José Raúl Capablanca
José Raúl Capablanca y Graupera (19. nóvember 1888 – 8. mars 1942) var kúbverskur skákmaður og heimsmeistari í skák frá 1921 til 1927. Hann var talinn undrabarn í skák og er af mörgum álitinn einn af bestu skákmönnum sögunnar, ekki síst vegna afbragðs endataflstækni og hve hratt hann gat teflt.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Hann sigraði Kúbumeistarann Juan Corzo í einvígi sem hófst þann 17. nóvember 1901, tveimur dögum fyrir þrettánda afmælisdag sinn. Þegar hann síðan hafði betur gegn Frank Marshall í einvígi árið 1909 var honum boðið á skákmót í San Sebastian. Hann sigraði á mótinu og hafði betur gegn skákmönnum eins og Akiba Rubinstein, Aron Nimzowitsch og Siegbert Tarrasch. Næstu árin náði Capablanca góðum úrslitum í þeim skákmótum sem hann tók þátt í.
Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir til að koma á viðureign við þáverandi heimsmeistara Emanuel Lasker, náði Capablanca loks titlinum frá Lasker í einvígi sem fram fór í Havana á Kúbu árið 1921. Capablanca var ósigraður í kappskák í átta ár frá 10. febrúar 1916 til 21. mars 1924.
Capablanca tapaði heimsmeistaratitlinum árið 1927 í einvígi gegn Alexander Aljekín, en Aljekín hafði aldrei unnið skák gegn Capablanca fyrir einvígið. Capablanca hélt áfram að skara fram úr á skákmótum eftir að hann tapaði heimsmeistaratitlinum en dró sig út úr alvarlegum skákmótum árið 1931. Kom hann að einhverju leyti til baka árið 1934 með nokkrum góðum úrslitum, en átti við vanheilsu að stríða. Hann lést árið 1942 úr heilablóðfalli.
Aðferðir
[breyta | breyta frumkóða]Capablanca þótti sérstaklega snjall í einföldum stöðum og endatöflum. Hann gat þó vel teflt „taktískt“ þegar nauðsyn krafði og þótti brögðóttur í vörn. Hann ritaði nokkrar bækur um skák á ferli sínum og sagði Mikhail Botvinnik að bók hans Chess Fundamentals væri besta bók sem hefði verið skrifuð um skák. Hann þótti gríðarsterkur í hraðskák þar sem hann var nánast ósigrandi. Sá eiginleiki nýttist honum einnig vel í fjölteflum en þau tóku yfirleitt mun styttri tíma en hjá öðrum því Capablanca tefldi svo hratt.
Capablanca var ekki mikið fyrir að skýra skákir sínar með ítarlegum hætti og beindi sjónum fremur að mikilvægum augnablikum í skákum sínum. Hafði hann mikil áhrif á síðari heimsmeistara, eins og Bobby Fischer og Anatoly Karpov.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Alfræðiorðabókin um skák eftir Dr. Ingimar Jónsson.