Saga Ítalíu

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hringleikahúsið Colosseum í Róm.

Saga Ítalíu er saga þess fólks sem byggt hefur Appennínaskagann sunnan Alpafjalla frá örófi alda, þótt nútímaríkið Ítalía hafi fyrst orðið til þegar flestöll ríkin á skaganum sameinuðust í eitt konungsríki árið 1861. Saga Ítalíu er því saga þess svæðis sem kallað hefur verið Ítalía frá því í fornöld og sem byggt hefur verið ýmsum þjóðum með ólíka menningu og tungumál, þótt saga þeirra sé að meira eða minna leyti samtvinnuð. Lengst af skiptist þetta svæði milli nokkurra ríkja sem ýmist voru sjálfstæð eða undir yfirráðum stærri ríkja.

Á ýmsum tímum hefur saga Ítalíu haft mikil áhrif á sögu Evrópu og heimsins alls. Þar var miðja Rómaveldis sem þandist langt út fyrir Appennínaskagann á síðustu öldunum fyrir Krists burð, allt þar til Vestrómverska ríkið leystist upp vegna árása Germana á 5. öld, og þar hefur miðstöð kristinnar kirkju og síðar kaþólskrar trúar verið frá því á 2. öld til dagsins í dag. Á Ítalíu kom ítalska endurreisnin upp á 14. öld sem markar skil milli miðalda og nýaldar í sögu Evrópu.

Uppruni heitisins[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar tilgátur eru á reiki um uppruna heitisins yfir landið. Samkvæmt fornri arfsögn gaf Ítalos, konungur yfir Enótríu (suðurhluta Kalabríu) samkvæmt Aristótelesi, landinu þetta nafn. Heitið virðist með tímanum smám saman hafa verið notað um stærra landsvæði í norðurátt. Það var til dæmis látið ná yfir allt það land sem heyrði undir rómverska lýðveldið af ítölskum þjóðflokkum frá Abrútsi. Peningar með nafninu voru slegnir af bandalagi Sabína, Samníta og Úmbra sem kepptu við Rómverja um áhrif á 1. öld f.Kr. Á lýðveldistímanum var nafnið notað yfir land Rómar sem náði frá ánni RubiconKalabríu, en á keisaratímanum náði það yfir allan skagann sem var skipt í ellefu héruð (regiones). Eftir fall Vestrómverska ríkisins urðu heitin Ítalía og Ítalir smám saman almennt nafn yfir landsvæðið og íbúa þess þegar talað var um þá sem heild.[1]

Jarðsaga Ítalíu[breyta | breyta frumkóða]

Gervihnattamynd af Ítalíu.

Á fornlífsöld var sá massi sem síðar myndaði Ítalíu sjávarbotn. Það var fyrst og fremst myndun Alpafjalla sem leiddi til þess sem í dag er Ítalía. Alpafjöll eru fellingafjöll sem mynduðust við árekstur fjögurra jarðfleka: Afríkuflekans, Evrasíuflekans, Indlandsflekans og Kimmeríu. Við þetta reis sjávarbotninn og myndaði fjallgarð á suðurströnd Evrasíuflekans. Þetta ferli hófst á krítartímabilinu en aðalmyndunartími fjallgarðsins var á paleósentímabilinu og eósentímabilinu.[2]

Appennínafjöllin mynduðust einnig á krítartímabilinu sem framhald á Alpafjöllum í vesturátt og tengdu þau við Pýreneafjöll. Síðar tóku þau að sveiflast til suðurs eins og pendúll og tóku með sér hluta af evrópska meginlandinu. Þar sem þessi hluti færðist hægar en fjallgarðurinn slitnaði hann frá þannig að til urðu eyjarnar Sardinía og Korsíka fyrir um fimm milljón árum en milli þeirra og Appennínaskagans myndaðist Tyrrenahaf. Á þeim tíma var stór flói milli fjallgarðanna í norðaustri þar sem Pósléttan er nú.

Útþensla íss og eldvirkni á plíósentímabilinu, sem hófst fyrir rúmum fimm milljónum ára, mótuðu fjallgarðana frekar og hæðirnar við rætur Alpfjalla mynduðust þegar ísinn hopaði. Dalirnir sem ísinn myndaði fylltust af vatni og urðu stóru stöðuvötnin þrjú við rætur Alpafjalla; Gardavatn, Cómóvatn og Maggiore-vatn. Flóinn milli fjallgarðanna fylltist af seti og Pósléttan varð til. Eldvirknin á plíósentímabilinu átti líka þátt í að mynda fjöll eins og Monte Amiata og Sabatinifjöll. Virku eldfjöllin Etna (sem er í 3.329 metra hæð yfir sjavarmáli), Vesúvíus og Strombólí eru yngri.

Forsögulegur tími[breyta | breyta frumkóða]

Klettaristur frá nýsteinöld í Valle Camonica í Ítölsku Ölpunum.

Forsögulegur tími í sögu Ítalíu nær frá þeim tíma þegar fyrstu menn settust að á svæðinu þar til fornöld hófst á 8. öld f.Kr. Talið er að menn hafi sest að á Appennínaskaganum þegar í upphafi pleistósentímabilsins fyrir 1,8 milljónum ára.[3] Þetta tímabil einkenndist af reglubundinni framsókn og hopi jöklanna í Alpafjöllunum allt fram að lokum síðasta kuldaskeiðs fyrir um 10.000 árum. Forsaga Ítalíu er síðan venjulega rakin allt þar til Grikkir hófu að stofna nýlendur á Suður-Ítalíu á 8. öld f.Kr.[4]

Steinöld[breyta | breyta frumkóða]

Elstu merki um menn hafa fundist í hellum og við vatnsbakka og eru um 800.000 ára gömul, frá fornsteinöld sem er langlengsta tímabilið í sögu mannsins.[5] Þetta eru mest einföld steinverkfæri og dýrabein en stöku mannabein (af neanderdalsmönnum) hafa fundist á Mið- og Suður-Ítalíu og eru frá því fyrir upphaf síðasta kuldaskeiðs.[6] Á lokastigum kuldaskeiðsins, frá því fyrir um 36.000 til 10.000 árum síðan, viku neanderdalsmennirnir smám saman fyrir nútímamönnum. Frá þeim tíma er að finna sívaxandi fjölda minja; kuml, dýrabein og steinverkfæri, sem verða smám saman flóknari að gerð. Einnig hafa fundist frá þessum tíma elstu merki um hellamálverk og litlar myndastyttur eins og Venus frá Savignano sem er talin vera um 25.000 ára gömul.[7]

Á miðsteinöld (fyrir um 10.000 til 6.000 árum síðan) hlýnaði loftslagið enn meir. Steinverkfærin urðu smágerðari og jarðsetning varð ríkjandi greftrunaraðferð. Merki um menn frá þessum tíma hafa fundist um alla Ítalíu, frá ströndinni, sléttum og fjöllum.

Kort sem sýnir útbreiðslu leirkerja af Cardium-gerð norðan við Miðjarðarhafið á 6. og 5. árþúsundinu f.Kr..

Á nýsteinöld vék samfélag veiðimanna og safnara fyrir landbúnaði með kvikfjárrækt, vefnaði og leirkeragerð.[8] Þetta stafaði af menningaráhrifum frá Mið-Austurlöndum. Með því að kortleggja gerðir leirmuna er hægt að gera sér góða hugmynd um þróun þessa tímabils. Notkun verkfæra úr kopar auk steinverkfæra hófst á síðari helmingi þriðja árþúsundsins f.Kr. og barst til Ítalíu frá austurhluta Miðjarðarhafsins og hafði í för með sér hnignun verkfæraframleiðslu úr tinnu. Frá þessum tíma eru elstu dæmin um stauraþorp á stóru vötnunum. Þessi stauraþorpamenning náði hátindi sínum á Bronsöld.[9]

Bronsöld[breyta | breyta frumkóða]

Bronsöld hófst á Ítalíu við lok þriðja árþúsundsins f.Kr. og einkenndist af mikilli útbreiðslu málmvinnslu. Á þessum tíma komu fram Póladamenningin í Gardavatni og Terramaremenningin í suðurenda Pósléttunnar sem einkenndist af fastri búsetu og jarðrækt í litlum þorpum sem voru víggirt með stauravirkjum og síkjum. Appennínamenningin þróaðist í Mið- og Suður-Ítalíu og byggðist á kvikfjárrækt.[10]

Leifar núraga á Sardiníu.

Frá Bronsöld er einnig að finna stærri og varanlegri minjar eins og núraga, kúpulaga steinkofa á Sardiníu. Castellieri-menningin sem barst til norðausturhéraðanna frá Istríu reisti bæi víggirta með steinveggjum. Seint á Bronsöld barst síðan grafkerjamenningin til Ítalíu frá Mið-Evrópu og breiddist hratt út.

Járnöld[breyta | breyta frumkóða]

Járnöld hófst á Ítalíu í upphafi fyrsta árþúsundsins f.Kr. sem bein afleiðing af vaxandi viðskiptum við Föníkumenn og Grikki. Þeir fyrrnefndu stofnuðu kaupstaði á Sardiníu og vesturströnd Sikileyjar um 1000 f.Kr. en þeir síðarnefndu stofnuðu borgríki á Suður-Ítalíu og austur- og suðurströnd Sikileyjar á 8. og 7. öld f.Kr. Þessar nýlendur voru við ströndina en höfðu mikil menningarleg áhrif á öllum Appennínaskaganum.

Villanóvamenningin var járnaldarmenning sem er beinn afkomandi grafkerjamenningarinnar og breiddist út um Mið-Ítalíu frá 10. til 8. aldar f.Kr. Hún náði yfir héruðin Emilía-Rómanja, Toskana og Latíum og var sá grunnur sem ríki Etrúra reis á þótt deilt sé um uppruna þeirra sjálfra.[11]

Fornöld[breyta | breyta frumkóða]

Með grísku borgríkjunum, Magna Graecia, á 8. öld f.Kr. gekk fornöldin í garð á Ítalíuskaganum með ritaðri sögu, en í sögu Ítalíu er gjarnan miðað við stofnun Rómar 753 f.Kr. sem upphaf klassískrar fornaldar. Í raun er það þó ekki svo að til sé mikið af ritheimildum frá þessum tíma og flestar heimildir sem fjalla um sögu tímabilsins eru ritaðar mörgum öldum eftir þá atburði sem þær lýsa.[12]

Í fornöld bjuggu margar þjóðir á Appennínaskaganum sem ætlað er að hafi flust þangað frá Austur- og Mið-Evrópu í nokkrum bylgjum frá miðri bronsöld allt þar til Keltar hófu að setjast að sunnan Alpafjalla á 4. öld f.Kr. Þessar þjóðir (til dæmis Venetar, Latínar og Sabellar) töluðu indóevrópsk mál og blönduðust þeim þjóðum sem fyrir voru og ekki töluðu indóevrópsk mál. Meðal þeirra þjóða sem ekki töluðu indóevrópsk mál má nefna Etrúra sem höfðu mikil áhrif á Róm og hinn latneska heim. Uppruni Etrúra er umdeildur þar sem sumir telja þá vera upprunna á Ítalíu en aðrir telja þá hafa flust þangað frá Mið-Austurlöndum.[13]

Föníkumenn og Grikkir[breyta | breyta frumkóða]

Nýlendur Föníkumanna (gular) og Grikkja (rauðar).

