Snorri Jónsson (prestur á Helgafelli)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Snorri Jónsson (janúar 168329. janúar 1756) var skólameistari í Hólaskóla og síðan prestur á Helgafelli á Snæfellsnesi og prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi.

Snorri var sonur Jóns Magnússonar, prests í Hjarðarholti og síðar sýslumanns í Dalasýslu, og var hann því bróðursonur Árna Magnússonar prófessors. Hann var launsonur Jóns og var móðir hans vinnukona, Katrín Snorradóttir. Hann ólst upp með föður sínum en fór í Skálholtsskóla 19 ára að aldri og lauk þaðan prófi 1708. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en kom svo heim og varð konrektor á Hólum 1711. Skólameistari Hólaskóla varð hann haustið 1713 eftir lát Þorleifs Halldórssonar og gegndi því starfi til 1720. Það ár var hann vígður prestur að Helgafelli og gegndi því embætti allt til 1753. Hann var prófastur í Snæfellsnesprófastsdæmi frá 1720-1738. Hann þótti vel lærður, var latínuskáld og stundaði lækningar.

Kona Snorra var Kristín Þorláksdóttir (1683-1752), dóttir Þorláks Ólafssonar prests á Miklabæ í Blönduhlíð. Þau áttu fjölda barna, þar á meðal Jón Snorrason sýslumann í Hegranesþingi, Gísla Snorrason prófast í Odda og Gunnlaug Snorrason prest og skáld á Helgafelli.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal". Norðanfari, 31. janúar 1883“.