Auður Laxness
Auður Laxness (fædd Auður Sveinsdóttir 30. júlí 1918, dáin 29. október 2012) var íslensk handverkskona.
Auður giftist á aðfangadag 1945 Halldóri Kiljan Laxness, rithöfundi og Nóbelsverðlaunahafa. Eftir það var hún ritari og nánasti samverkamaður Halldórs og stundaði húsmóðurstörf á heimili þeirra að Gljúfrasteini.
Auður var lengst af útivinnandi ásamt því að reka heimilið, tók meðal annars próf sem handavinnukennari og stundaði kennslu um nokkurt skeið við skólann í Mosfellsbæ. Auður var meðal stofnenda kvennablaðsins Melkorku árið 1944. Einnig sat hún lengi í ritnefnd Hugar og handar, Heimilisiðnaðarfélags Íslands.[1] Auður skrifaði greinar um vefnað, prjón og fornar íslenskar listir í þessi rit, auk þess að vinna að hannyrðum og hönnun, m.a. í samstarfi við ullarverksmiðjuna Álafoss. Árið 2002 fékk Auður stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar menningar.[2]
Um uppruna íslensku lopapeysunnar hafa orðið til sögusagnir og ein þeirra segir að Auður hafi hannað hana og prjónað fyrst allra.[3] Sannleiksgildi sögunnar er umdeilt, þó Auður hafi án efa verið frumkvöðull í að prjóna peysur úr lopa í stað garns[4] og hafi átt þátt í að móta hefðina.[5]
Auður og Halldór eignuðust dæturnar Sigríði og Guðnýju.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Auður Laxness er látin“, Vísir, 30. október 2012.
- ↑ Fimmtán sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, Morgunblaðið, 19. júní 2002, bls. 10
- ↑ „Auður Laxness er látin“, Vísir, 30. október 2012.
- ↑ Soffía Valdimarsdóttir (2010), bls. 21-22.
- ↑ Soffía Valdimarsdóttir (2013) segir: „Langlíf er sú saga að Auður Sveinsdóttir eiginkona nóbelsskáldsins Halldórs Laxness hafi hannað peysuna en hún mun ekki eiga við óyggjandi rök að styðjast. Auður mun þó hafa lagt mótun hefðarinnar nokkuð til, líkt og margar aðrar ötular prjónakonur á Íslandi“
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fríða Björk Ingvarsdóttir, „Frjáls í mínu lífi“, Lesbók Morgunblaðsins, 20. apríl 2002.
- Höf. ókunnur, „Auður Laxness er látin“, Vísir, 30. október 2012.
- Soffía Valdimarsdóttir. „„Ull er gull: Lopapeysan við upphaf 21. aldarinnar,"“. 2010.
- Soffía Valdimarsdóttir. „Hvað er íslenska lopapeysan gömul og hver er uppruni hennar?“. Vísindavefurinn 23.8.2013. http://visindavefur.is/?id=62896. (Skoðað 23.8.2013).