Um árið 1000 f.Kr. voru Föníkumenn mesta siglingaveldi Miðjarðarhafsins. Þeir reistu þétt net kaupstaða á helstu siglingaleiðum sínum, frá ströndum Portúgals til Líbanon. Meðal þeirra borga sem þeir stofnuðu eru Karalis (nú Cagliari) á Sardiníu og Ziz (nú Palermó) á Sikiley. Upphaflega voru þetta aðeins áfangastaðir á hinni mikilvægu siglingaleið til Spánar þar sem voru tin- og silfurnámur, en síðar, einkum eftir að mikilvægi Týrosar minnkaði vegna stöðugra árása Egypta, Persa og Makedóníumanna, uxu þær sem sjálfstæðar nýlendur.[14]

Á 8. öld f.Kr. hófu Grikkir að setjast að á strönd Suður-Ítalíu, líkt og á mörgum öðrum stöðum allt frá SvartahafiSuður-Frakklandi. Rómverjar kölluðu Suður-Ítalíu og austurströnd Sikileyjar Magna Graecia sem á latínu merkir Stór-Grikkland. Menning Grikkja, þar á meðal tungumálið, trúarbrögð og hefðir borgríkisins, breiddist út um allan Appennínaskagann. Til varð hellensk menning á Ítalíu sem síðar varð ein af undirstöðum rómverskrar menningar. Eitt af því sem Grikkir fluttu með sér var stafrófið sem var undanfari latneska stafrófsins. Helstu nýlendur Grikkja voru Kymé (nú Cuma), Région (nú Reggio Calabria), Neopolis (nú Napólí), Naxos og Messene (nú Messína) sem voru stofnaðar af Evbojum og Róteyingum; Sýrakúsa, sem var stofnuð af Kórinþubúum, Leontinoi (nú Lentini) af Megarabúum og Taras (nú Tarantó) var stofnuð af Spartverjum.[15]

Etrúrar[breyta | breyta frumkóða]

Steinkista etrúskrar hefðarkonu.

Um 800 f.Kr. tók að myndast á Mið-Ítalíu, sérstök menning sem kennd er við Etrúra. Rómverjar kölluðu þetta samfélag Etrusci eða Tusci (þaðan kemur nafn héraðsins Toskana) en Grikkir Τυρρήνιοι (Tyrrhenioi - þaðan kemur nafn Tyrrenahafs). Um uppruna Etrúra er ekki vitað með vissu. Sumir telja að þeir hafi flust til Ítalíu frá Litlu Asíu en aðrir að þeir hafi verið afkomendur Villanovamenningarinnar sem stóð á sömu slóðum. Menning þeirra ber merki um gríðarleg áhrif helstu viðskiptaþjóða þeirra, Föníkumanna og Grikkja, og þeir þróuðu letur sem byggist á grísku letri. Þekking á máli þeirra er enn takmörkuð en vitað er að það var ekki indóevrópskt mál.[16] Saga þeirra er einkum þekkt af ritum Grikkja og síðar Rómverja, sem í vissum skilningi litu á sig sem arftaka þeirra.

Etrúría.

Etrúría var staðsett nokkurn veginn þar sem nú er héraðið Toskana en stækkaði á blómaskeiði Etrúra frá 8. til 6. aldar f.Kr. og náði þá yfir Pósléttuna og í suður meðfram ströndinni yfir hluta Latíum og Kampaníu. Etrúría var aldrei eitt ríki heldur bandalag sjálfstæðra borgríkja. Síðustu þrír konungar Rómar fyrir stofnun lýðveldisins (616-510 f.Kr.) eru sagðir hafa verið af etrúskum uppruna.[17] Framrás þeirra til suðurs var stöðvuð af gríska einvaldinum Hieroni 1. frá Sýrakúsu í sjóorrustunni við Cumae í Napólíflóa árið 474 f.Kr. Árið 415 f.Kr. gerðust þeir bandamenn Aþeninga í Sikileyjarförinni þar sem þeir biðu aftur ósigur gegn Grikkjum. Eftir 5. öld f.Kr. hnignaði veldi Etrúra hratt og Rómverjar og Samnítar lögðu lönd þeirra smám saman undir sig.

Gallía hérna megin[breyta | breyta frumkóða]

Keltar frá því svæði þar sem nú eru Frakkland og Sviss tóku að setjast að sunnan Alpafjalla þegar á 6. öld f.Kr. Menning þeirra breiddist hratt út um Pósléttuna þar sem fyrir voru Lígúrar og Venetar. Borgir eins og Mílanó og Bologna eru fyrst nefndar í rómverskum heimildum sem gallverskar borgir. Rómverjar kölluðu svæðið Gallia Cisalpina („Gallía hérna megin Alpafjalla“) eða Gallia Citerior („Gallía nær“).

Gallar hófu að leggja landsvæði Etrúra í Toskana undir sig á 4. öld f.Kr. Etrúrar óskuðu eftir aðstoð frá Róm sem sendi her gegn Göllunum. Fylkingarnar, undir stjórn Gallans Brennusar annars vegar og Rómverjans Quintusar Sulpiciusar hins vegar, mættust í orrustunni við Allium 18. júlí 380 f.Kr. Rómverjar biðu mikinn ósigur og leifar hersins flúðu til Rómar með Gallana á hælunum. Gallarnir rændu Róm en voru reknir burt af herforingjanum Camillusi. Ósigurinn leiddi til þess að Rómverjar endurskipulögðu her sinn og reistu Servíusarmúrinn til varnar. Hundrað árum síðar biðu Rómverjar aftur ósigur gegn Göllum í orrustunni við Aretíum og það var ekki fyrr en eftir orrustuna við Telamon 225 f.Kr. sem þeim tókst að leggja Norður-Ítalíu undir sig. Þegar Hannibal gerði innrás yfir Alpafjöll 218 f.Kr. gengu Gallar í lið með honum gegn Rómverjum. Síðustu gallversku bæirnir á Norður-Ítalíu gáfust ekki upp fyrr en á 1. öld f.Kr.[18]

Rómaveldi[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt arfsögninni átti úlfynja að hafa alið upp bræðurna Rómúlus og Remus. Rómúlus átti að hafa stofnað borgina 753 f.Kr. sem markar upphaf klassískar fornaldar í sögu Ítalíu.

Borgin Róm var stofnuð af Rómúlusi á Palatínhæð við ána Tíber á jaðri Etrúríu árið 753 f.Kr. samkvæmt rómverskri arfsögn.[19] Fornleifar benda líka til þess að borgin hafi verið stofnuð um þetta leyti af Latínum og Sabínum á þremur hæðum á bökkum fljótsins. Fyrst um sinn ríktu konungar yfir borginni, þeir síðustu af etrúskum uppruna, og hugsanlega mynduðu Etrúrar eins konar yfirstétt í Róm á þeim tíma. 509 f.Kr. var lýðveldi komið á fót með stofnanir eins og rómverska öldungaráðið sem takmörkuðu völd ráðamanna. Talið er að við lok 6. aldar hafi yfirráðasvæði Rómar verið tvö þúsund ferkílómetrar. Smám saman lögðu Rómverjar undir sig lönd Etrúra og á 3. öld f.Kr. tókst þeim að ná undirtökunum á Suður-Ítalíu með sigrum á grísku borgríkjunum og leggja undir sig eyjarnar Sardiníu og Sikiley með sigrum á Karþagó.

Sigrar Rómverja á Grikkjum, Föníkumönnum og Göllum á Ítalíuskaganum leiddu til áframhaldandi útþenslu inn í Gallíu (Frakkland og Spán), Grikkland og Norður-Afríku. Eftir sigur á Makedóníu og Selevkídaríkinu rétt fyrir miðja 2. öld f.Kr. varð Róm stórveldi við Miðjarðarhafið. Sigurinn á Grikkjum hafði þær afleiðingar að Rómaveldi tók upp helleníska menningu.[20]

27 f.Kr. varð Oktavíanus einvaldur í Róm og fékk sæmdarheitið Augustus sem markar upphaf Rómverska keisaradæmisins.[21] Eitt af því sem einkenndi keisaratímabilið var hnignun landbúnaðar og iðnaðar á Ítalíu sem þurfti að keppa við innflutning frá skattlöndunum. Eftir stutt blómaskeið undir stjórn Ágústusar keisara tók spilling að einkenna keisaraveldið. Einvaldar á borð við Tíberíus, Calígúla og Neró urðu frægir fyrir yfirgengilega lifnaðarhætti og grimmd. Á 2. öld ríktu nokkrir góðir keisarar á borð við Hadríanus og Markús Árelíus og Rómaveldi náði á þeim tíma mestri útbreiðslu.[22]

Skipting Rómaveldis[breyta | breyta frumkóða]

Skipting Rómaveldis eftir dauða Þeódósíusar 1. árið 395.

Á 3. öld tók Rómaveldi hægt að hnigna sem lyktaði með skiptingu ríkisins í Austrómverska ríkið og Vestrómverska ríkið árið 293.[23] Um leið gerði Díókletíanus Mílanó að nýrri höfuðborg ríkisins. Skiptingin var fest í sessi þegar Konstantínus mikli stofnaði Konstantínópel í Býsantíum á Grikklandi og gerði hana að nýrri höfuðborg. Um sama leyti jókst þrýstingur frá germönskum þjóðflokkum sem hófu að flytjast suður á bóginn frá Norður-Evrópu. Eftir lát Þeódósíusar 1. árið 395 var skipting Rómverska heimsveldisins orðin föst í sessi og Ítalía hluti af Vestrómverska ríkinu. 402 flutti hirð keisarans til Ravenna. 476 lagði Austurgotinn Ódóaker Ravenna undir sig og síðasti rómverski keisarinn, Rómúlus Ágústúlus, var neyddur til að segja af sér.[24]

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Jústiníanus keisari og hirð hans á mósaíkmynd í býsönskum stíl í San Vitale í Ravenna.

