Fara í innihald

Garðahlynur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Garðahlynur
Lauf Garðahlyns
Lauf Garðahlyns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Sápuberjabálkur (Sapindales)
Ætt: Sápuberjaætt (Sapindaceae)
Ættkvísl: Hlynir (Acer)
Undirættkvísl: Acer sect. Acer
Tegund:
A. pseudoplatanus

Tvínefni
Acer pseudoplatanus
L.
Útbreiðsla
Útbreiðsla

Garðahlynur (fræðiheiti: Acer pseudoplatanus) er stórvaxið lauftré af ættkvísl Hlyna (Acer) . Hann getur náð 30 til 40 metra hæð og orðið 500 ára.

Garðahlynur kýs rakan, frjósaman og kalkríkan jarðveg en rótarkerfi hans er djúpstætt og næringarfrekt. Hann kýs sólríka og skjólgóða staði en getur þó komist á legg í hálfskugga. Hann er viðkvæmur gagnvart haustkali og vex best þar sem haust eru löng og mild. Hann verður salt- og vindþolinn með aldrinum auk þess sem hann þolir mengun allvel og því algengt götutré og prýði í stórborgum.

Laufblöðin eru stór, dökkgræn með rauðan blaðstilk. Þau eru fimmsepótt á hjartalaga grunni og alls um 8 til 15 sentímetra á lengd og breidd. Haustlitur trésins er gulur til appelsínugulur þó rauð blöð sjáist inn á milli.

Tréð blómstrar fyrir laufgun og eru blómin 8 til 10 sm langir klasar sem hanga niður. Þau eru gulgræn á lit. Garðahlynur setur fræ um 6 mánuðum eftir frjóvgun. Fræin eru tvö og tvö saman, umlukin hnot. Vængirnir mynda 60 til 90° horn og eru 1 til 3 sm á lengd.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Hann vex víða í fjalllendi í mið- og suður-Evrópu.

Í heimkynnum sínum sáir garðahlynur sér sjálfur og getur sprottið á ótrúlegustu stöðum, t.d. í þakrennum. Honum er fjölgað með fræjum en ræktunarafbrigði eru einnig grædd á önnur tré. Tréð er nýtt sem timburtré t.d. á Nýja-Sjálandi og Norður-Ameríku og er viðurinn nýttur til hljóðfæragerðar (sérstaklega í fiðlur), sem parket og í húsgögn. Þá er það talið illgresi í sumum hlutum Ástralíu.[1]

Á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Garðahlynur hefur vaxið í görðum í Reykjavík síðan 1886-1888 (Laufásvegi 5) og myndar víða krónumikil garðtré. Hann er löngu farinn að sá sér út í görðum. Notkun í skógrækt er takmörkuð. [2]Hann hefur verið valinn tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands á Bíldudal, Borgarfirði og Í Reykjavík.[3]

Tegundinni hættir við haustkali fyrstu 10-20 árin. [4]

Ræktunarafbrigði

[breyta | breyta frumkóða]
  • A. pseudoplantanus f. Purpurescens - afbrigði sem hefur rauð blöð
  • A. pseudoplantanus f. Erythrocarpum - hefur rauðar hnetur
  • A. pseudoplantanus f. Purpureum - neðra borð laufblaða er dökkfjólublátt
  • A. pseudoplantanus f. Brilliantissium - ung blöð eru laxableik

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Environmental weeds“ (PDF). Sótt 2. mars 2008.
  2. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 1. október 2015. Sótt 22. ágúst 2015.
  3. http://www.skog.is/index.php?option=com_content&view=article&id=45&Itemid=79
  4. Garðahlynur Geymt 1 júlí 2022 í Wayback Machine Heiðmörk.is, sótt 23/6