Önundur tréfótur
Önundur tréfótur Ófeigsson var landnámsmaður á Ströndum. Hann nam land frá Kleifum til Ófæru og bjó í Kaldbak. Hann var einn andstæðinga Haraldar hárfagra þegar hann var að leggja Noreg undir sig, missti fót sinn í orrustunni í Hafursfirði og gekk við tréfót eftir það. Hann komst til Suðureyja og var þar um tíma en sigldi síðan til Íslands og nam þar land og bjó til æviloka. „Hann hefir fræknastur verið og fimastur einfættur maður á Íslandi,“ segir í Grettis sögu.
Fyrri kona Önundar var Æsa dóttir landnámsmannsins Ófeigs grettis og voru synir þeirra Ófeigur grettir og Þorgeir flöskubakur. Síðari kona Önundar var Þórdís Þorgrímsdóttir frá Gnúpi í Miðfirði og var sonur þeirra Þorgrímur hærukollur sem var faðir Ásmundar föður Grettis sterka. Eftir lát Önundar giftist Þórdís Auðuni skökli Bjarnarsyni landnámsmanni í Víðidal og var sonur þeirra Ásgeir bóndi á Ásgeirsá í Víðidal.