Fall Vestrómverska ríkisins árið 476 markar endalok fornaldar og upphaf miðalda í sögu Evrópu. Eftir endalok keisaranna kom upp stutt blómaskeið á Ítalíu undir stjórn gotneskra konunga sem voru að nafninu til undirkonungar keisarans í Konstantínópel. Býsantíum gerði tilraun til að sameina ríkin tvö á ný í Gotastríðinu um miðja 6. öld en opnaði með því ríkið fyrir innrás annars germansks þjóðflokks, Langbarða. Langbarðar voru flestir heiðnir eða arískt kristnir og voru þannig andsnúnir Páfagarði í Róm sem Býsantíum ríkti enn yfir. Afskipti Karlamagnúsar gerðu stofnun Páfaríkisins mögulega og urðu upphafið að reglulegum afskiptum Frakkakonunga af málefnum Ítalíu allt fram á 19. öld. Þau afskipti urðu einnig til þess að skapa fullan aðskilnað milli Norður-Ítalíu og Suður-Ítalíu sem hefur að ýmsu leyti haldist fram til dagsins í dag.

Miðaldir í sögu Ítalíu einkennast af nokkrum tímabilum hnignunar og endurreisnar. Hrun rómverska heimsveldisins og styrjaldirnar sem fylgdu í kjölfarið drógu mjög úr mætti landsins sem var ekki mikill fyrir eftir langt hnignunarskeið. Stórjarðeignir frá tímum Rómverja framleiddu samt ennþá umframmagn af landbúnaðarvörum sem var selt í bæjum og borgum og Rómarréttur var enn í gildi.

Austurgotar[breyta | breyta frumkóða]

Solidus sleginn af Ódóaker í nafni Zenós keisara í Konstantínópel.

Ódóaker tók upp titilinn konungur Ítalíu. Hann náði Sikiley af Vandölum (sem höfðu lagt hana undir sig nokkrum áratugum fyrr) og samdi frið við Vesturgota og Franka en beið ósigur árið 490 gegn Þjóðreki mikla. Báðir voru þeir að nafninu til varakonungar keisarans í Konstantínópel en ríktu þó sem sjálfstæðir konungar yfir Ítalíu. Um miðja 6. öld hugðist Jústiníanus leggja Vestrómverska ríkið aftur undir sig og hóf Gotastríðið (535-554). Styrjöldin dró mjög úr mætti Vestrómverska ríkisins og borgir og bæir voru yfirgefnir um langt skeið. Á endanum vann Austrómverska ríkið sigur og Rómaveldi var sameinað um stutta hríð, en þegar Langbarðar gerðu innrás 588 hafði ríkið engin úrræði til að halda Ítalíu og megnið af landinu féll í hendur innrásarhersins. Áfram undir stjórn Austrómverska ríkisins voru borgirnar Róm og Ravenna, eyjarnar og hluti af strandhéruðum Suður-Ítalíu.

Langbarðar[breyta | breyta frumkóða]

Langbarðar voru germanskur þjóðflokkur sem á 5. áratug 6. aldar fluttist yfir Dóná og settist að í Pannóníu með stuðningi Jústíníanusar sem fékk þá til að berjast gegn Gepíðum. 560 tók Álfvini við konungdómi. Hann vann sigur á Gepíðum og giftist árið 566 Rósamundu dóttur konungs þeirra. Vorið 568 leiddi Álfvini Langbarða ásamt mörgum öðrum germönskum þjóðflokkum (Bæverjum, Gepíðum og Söxum) og Búlgörum, alls hálfa milljón manna, yfir Júlísku Alpana og gerði innrás í Norður-Ítalíu. Veldi Austrómverska ríkisins sem var enn að jafna sig eftir Gotastríðið hrundi á fáum árum. 572 féll Pavía í hendur Langbarða og varð höfuðborg ríkis þeirra á Ítalíu. Þeir lögðu líka undir sig Toskana og stór héruð á Mið-Ítalíu þar sem þeir stofnuðu hertogadæmin Spóletó og Beneventó. Býsans hélt yfirráðum sínum yfir borgunum Ravenna og Róm og nágrenni þeirra.[25]

Langbarðar voru flestir heiðnir þegar þeir réðust inn á Ítalíuskagann, en sumir þeirra voru arískt kristnir og samband þeirra við kaþólsku kirkjuna var stirt. Þeir tóku brátt upp rómverska titla, nöfn og siði og snerust að hluta til kaþólskrar trúar á 7. öld þótt það gengi ekki átakalaust. Í leiðinni gat Páfaríkið tryggt sér yfirráð yfir fyrrum yfirráðasvæðum Austrómverska ríkisins, Sexveldinu og Fimmborgaríkinu, sem samsvara í dag héruðunum Marke og austurhluta Emilíu.

Járnkóróna konungs Langbarða.

Ríki Langbarða skiptist í 36 hertogadæmi sem héldu töluverðu sjálfstæði gagnvart konunginum í Pavía. Þetta gerði þeim erfitt fyrir að standa gegn vaxandi umsvifum Franka. Konungar Langbarða reyndu að styrkja miðstjórnarvaldið en afleiðingin af því var sú að hertogadæmin Spóletó og Beneventó sögðu sig úr lögum við þá.

Afskipti Franka[breyta | breyta frumkóða]

Pípinn stutti Frankakonungur fékk Sakarías páfa til að staðfesta konungstitil Karlunga. Veldi þeirra óx enn frekar þegar Stefán 2. ferðaðist alla leið til Parísar til og veitti honum einnig titilinn patricius Romanorum. Í staðinn staðfesti Pípinn yfirráð páfa yfir fyrrum löndum Austrómverska ríkisins á Norður-Ítalíu.

Karlamagnús og Hadríanus páfi á lýsingu úr miðaldahandriti.

Þegar Hadríanus 1. varð páfi árið 772 lét hann verða sitt fyrsta verk að krefjast yfirráða yfir nokkrum borgum sem áður heyrðu undir Sexveldið. Konungur Langbarða, Desíderíus, svaraði með því að leggja aðrar borgir Páfaríkisins undir sig og réðist inn í Fimmborgaríkið á leið sinni til Rómar. Dóttir Desíderíusar hafði gifst Karlamagnúsi 770 en hann skildi við hana ári síðar. Nú sendi Hadríanus því sendimenn til Karlamagnúsar og bað hann um vernd. Desíderíus sendi líka sendimenn til Franka og hafnaði ásökunum páfa. Sendimenn beggja aðila hittu Karlamagnús í Thionville þar sem hann tók undir málstað páfa. 773 hélt hann með her yfir Alpana og rak Langbarða undan sér til Pavía sem Frankaherinn settist um. Um leið hélt Karlamagnús til Rómar þar sem hann staðfesti enn yfirráð páfa yfir löndum Austrómverska ríkisins. Síðar var því ranglega haldið fram af Páfaveldinu að hann hefði einnig veitt yfirráð yfir Toskana, Emilíu, Feneyjum og Korsíku. Sumarið 774 gáfust Langbarðar upp fyrir Karlamagnúsi og Desíderíus var sendur í klaustur í Corbie. Karlamagnús lét krýna sig með járnkórónu Langbarða.

Fyrstu borgríkin[breyta | breyta frumkóða]

Hertogadæmi Langbarða í suðrinu, Beneventó og Spóletó, héldu sjálfstæði sínu þótt Karlungar gerðu margar tilraunir til að leggja þau undir sig. Hlutar Suður-Ítalíu voru áfram hluti af Austrómverska ríkinu þar til Arabar lögðu Sikiley undir sig 827-902. Meginlandshlutinn skiptist þá í nokkur sjálfstæð borgríki eins og Napólí, Amalfi og Gaeta. Þetta voru fyrstu dæmin um frjáls borgríki eins og áttu eftir að blómstra síðar á Norður-Ítalíu. Þessi fyrstu borgríki urðu þó skammlíf því brátt kom til nýrrar innrásar í Suður-Ítalíu.

Lóþaringen og hið Heilaga rómverska ríki[breyta | breyta frumkóða]

Berenger gefst upp fyrir Ottó í króniku Otto von Freising.

Eftir skiptingu Karlungaveldisins með Verdun-samningnum 843 varð Norður-Ítalía hluti af Lóþaringen. Þegar Karli digra, konungi Lóþaringen, var steypt af stóli 887 klofnaði ríki hans og Norður-Ítalía varð vettvangur fyrir valdatafl voldugra fursta á borð við Guy af Spóletó og Berengar af Fríúlí. 951 gerði Ottó mikli innrás og innlimaði Ítalíu í hið Heilaga rómverska ríki. Hann lét krýna sig konung Ítalíu með járnkórónu Langbarða í Pavía. Eftir hans daga gerðu nær allir keisarar hins Heilaga rómverska ríkis hið sama á leið sinni til Rómar til að hljóta krýningu páfa.

Hámiðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Ítalía árið 1000.

Á hámiðöldum féll Suður-Ítalía fyrst Normönnum í hendur og síðan keisurum af þýsku Hohenstaufen-ættinni. Á Norður-Ítalíu blómstruðu tvö sjóveldi, Feneyjar og Genúa, sem urðu fyrirmynd að frjálsu borgríkjunum sem einkenndu endurreisnartímabilið. Á þessum tíma var komið á lénsveldi um alla Ítalíu en ítalskir aðalsmenn héldu eftir sem áður miklu sjálfstæði og sérréttindum gagnvart bæði páfa og keisara.

Innrás Normanna[breyta | breyta frumkóða]

Normannar komu fyrst til Suður-Ítalíu sem pílagrímar í kringum árið 1000 og gátu sér brátt gott orð sem atvinnuhermenn og málaliðar í þjónustu furstanna þar sem áttu oft í átökum sín á milli og eins við Mára frá Sikiley og Norður-Afríku. Brátt tóku Normannar að heimta lönd sjálfum sér til handa. Þeir lögðu svo alla Suður-Ítalíu og Sikiley undir sig í röð stríðsátaka sem stóðu alla 11. öldina. Síðast féll hertogadæmið Napólí í hendur þeirra árið 1137. Konungsríkið Sikiley sem náði yfir alla Suður-Ítalíu var stofnað af Hróðgeiri 2. árið 1130. Árið 1155 gerði býsanski keisarinn Manuel 1. Komnenos síðustu tilraun Grikkja til að leggja Suður-Ítalíu aftur undir sig með árás á Apúlíu. Innrásin mistókst og gríski herinn hvarf frá Ítalíu 1158.

