Maxímús Músíkús
Maxímús Músíkús er íslenskt skemmti- og fræðsluverkefni með það að markmiði að opna börnum heim klassískrar tónlistar. Verkefnið inniheldur bækur ásamt geisladiskum, rafbækur, spil og fjölskyldutónleika auk tölvuleikja. Höfundur bókanna og Lagsins hans Maxa er Hallfríður Ólafsdóttir, 1. flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Bækurnar eru myndskreyttar af Þórarni Má Baldurssyni, víóluleikara í SÍ. Hljómsveitarstjórinn og píanistinn Vladímír Ashkenazy er verndari verkefnisins. Allar sögurnar um músíkmúsina eru til í tónleikaútgáfu og hafa verið fluttar af sinfóníuhljómsveitum og kammerhljómsveitum víðsvegar um heiminn en Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur frumflutt alla tónleikana sem byggðir eru á sögunum um Maxímús Músíkús . [1]
Fyrsta bókin, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, var gefin út í mars 2008 og hlaut bæði Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar. Þrjár aðrar bækur hafa verið gefnar út, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann (2010), Maxímús Músíkús bjargar ballettinum (2012) og Maxímús Músíkús kætist í kór (2014). Með öllum bókunum fylgir geisladiskur með lestri á sögunni ásamt allri þeirri tónlist sem músin heyrir, í flutningi Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Árið 2015 gaf Forlagið einnig út þrautabók sem byggð er á fyrstu bókinni.
Fimmta sagan um Maxímús Músíkús var samin að beiðni einnar af frægustu hljómsveitum heims, Los Angeles Philharmonic Orchestra, fyrir tónlistarhátíð þeirra, Reykjavík, í LA í apríl 2017. Maximus Musicus Explores Iceland var frumflutt á heimavelli LA Phil, í Walt Disney Concert Hall, fyrir um tíu þúsund áhorfendur á fernum tónleikum undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Sögumaður var Unnur Eggertsdóttir. Verkið verður gefið út og flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg Hörpu haustið 2018.
Bækurnar um Maxímús hafa verið gefnar út á þýsku, ensku, færeysku, kóresku, kínversku og portúgölsku auk þess að vera til í þýðingum á sænsku, norsku, dönsku og finnsku, hollensku, eistnesku og afrikaans.[1]
Verkefnið um Maxímús Músíkús var tilnefnt til evrópsku verðlaunanna YEAH! Young EARopean Award árið 2015 og brasilísku bókmenntaverðlaunanna Jabuti árið 2016. Höfundurinn, Hallfríður Ólafsdóttir, var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010, hlaut heiðursverðlaunin Eldhugi ársins 2017 og Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu hinn 17. júní 2014 fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks.
Bækurnar
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta bókin, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, er saga um mús sem villist inn í tónlistarhús. Þar er heil sinfóníuhljómsveit að hefja æfingu og músin þvælist fyrir fótum hljóðfæraleikaranna góða stund á meðan þeir stilla hljóðfærin sín og gera sig klára. Um leið lærir Maxi hvað hljóðfærin heita og hvers konar hljóð þau gefa frá sér. Maxímús fylgist með æfingunni og gefst að lokum tækifæri til að hlusta á tónleika innanum prúðbúna tónleikagesti. Bókinni fylgir geisladiskur þar sem Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem koma við sögu: Hátíðargjall fyrir hinn almenna borgara eftir Aaron Copland, Bolero eftir Maurice Ravel, Fyrsta kafla Sinfóníu nr. 5 eftir Ludwig van Beethoven og Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns, ásamt Laginu hans Maxa eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Hljómsveitastjóri er Rumon Gamba. Sinfóníuhljómsveitin hefur leikið verkið mörgum sinnum, á skólatónleikum, fjölskyldutónleikum, við opnun Hörpu, á Menningarnótt og á ferðum sínum um landið.
