Héraðsskólinn á Laugarvatni
Héraðskólinn á Laugarvatni var héraðsskóli sem var stofnaður 1. nóvember árið 1928 í skólahúsi sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Hús héraðsskólans var friðað árið 2003 og tekur friðunin til ytra útlits og stigagangs.
Við setningu fræðslulaga árið 1946 tók héraðsskólinn upp kennslu til landsprófs. Haustið 1947 tók til starfa við héraðsskólann framhaldsdeild sem kenndi námsefni fyrsta árs menntaskóla og var hún nefnd Skálholtsdeild. Menntaskólinn að Laugarvatni var svo stofnaður árið 1953.
Árið 1932 var Íþróttakennaraskóli Íslands stofnaður og var hann í húsakynnum héraðsskólans, bókasafni, sundlaug og íþróttahúsi.
Hús gamla héraðsskólans stóð autt um nokkuð skeið eftir að skólahald fluttist í aðrar byggingar á Laugavatni. Listahátíðin Gullkistan var haldin í héraðsskólanum sumarið 2005. Gamli héraðsskólinn hefur nú verið gerður upp og mun Háskóli Íslands fá hluta gamla héraðsskólans fyrir starfsemi sína á Laugarvatni en þar er íþróttafræðanám innan Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Árið 1928 létu Laugarvatnshjónin, þau Ingunn Eyjólfsdóttir (1873-1969) og Böðvar Magnússon (1877-1966), ættaróðal sitt af hendi til að veita stofnun Héraðsskóla á Laugarvatni brautargengi. Þau hjónin tóku við búi á Laugarvatni 1907 og bjuggu á Laugarvatni alla tíð.
Halldór Laxness eyddi mörgum stundum í gamla Héraðsskólanum sem var rekið sem hótel á sumrin. Þar kynntist hann Auði, eiginkonu sinni, sem vann m.a. sem þerna í Héraðsskólanum.
Halldór barði á ritvélina sína hérna á sumrin á fjórða áratug síðustu aldar og má því gera ráð fyrir að hluti sögunnar Sjálfstætt fólk hafi verið rituð hérna.[1][2]
Í dag er starfrækt gistiheimili í Héraðsskólanum undir nafninu „Héraðsskólinn Historic Guesthouse“.
Arkitektarnir Eyrún Margrét Stefánsdóttir og María Björk Gunnarsdóttir endurhönnaðu skólann að innan árið 2013 með sögulegt gildi Héraðsskólans að leiðarljósi.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Héraðsskólinn - Sagan | Héraðsskólinn Historic“. Héraðsskólinn. 9. janúar 2018. Sótt 2. júlí 2019.
- ↑ „Dansaði upp að hnjám í Héraðsskólanum - Vísir“. visir.is. Sótt 2. júlí 2019.