Lénsveldið og borgríkin[breyta | breyta frumkóða]

Feneyjar voru að nafninu til hluti Austrómverska ríkisins en nutu í reynd sjálfstæðis frá 803. Á tímum krossferðanna varð borgin að verslunarveldi sem byggði hagsæld sína á sjóflutningum og verslun um allt Miðjarðarhafið. Á 12. öld fengu feneyskir kaupmenn ýmis sérréttindi í Austrómverska ríkinu og í krossferðunum fengu þeir hluta af ríkulegum ránsfeng. Allar hámiðaldir voru þeir einráðir í verslun milli Evrópu og Mið-Austurlanda. Á sama tíma óx sjóveldið Genúa á vesturhluta Miðjarðarhafsins með verslun á Spáni, Korsíku og Sikiley.

Vaxandi verslun í kringum helstu hafnarborgir á Norður-Ítalíu leiddi til eflingar iðnaðar á sömu stöðum og hægt og rólega tók við tímabil þar sem landbúnaður, iðnaður, menning og listir efldust í kringum borgirnar. Ítalskir furstar voru að nafninu til lénsmenn keisara hins Heilaga rómverska ríkis, en í reynd nutu þeir mikils sjálfstæðis og héldu fast í sérréttindi sem þeir höfðu fengið. Átök milli keisara og páfa leiddu til skrýðingadeilunnar á 11. öld. Á þeim tíma skiptust aðall og borgarar norðurítölsku borganna í gvelfa og gíbellína eftir því hvort þeir studdu páfann eða keisarann.

Hohenstaufen-ættin[breyta | breyta frumkóða]

Mynd af Barbarossa úr handriti frá lokum 12. aldar.

Árið 1167 var Langbarðabandalagið stofnað gegn tilburðum Friðriks 1., fyrsta keisarans af Hohenstaufen-ættinni, til að staðfesta völd sín á Ítalíu. Nær allar borgir Norður-Ítalíu tóku þátt í bandalaginu sem var stutt af Alexander 3. páfa. Bandalagið vann sigur á her keisarans í orrustunni við Legnano 29. maí 1179 og í kjölfarið var gert vopnahlé og síðan friðarsamkomulag þar sem borgríkin fengu umtalsverða sjálfstjórn en samþykktu yfirráð keisarans að nafninu til. Langbarðabandalagið var endurvakið nokkrum sinnum á 13. öld vegna andstöðu við keisarann. Þessir ósigrar leiddu til hnignunar og að lokum falls Hohenstaufen-ættarinnar. Um leið minnkuðu áhrif hins veraldlega valds og stuðningsmanna þess (gíbellína) og vald kirkjunnar og stuðningsmanna hennar (gvelfa) óx.

Hohenstaufen-ættin lagði Suður-Ítalíu undir sig með innrás 1194 og ríkti yfir sikileyska konungríkinu. Átök milli páfa og Hohenstaufen-keisaranna leiddi til þess að páfi kallaði eftir aðstoð frá Angevínum, franskri aðalsætt, og veitti þeim sikileyska konungsríkið í staðinn. Karl 1. af Anjou lagði konungsríkið undir sig 1266 en óánægja íbúanna með yfirráð Frakka leiddi til sikileysku aftansöngvanna 1282 og innrásar Péturs 3. konungs Aragón. Friðarsamkomulagið sem á eftir fylgdi skipti konungsríkinu í tvennt: Sikiley var undir stjórn Aragón en meginlandshlutinn undir stjórn Angevína. Við þetta varð til Konungsríkið Napólí. Ríkin tvö komu ekki aftur saman undir einum konungi fyrr en á 18. öld.

Ítalska endurreisnin[breyta | breyta frumkóða]

Við upphaf endurreisnarinnar var staðan því sú að Norður-Ítalía skiptist milli margra misstórra borgríkja sem að nafninu til heyrðu undir hið Heilaga rómverska ríki eða Austrómverska ríkið (Feneyjar) en nutu í reynd algjörrar sjálfsstjórnar og voru ýmist hertogadæmi eða lýðveldi. Miðhluti Appennínaskagans, Róm og nágrenni, Marke og austurhluti Emilíu, voru hlutar Páfaríkisins. Suður-Ítalía myndaði konungsríkið Napólí og Sikiley myndaði konungsríkið Sikiley. Minjar um glæsta fortíð á tímum Rómaveldis voru út um allt og áhugi menntaðs lágaðals og nýríkrar borgarastéttar á fornleifum varð til þess að fleiri minjar voru grafnar úr jörðu, gert við þær og þeim stillt út til sýnis.

Menningarleg endurnýjun[breyta | breyta frumkóða]

Pétur greiðir tollheimtumanninum úr frægri veggmyndaröð eftir Masaccio frá 1424 í Brancacci-kapellunni í Flórens.

Áhugi á fyrirmyndum frá klassískri fornöld gat af sér nýjar nálganir í byggingarlist, myndlist og listiðn. Upphaf þessarar endurreisnar var hjá málurum í Toskana sem þróuðu áfram býsanskan stíl í trúarlegum myndum og tóku að nota nýja tegund myndmáls eins og fjarvídd, skyggingar og svipbrigði. Nýrík borgarastétt greiddi fyrir myndir sem gefnar voru að gjöf í kirkjur og klaustur eða skreyttu heimakapellur. Fremst þessara auðmannsfjölskyldna í Flórens var Medici-fjölskyldan sem notaði myndlistina markvisst sem vopn í baráttu sinni um völd í Toskana.[26]

Ítalskan varð til sem bókmenntamál með Hinum guðdómlega gleðileik Dantes á 13. öld og Tídægra Boccaccios hélt þeirri hefð áfram með veraldlegri áherslum. Húmanisminn, sem snerist um aukið vægi mannsins, og fornmenntastefnan sem snerist um rannsóknir á heimspeki- og náttúrufræðiritum fornaldar, kom fram á sjónarsviðið með Petrarca á 14. öld. Meðal þess sem fornmenntastefnan gat af sér var gríðarlegur áhugi á frumtextum heimspekinga fornaldar, ekki síst Platons, en fram að því hafði skólaspekin verið ríkjandi stefna í heimspeki með áherslu á kenningar Aristótelesar.[27]

Um miðja 14. öld barst svarti dauði til Ítalíu með skipum sem komu frá Caffa á Krímskaga til Messínu á Sikiley, og er talið að allt að 60% íbúa hafi látist í veikinni. Hins vegar eru skiptar skoðanir um það hvaða áhrif þetta hafði á endurreisnina.

Stækkun Páfaríkisins[breyta | breyta frumkóða]

Ítalía árið 1494.

Páfaríkið stækkaði gríðarlega á endurreisnartímanum, einkum á valdatíma páfanna Alexanders 6. og Júlíusar 2. Páfinn var voldugur veraldlegur ráðamaður sem gerði samninga og háði stríð við önnur ríki eins og aðrir konungar. Meirihluti páfaríkisins var samt sem áður í höndum lénsmanna sem oft nutu mikils sjálfstæðis gagnvart Rómarvaldinu. Í nokkrum tilvikum kom til átaka þegar páfi staðfesti vald sitt yfir uppreisnargjörnum furstum.

Erlend yfirráð[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1425 hófst röð vopnaðra átaka milli Feneyska lýðveldisins og Hertogadæmisins Mílanó og bandamanna þeirra sem voru kölluð Stríðin í Langbarðalandi. Niðurstaða þessara styrjalda var sú að Feneyjar og Mílanó komu fram sem öflugustu ríkin á Norður-Ítalíu. Átökunum lauk með friðarsamningnum í Lodi 1454 en þau sýndu greinilega fram á að ítölsku borgríkin voru óstöðug pólitískt þótt þau stæðu efnahagslega sterkt. Deilur um ríkiserfðir í Mílanó og Napólí leiddu til Ítalíustríðanna 1494 til 1559 þar sem Spánn, Frakkland, hið Heilaga rómverska ríki, Páfaríkið, England og Skotland, eða öllu heldur þau ættarveldi sem réðu yfir þessum ríkjum, tókust á um völd sín á Ítalíuskaganum. Niðurstaða þessara átaka var sú að Habsborgarar stóðu uppi sem voldugasta ætt Evrópu. Ítölsku borgríkin voru nú ýmist innlimuð í stærri ríki eða gerð að minniháttar lénum.

Orrustan um Pavíu milli Frakkakonungs og keisarans 1525.

Átökin drógu úr mætti borgríkjanna. Róm var rænd af málaliðum 1527 og Flórens varð að hertogadæmi Medici-ættarinnar með fulltingi páfa og Frakkakonungs eftir stutt lýðveldistímabil. Páll 3. kallaði saman kirkjuþingið í Trentó 1544-1563 til að móta svar kirkjunnar við siðbót Lúthers í Þýskalandi.

Spánverjar og Frakkar[breyta | breyta frumkóða]

Friðarsamkomulagið í Cateau-Cambrésis 1559 milli Hinriks 2. Frakkakonungs og Filippusar 2. Spánarkonungs staðfesti yfirráð Spánar yfir Ítalíu. Þeir réðu þá yfir konungsríkjunum Sikiley, Napólí og Sardiníu, hertogadæminu Mílanó og voru með svokölluð setuliðssvæði (stati dei presidi) á hernaðarlega mikilvægum stöðum í Toskana. Páfaríkið og Feneyjar héldu sjálfstæði sínu en önnur borgríki á Ítalíu voru aðeins sjálfstæð að nafninu til. Á sama tíma hnignaði versluninni eftir því sem hin Evrópuríkin uppgötvuðu nýjar siglingaleiðir til Asíu. Fjármálastarfsemi í Flórens og Genúu var áfram mikilvæg en á heildina litið dró úr bæði efnahagslegum styrk og menningarlegu mikilvægi Ítalíu.

Í kjölfar friðarsamkomulagsins fylgdi langt friðartímabil. Páfaríkið náði aftur undir sig borgunum Ferrara (1598) og Úrbínó (1631) og Saluzzo, eina lénið sem Frakkar héldu við friðarsamningana, féll í hlut Savoja árið 1601 í skiptum fyrir héruð í Frakklandi.

