljum og metum bæði náttúruauðlindir og aðrar manneskjur. Hlutverk og þýðing menningar í sjálfbærri þróun er samt sem áður tiltölulega óskilgreint, bæði í vísindum og stefnumótun. Stundum hefur verið litið á menningu sem þátt í félagslegri sjálfbærni, einnig sem einhvers konar fjórðu stoð í hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun,[1] og til er að hún sé jafnvel talin til grundvallarþátta í sjálfbærri þróun.[2][3] Tilkall til menningar hefur einnig orðið æ sterkara í tengslum við auknar vistfræðilegar, efnahagslegar og félagslegar kröfur til að mæta markmiðum sjálfbærni, en það eru hinar hefðbundnu þrjár stoðir hugmyndafræðinnar um sjálfbærni.[4][5]

Stefnumótun

[breyta | breyta frumkóða]

Stefnumótun af ýmsu tagi og margar alþjóðlegar samþykktir tengja saman sjálfbæra þróun og menningu. Með Samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Convention of Biodiversity) frá árinu 1992 voru tengslin á milli líffræðilegrar fjölbreytni og menningar viðurkennd og sama á við um fjölmargar aðrar samþykktir sem gerðar hafa verið síðan.[6] Árið 1995 gaf Alþjóðanefnd um menningu og þróun út skýrslu sem nefndist Our Creative Diversity og gerir grein fyrir verkefnum og árangri Alþjóðlegs menningaráratugar UNESCO (1988-1997). Þar er viðurkennt að menning eigi stóran þátt í að auka efnahagsframfarir en gegni ekki síður mikilvægu hlutverki í sjálfu sér.[7] Í mörgum stefnuskrám Evrópunefndarinnar og Evrópuráðsins er menning einnig talin til mikilvægra þátta í (sjálfbærri) þróun og má þar til dæmis nefna In From the Margins (EC 1995) og the European Agenda for Culture (EC 2007).[8][9]

Fræðilegar rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Innan fræðilegra rannsókna hefur menning alltaf verið talinn mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun í tengslum við frumstæð menningarsamfélög, þróunarlönd og náttúruvernd en einnig í tengslum við undirstöðuatvinnuvegi, ferðamannaþjónustu og svæðisbundna þróun. Þessar rannsóknir leggja oftast til að sjálfbær þróun geri tilkall til þess að svæðisbundin menningarleg gildi séu viðurkennd, sem og jafnrétti og menningarleg sérstaða viðkomandi samfélaga, bæði í stefnumótun og ákvarðanatöku, enda styrki það tilvistargrundvöll þeirra til muna. Sjálfbær þróun hefur einnig verið lögð að jöfnu við eflandi hlutverk lista, sköpunar og menningarstarfs í samfélagslegu tilliti og þróun. Enn fremur hefur efling menningarlegrar fjölbreytni og verndun og varðveisla áþreifanlegs og óáþreifanlegs (svæðisbundinnar) menningararfs verið talin mikilvæg fyrir sjálfbæra þróun.

Auk þessara þátta hefur sjálfbær þróun verið sett í víðara samhengi sem menningarleg framþróun í átt til sjálfbærari lífsmáta sem byggir á siðfræðilegu vali í daglegu lífi. Í þessu tilliti hefur verið litið svo á að menningarstefna, samfélagsþekking, nýsköpun og menntun sem allt taki mið af sjálfbærri þróun sé undirstaða þeirra breyttu menningarlegu lífshátta sem miðað er að.

Frumkvæði

[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar hugmyndir sem miða að því að samþætta menningu og sjálfbæra þróun hafa verið settar fram. Menningarstefna 21. aldarinnar (e. Agenda 21 for Culture) sem lagðar voru fram á vegum Sameinuðu þjóðanna eru ætlaðar einstökum ríkjum til viðmiðunar við samningu eigin menningarstefnuskrár. Þessi samþykkt byggir á undirstöðuþáttum eins og menningarlegri fjölbreytni, mannréttindum, alþjóðlegri fræðslu og samskiptum, þátttökulýðræði, sjálfbærni og friði. Markmið COST Action IS1007 (2011–2015) Investigating Cultural Sustainability er að auka menningarlegt gildi innan sjálfbærrar þróunar með þverfaglegum aðferðum og nálgunum.[10][11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hawkes, J. 2005. Culture as a fourth pillar of sustainability. Common ground, Melbourne, 2005
  2. Duxbury, N. and Gillette, E. 2007. Culture as a key dimension of sustainability. Creative city network of Canada. Centre for expertise of culture and community.
  3. „WP1 Culture Sustainability PDF“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 18. apríl 2013. Sótt 16. janúar 2013.
  4. Drexhage, J. & Murphy, D. 2010: Sustainable Development: From Brundtland to Rio 2012. Background Paper prepared for consideration by the High Level Panel on Global Sustainability at its first meeting, 19 September 2010. United Nations, International Institute for Sustainable Development (IISD)
  5. Throsby, D. 2008. Linking cultural and ecological sustainability. The International Journal of Diversity in Organisations, Communities and Nations, 8(1): 15–20.
  6. UNESCO docs PDF
  7. Our Creative Diversity
  8. In From the Margins
  9. European Agenda for Culture. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2013. Sótt 16. janúar 2013.
  10. „COST Action“. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. desember 2007. Sótt 16. janúar 2013.
  11. Investigating Cultural Sustainability