Giuseppe Scarampella

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Giuseppe Scarampella var ítalskur fiðlusmiður, sem fæddist í bænum Brescia árið 1838. Hann var kominn af mikilli ætt fiðlusmiða en faðir hans, Paolo Scarampella, fékkst við fiðlusmíði og svo gerðu bræður hans tveir einnig, Angelo Scarampella og Stefano Scarampella, sem hefur átt mestum vinsældum að fagna í seinni tíð. Giuseppe hlaut fyrstu tilsögn í fiðlusmíðum hjá föður sínum en komst síðar í læri hjá Nicoló Bianchi í París fyrir tilstilli ítalska fiðlusnillingsins og tónskáldsins Antonio Bazzini, sem var á þeim tíma áberandi í tónlistarlífi Mílanó og Brescia. Samnemendur hans hjá Bianchi voru meðal annarra Eugenio Praga og Riccordo Antoniazzi. Eftir heimkomuna hóf hann störf hjá fiðlusmiðnum Luigi Castellini í Flórens en búseta hans í höfuðborg Toskanahéraðs varð þess valdandi að hann komst í vinfengi við marga af fremstu tónlistarmönnum Ítalíu auk þess sem honum gáfust tækifæri til að gaumgæfa hljóðfæri eldri meistara. Bróðir hans, Stefano, hlaut nokkra tilsögn í fiðlusmíði frá eldri bróður sínum, Giuseppe, en síðar meir varð hann einn mestur fiðlusmiða Ítalíu. Hann stofnsetti smíðaverkstæði í Brescia árið 1881 en fluttist fimm árum síðar til Mílanó, þar sem hann bjó til æviloka. Stefano varð mun afkastameiri en Giuseppe var og fiðlur hans og knéfiðlur eru sannkölluð meistaraverk. Stefano var mjög litríkur persónuleiki. Hann safnaði uppstoppuðum fuglum og hafði yndi af stangveiði. Hann var þó hvorki þekktur né efnaður í lifanda lífi. Þrátt fyrir það var hann gæddur miklum persónutöfrum síðustu æviárin. Fjölmargir fiðlusmiðir litu á hann sem læriföður sinn, þó aðeins einn þeirra, Geatano Gadda, hafi verið í eiginlegu læri hjá honum.