Upplýst einveldi[breyta | breyta frumkóða]

Karl 3. kemur til Napólí.

Í kjölfar Spænska erfðastríðsins 1701-1714 gengu öll ríki Spánverja á Ítalíu, nema Sikiley, til Austurríkis. Sikiley gekk til hertogans af Savoja sem við það varð konungur. 1718 skipti hann á Sikiley og Sardiníu og bjó þannig til konungsríkið Sardiníu.

Pólska erfðastríðið 1733 og Austurríska erfðastríðið 1740 höfðu líka áhrif á Ítalíu. 1734 lagði Karl 3. af ætt Búrbóna Napólí og Sikiley undir sig. Hann var upplýstur einvaldur sem tókst á hendur ýmsar umbætur í ríki sínu og hóf meðal annars fornleifauppgreftina í Pompeii og Herculaneum. 1737 dó Medici-ættin út og hertogadæmið í Toskana féll í hlut Frans Stefáns, hertoga af Lorraine, eiginmanns Maríu Teresíu, erkihertogaynju Austurríkis. 1768 neyddist Genúa til að láta Korsíku af hendi við Frakka. Undir stjórn Maríu og síðan Jóseps 2. erkihertoga voru útfærðar umbætur í landbúnaði í anda upplýsingarinnar í Langbarðalandi, Trentínó og Tríeste.

Napóleonstímabilið[breyta | breyta frumkóða]

Orrustan við Lodi 1796.

Í Frönsku byltingarstríðunum tók Napoléon Bonaparte, sem sjálfur var af ítölskum ættum á Korsíku, yfir stjórn hins litla Ítalíuhers Frakka í Nice 26. mars 1796. Hann hélt með þennan her yfir Alpafjöll við Altare og réðist á hersveitir Savoja og Austurríkismanna í Ceva. 28. apríl undirritaði Savoja vopnahlé í Cherasco og dró sig út úr átökunum. Um sumarið vann Napóleon marga sigra á Austurríkismönnum, settist um höfuðstöðvar þeirra á Ítalíu, Mantúu, og hernam Toskana og Páfaríkið.

Eftir orrustuna við Lodi 10. maí 1796 skipti Napóleon hernumdu svæðunum í tvö ríki: Cispadanska lýðveldið norðan við og Transpadanska lýðveldið sunnan við . 29. júní 1797 voru þessi tvö svæði sameinuð í eitt Cisalpínskt lýðveldi með Mílanó sem höfuðborg. Í friðarsamningnum í Campofiore 17. október sama ár viðurkenndi Austurríki þetta ríki en fékk leifarnar af Feneyska lýðveldinu í staðinn. Nýja ríkið fékk sjálfstæða stjórn sem byggði að miklu leyti á stjórnskipun Frakklands. Stjórn þess stefndi opinberlega að sameiningu allra ítalskra ríkja í eitt ríki, sem leiddi til átaka við Sviss. Ítalski fáninn var búinn til fyrir Cispadanska lýðveldið og byggði á franskri fyrirmynd.

Kort af Ítalíu árið 1810. Konungsríkið Ítalía er litað ljósgrænt.

Lýðveldið var sjálfstætt að nafninu til, en í stjórnskipan þess voru innbyggð yfirráð Frakka. Lögreglan var undir stjórn Frakka og 25.000 franskir hermenn voru staðsettir þar, haldið uppi á kostnað lýðveldisins. Stjórn lýðveldisins var beitt þrýstingi til að undirrita bandalagssamning við Frakka sem fól í sér mikinn kostnað vegna uppihalds frönsku hermannanna.

Þegar annað bandalagsstríðið hófst 1799 lögðu Austurríkismenn lýðveldið undir sig og héldu því þar til Napoléon sigraði þá í orrustunni við Marengó 14. júní 1800. Lýðveldið var endurreist 9. febrúar 1801 og stækkað þannig að það náði yfir Venetó, sem áður hafði tilheyrt Austurríki, og Marke, sem áður hafði tilheyrt Páfaríkinu. Í janúar 1802 var nafni lýðveldisins breytt í Ítalska lýðveldið og Napoléon lét gera sjálfan sig að forseta þess 24. janúar.

Í kjölfar þess að Napoléon lét krýna sig Frakkakeisara 2. desember 1804 var lýðveldinu breytt í Konungsríkið Ítalíu og Napoléon krýndur konungur Ítalíu með járnkórónu Langbarða í Mílanó 26. maí 1805. Konungsríkið var í reynd lítið annað en leppríki sem Napóleon notaði sem vettvang fyrir herfarir gegn Austurríki. Stjúpsonur Napóleons, Eugène de Beauharnais, var gerður varakonungur. Þegar Napóleon sagði af sér í kjölfar ósigursins í fjórða bandalagsstríðinu gerði Eugène tilraun til að láta krýna sig konung en mætti andstöðu öldungadeildarinnar. Hann var dæmdur í útlegð þegar Austurríki lagði konungsríkið undir sig.

Sameining Ítalíu[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndin um sameiningu allra ríkjanna sunnan Alpafjalla í eitt ríki komst á kreik í kjölfar Frönsku byltingarinnar og margir hópar í hinum ýmsu ríkjum á skaganum hófu að vinna að þessu markmiði í andstöðu við ríkjandi yfirvöld sem Vínarþingið endurreisti í kjölfar Napóleonsstyrjaldanna. Einkum snerust þessar hreyfingar gegn Austurríkismönnum og Habsborgurum sem bældu þessar sjálfstæðishreyfingar markvisst niður í norðausturhlutanum sem þeir ríktu yfir.

Uppreisnarhreyfingar og fyrsta ítalska sjálfstæðisstríðið[breyta | breyta frumkóða]

Giuseppe Mazzini

Ein af þessum sjálfstæðishreyfingum var hin svokallaða Carboneria eða kolabrennsla, sem varð til í upphafi 19. aldar og var skipulögð svipað og Frímúrarahreyfingin. Meðlimir í samtökunum voru flestir úr hópi millistéttarfólks og menntamanna og þau breiddust út til Sardiníu, Páfaríkisins, stórhertogadæmisins Toskana, hertogadæmisins Módena og konungsríkisins Langbarðalands-Feneyja. Meðal leiðtoga sameiningarhreyfingarinnar voru lýðveldissinnarnir Giuseppe Mazzini og Giuseppe Garibaldi. Meðal hinna hófsamari konungssinna sem studdu sameiningu voru Cavour greifi og konungur Sardiníu, Viktor Emmanúel 2..

Uppreisnir í Konungsríki Sikileyjanna tveggja á Suður-Ítalíu fengu Ferdinand 1. til að samþykkja stjórnarskrá. Fleiri uppreisnir áttu sér stað um alla Ítalíu og náðu hápunkti byltingarárið 1848 þegar tvö skammlíf lýðveldi voru stofnuð, annað í Róm og hitt í Feneyjum. Um leið ákvað Karl Albert konungur Sardiníu að ráðast gegn Austurríki (Fyrsta ítalska sjálfstæðisstríðið) en var gjörsigraður og neyddist til að láta syni sínum, Viktor Emmanúel, eftir völdin.

Annað ítalska sjálfstæðisstríðið[breyta | breyta frumkóða]

1858 reyndi ítalskur sjálfstæðissinni, Felice Orsini, að myrða Napóleon 3. Frakkakeisara þar sem hann hefði svikið málstaðinn (Napóleon var sjálfur meðlimur í Carboneria á yngri árum). Keisarinn ákvað þá að gera eitthvað í málefnum Ítalíu og gerði leynilegt bandalag við Cavour, sem þá var forsætisráðherra Sardiníu, gegn Austurríki. Annað ítalska sjálfstæðisstríðið var skammvinnt og lyktaði með fullkomnum sigri Frakka og Ítala í orrustunni við Solferino 24. júní 1859. Þá gerðist það að Napóleon bakkaði, að hluta til af ótta við stöðu sína heima fyrir og möguleg afskipti Þýskalands. Hann hitti því Frans Jósef Austurríkiskeisara á laun í Villafranca og þar ákváðu þeir að Austurríkismenn héldu Venetó en Frakkar fengju Langbarðaland sem þeir létu ganga beint áfram til Sardiníu. Stjórnir miðítölsku ríkjanna Toskana, Módena og Parma, sem flestar voru flúnar til Austurríkis, skyldu endurreistar.

Þúsundmannaleiðangurinn[breyta | breyta frumkóða]

Garibaldi árið 1866.

Cavour og stjórn Sardiníu urðu fyrir miklu áfalli við þessi sinnaskipti Napóleons og þegar Viktor Emmanúel ákvað að eina leiðin væri að beygja sig sagði Cavour af sér. Hersveitir Sardiníu lögðu samt fljótlega Toskana, Módena, Parma og Páfahéruðin Ferrara, Romagna og Bologna undir sig, svo samkomulagið var í raun þegar fallið. Nú voru því fjögur ríki eftir á Ítalíuskaganum: Konungsríkið Sardinía, mikið stækkað, Venetó undir stjórn Austurríkismanna, Páfaríkið og Ríki Sikileyjanna tveggja. 1860 leiddi Garibaldi Þúsundmannaleiðangurinn til Sikileyjar og lagði eyjuna undir sig um sumarið. Í september hélt hann með lið yfir Messínasund. 6. september flúði Frans 2. konungur frá Napólí með 4000 manna lið og Garibaldi hélt inn í borgina sem sigurvegari. Cavour héldu til móts við hann úr norðri eftir stutt átök við hersveitir páfa. Garibaldi og Viktor Emmanúel mættust á frægum fundi í bænum Teano þar sem Garibaldi heilsaði honum sem konungi Ítalíu. 18. febrúar 1861 kallaði Viktor Emmanúel saman fyrsta þing Ítalíu í Tórínó og 17. mars lýsti þingið hann konung Ítalíu.

Þriðja ítalska sjálfstæðisstríðið og hertaka Rómar[breyta | breyta frumkóða]

Nú var nær öll Ítalía undir stjórn Viktors Emmanúels og sameiningarsinna en eftir var að leysa rómverska vandamálið og Venetó var enn undir stjórn Austurríkis. Þegar Austurrísk-prússneska stríðið braust út 1866 nýtti stjórn Ítalíu tækifærið og lagði Feneyjar undir sig og gerði bandalag við Prússland. Með friðarsamningunum misstu Austurríkismenn Venetó til Ítalíu fyrir milligöngu Frakka.