Í bók tvö, Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, þvælist Maxímús óvart með fiðluleikara í tónlistarskóla og kynnist þar börnum sem leika á alls kyns hljóðfæri. Þar eru krakkar að æfa sig vegna þess að þau eiga að fá að koma fram með stórri sinfóníuhljómsveit. Með bókinni fylgir geisladiskur með sögunni og tónlistinni sem Maxímús kynnist í þetta sinn. Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem við sögu koma: Ungverskur dans eftir Brahms, Skólakonsert eftir Frederich Seitz, Divertimento eftir Franz Joseph Haydn, Branle de la Torche eftir Michael Praetorius og Branle des Chevaux eftir Thoinot Arbeau, Gavotta eftir David Popper, Leikfangasinfónían eftir Edmund Angerer, Íslensk rímnadanslög eftir Jón Leifs, ásamt Laginu hans Maxa eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason.
Í þriðju bókinni um Maxa, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum, sér Maxi börn dansa með sinfóníuhljómsveitinni. Hann ákveður að elta þau og athuga hvar þau hafi lært að dansa. Í listdansskólanum sér hann börnin æfa dansa við ævintýratónlist, lærir margt gagnlegt og eignast vin, ballettmúsina Petítu Pírúettu. Á endanum eru það svo mýsnar sem bjarga ballettinum þegar tvísýnt er um að stóra sýningin þeirra með hljómsveitinni geti hafist. Valur Freyr Einarsson leikari les söguna og Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur tónverkin sem við sögu koma: Pjotr Tsjaíkovskíj: Forleikur að ballettinum um Þyrnirós, Alexander Glasúnov: Veturinn, Maurice Ravel: Gæsamömmusvíta, Pjotr Tsjaíkovskíj: Dans úr ballettinum um Þyrnirós og Jórunn Viðar: Eldur, ásamt Laginu hans Maxa eftir Hallfríði Ólafsdóttur. Hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson.
Fjórða bókin, Maxímús Músíkús kætist í kór, fjallar um það hvað það er gott að syngja. Maxímús Músíkús saknar heimahaganna þegar berin fara að vaxa á trjánum og langar að komast aftur upp í sveit í almennilegan berjamó. Þegar Maxi sér hóp af syngjandi börnum í tónlistarhúsinu og heyrir að þau séu á leið út úr bænum skellir hann sér með, í æfingabúðir fyrir kóra uppi í sveit. Maxi lendir í æsilegum eltingarleik við köttinn á bænum og gerir svo gæfumuninn í lífi systkina þegar heimþrá sækir að litlu kórsöngvurunum. Bókinni fylgir geisladiskur þar sem Valur Freyr Einarsson les söguna. Barna- og unglingakór Íslands flytur lögin sem við sögu koma ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðar Wilkinsonar: Hallfríður Ólafsdóttir: Lagið hans Maxa, Michael Praetorius: Viva la musica, Georges Bizet: Forleikur að Carmen, Georges Bizet: Söngur götubarnanna úr Carmen, Örlygur Benediktsson: Vaskur og félagar, Örlygur Benediktsson: Hestavísur, Þóra Marteinsdóttir: Fimm erlend þjóðlög, Hej Igazitsad! (Ungverskt þjóðlag, úts. Lajos Bárdos), Tryggvi M. Baldvinsson: Þrjú íslensk þjóðlög, W. A. Mozart: Bona nox, Engelbert Humperdinck: Kvöldbæn, Gabriel Fauré: Cantique de Jean Racine (úts. Hildigunnur Rúnarsdóttir), Stefan Nilsson (1955): Þetta líf (Gabriellas Sång) (Úts. Hildigunnur Rúnarsdóttir)
Spil og tölvuleikir
[breyta | breyta frumkóða]Spilastokkur með 52 spilum. Þrír tónlistarleikir fyrir snertiskjá á iPad, iPod eða iPhone.
- Sjö smáleikir með Maxa, Maximus Musicus
- Jólalög með Maxa, Maxi's Holiday Piano
- Maxaleikur á vef Hörpu, Maxímús Músíkús hljómsveitastjóri í Hörpu Geymt 24 febrúar 2013 í Wayback Machine
Tónleikar
[breyta | breyta frumkóða]Kynningarstarf
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar og heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- MaximusMusicus.com
- Maximus on facebook
- Harpa.is
- Forlagið; Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina Geymt 29 september 2011 í Wayback Machine
- Forlagið; Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann Geymt 24 febrúar 2013 í Wayback Machine
- Hallfríður Ólafsdóttir, ARAM
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Maxímús Músíkús Sögueyjan Ísland
eikar