Þótt Napóleon hefði hingað til stutt kröfur Ítala þá var hann ekki tilbúinn til að láta þeim Róm eftir. Tilraun Garibaldis til að leggja borgina undir sig 1867 mátti sín lítils gegn franska setuliðinu í Róm. En 1870 upphófst Fransk-prússneska stríðið og Napóleon neyddist til að kalla frönsku herdeildirnar í Róm heim. Ítalski herinn lagði borgina undir sig eftir skammvinn átök 20. september sama ár og Píus 9. lýsti því yfir að hann væri fangi í Vatíkaninu. Vatíkanið neitaði að viðurkenna ítalska ríkið fram að Lateransamningunum 1929.

Konungsríkið Ítalía[breyta | breyta frumkóða]

Yfirbyggða verslunargatan Galleria Vittorio Emanuele II í Mílanó var reist á árunum 1865-1877.

Ítalska konungsríkið var í reynd aðeins stækkuð útgáfa Konungsríkisins Sardiníu sem var þingbundin konungsstjórn samkvæmt albertínsku grunnlögunum frá 1848. Konungur tilnefndi ríkisstjórn sem bar ábyrgð gagnvart honum en ekki gagnvart þinginu. Konungur skipaði að auki beint hermálaráðherrana (her og flota) og hafði frumkvæði í utanríkismálum. Kosningarétt höfðu aðeins 2% þjóðarinnar. Lýðræðislegur grundvöllur ríkisins var því mjög takmarkaður. Að auki þurfti ríkið að kljást við ójöfnuð milli suðurs og norðurs og andstöðu kirkjunnar við hið nýja ríki. Upphaflega var stjórnin í höndum hægrimanna (íhaldsmanna), stórjarðeigenda og iðnjöfra, sem komu á stórum iðnfyrirtækjum með aðstoð ríkisins á Norður-Ítalíu og iðnvæðingu landbúnaðarins. Þessar aðgerðir skildu alþýðuna á Suður-Ítalíu í reynd eftir meðan uppgangur var á Norður-Ítalíu. 1876 komust vinstrimenn (frjálslyndir) til valda í ríkisstjórn Agostino Depretis eftir þrengingar sem heimskreppan 1873 olli. Ríkisstjórnir Depretis komu á virkri beitingu verndartolla og stóðu fyrir stórum verkefnum á vegum ríkisins sem skapaði mörg störf. Þær beittu meiri hörku gegn mótmælendum, en afnámu um leið skuldafangelsi og komu á almennri skólaskyldu. 1882 gerðist Ítalía aðili að Þríveldabandalaginu með Þýskalandi og Austurrísk-ungverska keisaradæminu.

Nýlenduveldið[breyta | breyta frumkóða]

Ítalska nýlenduveldið árið 1940.

1887 komst Francesco Crispi til valda og hóf að leggja meira upp úr utanríkisstefnunni. Crispi reyndi að gera Ítalíu að nýlenduveldi og jók framlög til hermála. Fyrsta nýlenda Ítalíu varð til þegar ítalska ríkið keypti kolastöðina Assab við strendur Rauðahafsins 1882. Fimmta febrúar 1885 tóku ítalir yfir hafnarborgina Massawa sem hafði verið hersetinn af Egyptum eftir hernaðarleiðangur Ísmaels Pasja gegn Súdan. Þetta gerðu þeir með samþykki breska heimsveldisins sem þó hafði lofað hinu landlukta eþíópíska keisaradæmi að nota höfnina fyrir inn og útflutning í Hewett sáttmálanum frá 1884. Þetta litu Eþíópíumenn á sem svik og var þetta undirstaðan að komandi deilum milli Ítala og Eþíópíumanna. Frá 1889 gerði ítalska konungsríkið gerði röð samninga við sómalska soldána sem tryggðu Ítalíu yfirráð yfir löndum þeirra. Þetta leiddi til stofnunar nýlendunnar Ítalska Sómalíuland árið 1908. Árið 1889 skrifuðu Ítalir og Eþíópíumenn undir Ucalle-sáttmálanum um frið milli landanna og frjálsa verslun milli Ítölsku Eritreu og Eþíópíu. Ucalle-sáttmálinn var undirritaður í tveimur eintökum , einu á ítölsku og einu á amharísku. Ítalska útgáfan gerði Eþíópíska keisaradæmið að verndarsvæði Ítalska konungsríkisins þar sem 17 grein sagði öll samskipti Eþíópíu við erlend ríki verða að fara í gegnum Ítalu. Amharíska útgáfan af 17 grein verndaði hinsvegar sjálfstæði Eþíópíu og sagði einungis að Eþíópíski keisarinn Menelik 2. gæti notað diplómataþjónustu Ítala til að eiga samskipti við önnur ríki ef hann vildi. Tigray-hérað varð fljótt bitbein milli landanna tveggja og Menelik 2. rifti Ucalle-sáttmálanum opinberlega 1893. Stríð braust 15. desember 1894 þegar Batha Agos höfðingi Okule Kusai-héraðs í Eritreu lýsti því yfir að Okule Kusai-hérað væri nú hluti af Tigray-héraði. Árið 1895 gerðu Ítalir innrás í Tigray-hérað og hófu þar með fyrra stríð Ítalíu og Eþíópíu. Stríðinu lauk eftir orrustuna við Adúa, fyrsta mars 1896 þar sem ítalski nýlenduherinn var nánast þurrkaður út af her Meneliks 2. keisara.

Ítalir neyddust til að semja frið og Eþíópía hélt sjálfstæði sínu og Ítalir hörfuðu aftur til Eritreu.[28] 1892 myndaði Giovanni Giolitti sína fyrstu ríkisstjórn, en hann varð oft forsætisráðherra í upphafi 20. aldar. 1911 sagði ríkisstjórn hans Tyrkjaveldi stríð á hendur og lagði Líbýu undir sig. Innrásin og innlimum Líbýu í kjölfarið var vatn á myllu þjóðernissinna en kom sér ekki endilega vel fyrir Giolitti sjálfan.

Fyrri heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Skömmu fyrir upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar stóð Ítalía frammi fyrir ýmsum vandamálum á alþjóðavettvangi. Bandalagið við Prússa skapaði andúð hjá Frökkum og vegna nýlendustefnu þeirra í Afríku lenti ríkið upp á kant við bæði Bretland og Þýskaland sem litu á Ítalíu sem keppinaut og hugsanlega ógnun. Að auki keppti Ítalía við Grikkland um yfirráð á Miðjarðarhafinu: bæði ríkin höfðu hugsað sér að innlima Albaníu og Ítalir höfðu lagt undir sig grískumælandi eyjarnar Dodecanese og Ródos sem áður voru undir Tyrkjaveldi milli 1912 og 1914.

Innanlands var líka pólitískur óstöðugleiki. Ríkisstjórnin reyndi að fá stuðning hægrimanna og þjóðernissinna, en jafnaðarmenn voru mjög á móti þátttöku í stríði. Ýmsar fylkingar vinstrimanna stóðu fyrir mótmælum, skyndiverkföllum, borgaralegri óhlýðni og jafnvel skemmdarverkum, í mótmælaskyni. Þjóðernissinnaðir fylgismenn þátttöku og vinstrisinnaðir andstæðingar þátttöku börðust á götum úti og blóðug uppþot áttu sér stað í helstu borgum landsins. Þjóðskáldið Gabriele D'Annunzio og ritstjórinn Benito Mussolini hvöttu eindregið til stríðs gegn Austurríki til að endurheimta ítölskumælandi héruðin Trentó og Tríeste.

Ítalskur hermaður býst til að henda handsprengju úr skotbyrgi.

Herför Ítala gegn Austurríki gekk hörmulega í fyrstu. Þrátt fyrir að vera með mjög dreifðan herstyrk á Balkanskaga tókst Austurríkismönnum að reka ítalska herinn langt inn fyrir landamærin allt suður til Veróna og Padúu. Haustið 1917 sömdu Þjóðverjar frið við Sovétríkin og sameinaðir herir Þjóðverja og Austurríkismanna sóttu gegn Ítalíu. Við Piave tókst hernum að stöðva framrás innrásarherjanna og Ítalir unnu mikilvæga sigra í orrustunni við Asiago og orrustunni við Vittorio Veneto. Stríðinu lauk með vopnahléi 11. nóvember 1918.

Versalasamningarnir urðu Ítölum sár vonbrigði. Þótt þeir fengju héruð í norðausturhlutanum þá fengu þeir ekki kröfum sínum framgengt um innlimum Dalmatíu og Albaníu þar sem Woodrow Wilson beitti fyrir sig hugmyndinni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Að auki ákváðu Bretar og Frakkar að skipta nýlendum Þjóðverja milli sín og Ítalía fékk enga þeirra. Samningarnir ollu gríðarlegri óánægju á Ítalíu þar sem stjórnmálaástandið var þegar eldfimt þegar erfiðleikarnir eftir stríð komu í ljós, uppgjafarhermenn sneru aftur, margir örkumlaðir, og efnahagsþrengingar brustu á.

Fasisminn[breyta | breyta frumkóða]

23. mars 1919 stofnaði Benito Mussolini hreyfinguna Fasci italiani di combattimento í Mílanó. Stofnunin fór fram undir verndarvæng þekkts iðnjöfurs, Cesare Goldmann, sem áður hafði fjármagnað útgáfu blaðs Mussolinis. Hlutverk þessara fyrstu „bardagaknippa“ var enda að aðstoða iðnrekendur í baráttu gegn aðgerðum jafnaðarmanna. Meðal þeirra sem voru viðstaddir stofnunina var flugmaðurinn Italo Balbo. Einkennisfatnaður þessara fyrstu fasista voru svartar skyrtur. Ofbeldi fasista fór vaxandi samfara vaxandi andstöðu jafnaðarmanna við ríkisstjórn Giolittis frá 1920. Fyrir kosningarnar 1921 ákvað Giolitti að taka nokkra fasista með á kosningalista sinn. Eftir kosningarnar náði hann ekki að mynda meirihluta og bauð því fasistum að taka þátt í ríkisstjórn en þeir höfnuðu því og gerðu bandalag við jafnaðarmenn til að fella stjórnina. 1922 var allsherjarverkfall sem lamaði allt samfélagið. Mussolini nýtti þetta tækifæri og krafðist pólitískra valda ella myndi hann gera stjórnarbyltingu. Þegar ekkert svar kom hóf hann Rómargönguna í lok október sem lyktaði með valdatöku fasista þegar Viktor Emmanúel 3. lét Mussolini fá stjórnarmyndunarumboð.

Fyrsta ríkisstjórn Mussolinis var samsteypustjórn þjóðernissinna, frjálslyndra og kristilegra fylkinga. Eftir morðið á sósíalíska þingmanninum Giacomo Matteotti 10. júní 1924 varð stjórnin í vaxandi mæli einræðisstjórn fasista og með frægri ræðu í janúar 1925 lýsti Mussolini yfir flokksræði í reynd. Ríkið tók yfir stjórn stærstu iðnfyrirtækja, bjó til ríkisrekin verkalýðsfélög og notaði lögregluna til að berja niður andstöðu. Efnahagsstjórn fasista fólst í að hindra innflutning og koma á innlendri framleiðslu á öllum nauðsynjavörum. Með þessum hætti tókst Ítalíu að komast hjá verstu afleiðingum heimskreppunnar. 1929 gerði stjórnin Lateransamningana við Páfaríkið sem fól í sér viðurkenningu ítalska ríkisins af hálfu páfa og afmörkun Vatíkansins sem borgríkis í Róm. 1935 réðust Ítalir svo inn í Eþíópíu. Abbyssiníudeilan olli því að alþjóðasamfélagið beitti landið viðskiptaþvingunum. Fyrsta löggjöfin sem útilokaði gyðinga frá opinberu lífi var samþykkt 1938 en þrátt fyrir gyðingaofsóknir og löggjöf sem byggði á kynþáttahyggju reyndi fasistastjórnin ekki að útrýma gyðingum á Ítalíu með markvissum hætti líkt og Þýskalandi Hitlers. Um 8000 ítalskir gyðingar létust samt í útrýmingarbúðum nasista. Þeir voru fluttir þangað bæði á vegum ítalskra stjórnvalda, eftir þrýsting frá nasistum, og eins af þýska hernámsliðinu eftir 1943.

Síðari heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Í lok 4. áratugarins gerði Ítalía hernaðarbandalag við Þýskaland (Stálbandalagið) og var eitt af Öxulveldunum í upphafi Síðari heimsstyrjaldar. Ítalir hófu formlega þátttöku í stríðinu með illa undirbúinni innrás í Frakkland 10. júní 1940. Ítalir náðu, þrátt fyrir töluvert mannfall, að leggja undir sig nokkur frönsk héruð sem þeir héldu til 1943. Átökum við Breta í Norður- og Austur-Afríku lyktaði með fullkomnum ósigri og missi allra nýlendna Ítalíu í Austur-Afríku.

Ítölum gekk betur á Balkanskaganum til að byrja með. Mussolini nýtti tækifærið þegar Hitler réðist á Tékkóslóvakíu og Pólland og lagði Albaníu undir sig í apríl 1939. Í október hóf ítalski herinn innrás í Grikkland. Sú hernaðaraðgerð mistókst gersamlega og gríski herinn hrakti Ítali aftur til Albaníu. 6. apríl 1941 hóf Þýskaland árás á Júgóslavíu og Grikkland með stuðningi Ítala. Brátt gáfust bæði löndin upp og Ítalir tóku við stjórninni í Grikklandi. Vorið 1941 hafði Ítalía innlimað strönd Dalmatíu og komið á leppstjórn í Svartfjallalandi.

Bandarískur skriðdreki á Sikiley 1943.

1942 yfirgaf stríðsgæfan Ítali með afgerandi hætti. Eftir orrustuna við El Alamein var her Öxulveldanna hrakinn frá Túnis og Líbýu og 10. júlí 1943 gerðu Bandamenn innrás á Sikiley. Missir eyjarinnar og loftárásir á Róm urðu til þess að stuðningur við þátttöku í styrjöldinni snarminnkaði meðal almennings á Ítalíu. 25. júlí var Mussolini steypt af stóli af Fasistaráðinu í Róm. Ný ríkisstjórn tók við undir forsæti Badoglios hershöfðingja og hóf leynilegar samningaviðræður við Bandamenn. Í september hófu hersveitir Bandamanna landgöngu á Ítalíuskaganum og 8. september var tilkynnt vopnahlé. Um leið tóku Þjóðverjar ítalska hermenn höndum, afvopnuðu þá, og tóku yfir stjórn þeirra svæða sem Ítalía hélt hernámi á Balkanskaganum og í Frakklandi.

Þýski herinn frelsaði Mussolini, sem var í haldi Bandamanna, og flutti hann til Norður-Ítalíu þar sem hann stofnaði Saló-lýðveldið sem var leppríki Þjóðverja. Þangað söfnuðust þeir sem enn voru trúir fasistastjórninni og börðust gegn sókn Bandamanna úr suðri með aðstoð þýska hersins. Um alla Norður-Ítalíu fór fram skæruhernaður milli herflokka fasista og þjóðverja og andspyrnumanna sem lauk ekki fyrr en með vorsókn Bandamanna inn á Pósléttuna 1945. Mussolini var drepinn af andspyrnumönnum 28. apríl 1945.

Lýðveldið Ítalía[breyta | breyta frumkóða]

Þegar bardögum lauk sumarið 1945 kom í ljós að Ítalía var mjög illa farin eftir herfarir Þjóðverja og Bandamanna. Að auki var stjórnskipan ríkisins í uppnámi eftir afnám tveggja áratuga flokkræðis fasista og efnahagurinn í rúst eftir dýran stríðsrekstur. Konungurinn, Viktor Emmanúel 3., var gríðarlega óvinsæll, bæði vegna þess að hann var talinn bera ábyrgð á valdatöku fasista og eins vegna þess að hann hafði flúið frá Róm þegar þýski herinn lagði borgina undir sig um stutt skeið 1944. 1946 sagði hann af sér og sonur hans Úmbertó 2. tók við. Hann ríkti í 40 daga þar til ákveðið var með þjóðaratkvæðagreiðslu að leggja konungdæmið niður og stofna lýðveldi. Um leið var kosið til stjórnlagaþings sem hafði það verkefni að semja nýja stjórnarskrá.[29]

Alcide De Gasperi árið 1953.

Stærstu flokkarnir á stjórnlagaþinginu voru kristilegir demókratar (sem var langstærstur) ítalski sósíalistaflokkurinn og ítalski kommúnistaflokkurinn sem tóku allir þátt í þjóðstjórn undir stjórn Alcide De Gasperi, stofnanda kristilega demókrataflokksins. Eftir ferð til Bandaríkjanna 1947 þar sem hann náði að tryggja Ítölum efnahagsaðstoð, myndaði hann nýja ríkisstjórn án þátttöku sósíalista og kommúnista. Í þingkosningunum 1948, í skugga hins yfirvofandi kalda stríðs, unnu kristilegir demókratar yfirburðasigur með 48,5% atkvæða. 1949 gerðist Ítalía stofnaðili að NATO og á 6. áratugnum fékk landið Marshallaðstoð og gerðist aðili að Evrópubandalaginu.

Ítalska efnahagsundrið[breyta | breyta frumkóða]

Fiat 600: tákn ítalska efnahagsundursins.

Gríðarlegur uppgangur var í ítalska efnahagslífinu undir lok 6. áratugarins. Laun hækkuðu um 6,4%, 5,8%, 6,8% og 6,1% á árunum 1959, 1960, 1961 og 1962. Ört vaxandi heimsmarkaður fyrir framleiðsluvörur átti stóran þátt í vexti efnahagslífsins og endalok efnahagslegrar verndarstefnu fasistastjórnarinnar bjuggu til kjöraðstæður fyrir eflingu fyrirtækja og markaða. Iðnframleiðsla óx að meðaltali um 31,4% frá 1957 til 1960 og vöxturinn var mestur í þeim greinum þar sem stórfyrirtæki voru ráðandi eins og í bílaframleiðslu, fínsmíði og framleiðslu vefnaðarvöru úr gerviefnum. Á sama tíma áttu sér stað gríðarlegir fólksflutningar, aðallega ungs fólks, frá hinum fátæku landbúnaðarhéruðum Suður-Ítalíu til Norður-Ítalíu.

Tákn efnahagsuppgangsins voru nýbyggð blokkarhverfi í úthverfum borga Norður-Ítalíu og litlir fólksbílar eins og Fiat 500 og Fiat 600 sem verkafólk hafði nú í fyrsta sinn efni á að eignast. Þessir bílar táknuðu ekki síst aukið frelsi samfara auknum kaupmætti almennings. Meiri bílaumferð kallaði á nýjar hraðbrautir, eins og Autostrada del Sole milli Mílanó og Napólí sem var vígð 4. október 1964.

Vinstri-miðjustjórnirnar[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi 7. áratugarins fóru kristilegir demókratar að leita eftir samstarfi við jafnaðarmenn, aðallega til þess að koma á félagslegum umbótum fyrir lágstéttirnar og lægri millistéttirnar sem þeir óttuðust að myndu annars fylla raðir kommúnista. Atvinnudeilur voru tíðar í upphafi áratugarins, verkafólk vann langan vinnudag og kröfur um betri aðbúnað urðu háværari í takt við aukna velmegun. Fyrst í langri röð vinstri-miðjustjórna var ríkisstjórn Aldo Moro 1963 með þátttöku hinna hefðbundnu miðjuflokka og ítalska sósíalistaflokksins. Sósíalistaflokkurinn margklofnaði á þessum tíma um leið og stærsta stjórnarandstöðuaflið, ítalski kommúnistaflokkurinn, missti hinn vinsæla leiðtoga sinn, Palmiro Togliatti, sem verið hafði aðalritari flokksins frá 1927.

Blýárin[breyta | breyta frumkóða]

Ljósmynd sem ræningjar Aldo Moro sendu frá sér.

Stúdentaóeirðirnar undir lok 7. áratugarins juku enn á óstöðugleikann á vinstri væng stjórnmálanna og upp spratt mikill fjöldi róttækra stjórnmálahreyfinga sem voru í andstöðu við hinn íhaldssama kommúnistaflokk. 12. desember 1969 sprakk sprengja á Piazza Fontana í Mílanó með þeim afleiðingum að sautján dóu. Sama dag sprungu fjórar aðrar sprengjur í Mílanó og Róm. Þessi hryðjuverk mörkuðu upphaf blýáranna sem stóðu allan 8. áratuginn. Blýárin einkenndust af hryðjuverkum og vopnuðum átökum róttækra hópa á hægri og vinstri væng stjórnmálanna. Hvorir um sig reyndu markvisst að skapa ótta meðal almennings við andstæðinginn, stjórnvöld eða sjálfa sig með aðgerðum sínum. Enn ríkir mikil óvissa um það hverjir stóðu fyrir tilteknum árásum og í hvaða pólitíska tilgangi, því yfirlýstur tilgangur var oft aðeins ætlaður til þess að koma sökinni yfir á andstæðingana.

Árið 1978 var fyrrum forsætisráðherra kristilegra demókrata, Aldo Moro, rænt af Rauðu herdeildunum fyrir það að hann hugðist koma á sögulegum sáttum með þátttöku ítalska kommúnistaflokksins í ríkisstjórn undir forsæti demókrata. Sundurskotið lík hans fannst í farangursgeymslu bifreiðar sem lagt hafði verið miðja vegu milli flokksskrifstofa demókrata og kommúnista í Róm. Síðasta tilræðið sem kennt er við þennan tíma var blóðbaðið í Bologna 1980 sem talið er að ungir hægriöfgamenn hafi staðið að.

Baráttan við mafíuna[breyta | breyta frumkóða]

Fáni með mynd rannsóknardómaranna Falcone og Borsellino sem voru myrtir af mafíunni 1992.

Á stríðsárunum óx sikileysku mafíunni fiskur um hrygg og bandaríska og breska hernámsliðið litu jafnvel á þá sem mikilvægan hlekk í baráttunni gegn kommúnistum. Í kjölfar stríðsins högnuðust skipulögð glæpasamtök gríðarlega á smygli og á tímum efnahagsuppgangsins urðu þau stærri og skipulögðu aðgerðir um allan heim. Í upphafi 7. áratugarins átti fyrsta mafíustríðið sér stað vegna átaka um yfirráð yfir heróínmarkaðnum. Í kjölfar þess var mafíuþingnefndin stofnuð til að berjast gegn starfseminni. Undir lok 8. áratugarins braust annað mafíustríðið út milli Corleonefjölskyldunnar og gömlu mafíufjölskyldnanna í Palermó. Meira en þúsund manns voru myrtir og á endanum stóð höfuð Corleonefjölskyldunnar, Salvatore Riina, uppi sem sigurvegari.

Sérstök deild ríkissaksóknara, sem taldi meðal annars Giovanni Falcone og Paolo Borsellino, vann að því að takast á við mafíuna í heild. Þessi viðleitni var undirbúningur að stórréttarhöldunum 1986/1987 þegar mörg hundruð manns voru dregin fyrir rétt fyrir þátttöku í mafíustarfsemi. Saksóknari nýtti sér einkum framburð glæpaforingjanna sjálfra (pentiti) eins og Salvatore Contorno og Tommaso Buscetta gegn Corleonefjölskyldunni. Réttarhöldin leiddu til fjölda sakfellinga en í reynd þurftu fáir að þola refsingar. Margir voru drepnir í kjölfarið og 1992 voru Falcone og Borsellino myrtir með stuttu millibili. Engu að síður gáfu réttarhöldin vísbendingu um að mafían væri ekki ósigrandi. Smám saman tókst að vinda ofan af fjárhag samtakanna með alþjóðlegu lögreglusamstarfi og um miðjan 10. áratuginn var sikileyska mafían talin vera nánast gjaldþrota.

Mani pulite[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi 10. áratugarins hóf vinstri-miðjustjórn undir forystu sósíalistans Craxis einkavæðingarferli í kjölfar fyrstu umferðar innleiðingar Efnahags- og myntbandalags Evrópu sem hófst 1. júlí 1990 með því að allar hömlur á frjálst flæði fjármagns milli landa bandalagsins skyldu afnumdar. 1992 var gengi lírunnar fellt í kjölfar fjármálakreppu og hún datt við það út úr peningakerfi Evrópu. Kreppan stafaði meðal annars af vaxandi skuldum hins opinbera sem höfðu vaxið gríðarlega frá miðjum 9. áratugnum. Á sama tíma hóf hópur rannsóknardómara í Mílanó rannsókn á spillingu meðal flokksgæðinga stjórnarflokkanna og mútugreiðslur frá iðnjöfrum og mafíunni. Spillingarrannsóknin vatt upp á sig og leiddi í ljós víðtækt kerfi spillingar í ítalska stjórnkerfinu og innan stjórnmálaflokkanna. Verst úti urðu stjórnarflokkarnir tveir, kristilegir demókratar og sósíalistar. Báðir hurfu þeir af sjónarsviðinu í kjölfarið. Með því lauk samfelldum valdatíma kristilegra demókrata í ítölskum stjórnmálum frá stríðslokum.

Silvio Berlusconi árið 2010.

Fyrir þingkosningar 1994 stofnaði þekktur athafnamaður frá Mílanó, Silvio Berlusconi, hægriflokkinn Forza Italia. Flokkurinn náði að mynda ríkisstjórn með stuðningi Þjóðarbandalagsins (Alleanza Nazionale) arftaka Þjóðernishreyfingar Ítalíu, arftaka ítalska fasistaflokksins, og Norðursambandsins (Lega Nord) sem hafði meðal annars á stefnuskrá sinni að skilja Norður-Ítalíu frá Mið- og Suður-Ítalíu. Ríkisstjórnin sat aðeins í rúma átta mánuði en með henni var komið fordæmi fyrir eins konar tveggja fylkinga kerfi þar sem kosningabandalag hægriflokka fer gegn kosningabandalagi vinstriflokka í kosningum. Fylkingarnar hafa síðan skipst á að mynda stjórn. Árið 2001 tókst Berlusconi að mynda langlífustu ríkisstjórn Ítalíu frá upphafi. Hann sat sem forsætisráðherra til 2006 þegar Einingarbandalagið vann nauman sigur á Húsi frelsisins í kosningum og Romano Prodi myndaði ríkisstjórn vinstri- og miðjuflokka með mjög naumum meirihluta. Sú ríkisstjórn féll í febrúar 2008.

Evran og vaxtaverkir efnahagslífsins[breyta | breyta frumkóða]

Ítalía var þátttakandi í myntbandalagi Evrópu og tók upp evru sem gjaldmiðil árið 2002. Almennt séð hefur Evrópusamstarfið skapað forsendur fyrir aukinn efnahagslegan stöðugleika þrátt fyrir pólitískan óstöðugleika. Frá árinu 2000 hefur atvinnuástand á Ítalíu batnað, meðal annars vegna sveigjanlegri starfssamninga sem hægriflokkarnir lögleiddu þrátt fyrir andstöðu verkalýðsfélaganna. Lág laun eru ennþá algeng um leið og verðlag hefur nánast tvöfaldast um alla Ítalíu frá því evran var tekin upp. Ítalska ríkið glímir við vandamál sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi og vaxandi átök og óeirðir sem stafa af upplifun almennings af innflytjendum frá Kína, Albaníu, Rúmeníu og Norður-Afríku auk ótta við hryðjuverk. Ítalskt efnahagslíf stendur sterkt í ýmsum greinum eftir að hafa staðið af sér samkeppni frá Asíu í útflutningi framleiðsluvara, en það þarf líka að glíma við afleiðingar verðhækkana og krafna um hærri laun.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sjá kaflann it:Etimologia del nome Italia á ítölsku wikipediu.
  2. Um elstu jarðsögu Ítalíuskagans sjá Antonio Vecchia. „La struttura geologica d'Italia“. Cose di scienza.
  3. Samkvæmt tilgátunni um „gömlu Evrópu“ flutti Homo ergaster frá Afríku með öðrum stórum spendýrum í upphafi pleistósentímabilsins.
  4. Um forsögulegan tíma á Ítalíu sérstaklega sjá Margherita Mussi, Earliest Italy: An Overview of the Italian Paleolithic and Mesolithic, New York: Kluwer Academic / Plenum Publishers, 2001.
  5. Ceprano-hauskúpan eru elstu mannabein sem fundist hafa á Ítalíu og eru talin 800-900.000 ára gömul (sjá t.d. Rick Gore og Kenneth Garrett, „The first Europeans“, National Geographic, vol. 192, júlí 1997, s. 96-114).
  6. Sjá t.d. Altamuramanninn (it:Uomo di Altamura).
  7. Sjá fr:Vénus de Savignano
  8. Um breytinguna frá miðsteinöld til nýsteinaldar sjá t.d. Caroline Malone, „The Italian Neolithic: A Synthesis of Research“, Journal of World Prehistory, Vol. 17, Nr. 3, september 2003, s. 235-312.
  9. Lionello Bianchi. „Quando i padani vivevano sulle palafitte“. Storia in Network.
  10. Mark Pearce, „The Italian Bronze Age“, Ancient Europe 8000 B.C.-A.D 1000: encyclopedia of the Barbarian world., vol. 1, New York: Charles Scribner's Sons, 2004, s. 34-41.
  11. Bartoloni Gilda, La cultura villanoviana. All'inizio della storia etrusca, Róm: Carocci editore, 1989.
  12. T.d. ævisögur Plútarkosar οἱ βίοι παράλληλοι (bioi paralleloi) frá 2. öld e.Kr. og Ab Urbe condita eftir Titus Livius frá 1. öld f.Kr..
  13. R.S.P. Beekes (2003). „The Origin of the Etruscans“ (PDF).
  14. „Phoenicia“. Encyclopædia Britannica Online. Sótt 2. apríl 2008.
  15. Sjá N. Keith Rutter, „Travels in Greek Italy“, The Classical Journal, vol. 62, n. 4, janúar 1967, ss. 157-163.
  16. Sjá greinina en:Etruscan language á ensku wikipediu.
  17. Titus Livius, Ab Urbe condita, Liber I (The Latin Library).
  18. Ludwig Heinrich Dyck, „Rome's Vengeance on the Gauls“, Military History, vol. 23, iss. 7, október 2006, s. 51-56 (ProQuest)
  19. Um sögu Rómaveldis má m.a. lesa hjá Will Durant, Rómaveldi I-II. Jónas Kristjánsson (þýð.) (Reykjavík: Mál og menning, 2. útg. 1993) og William G. Sinnigen og Arthur E.R. Boak, A History of Rome to A.D. 565 6. útg. (New York: Macmillan, 1977).
  20. Geir Þ. Þórarinsson. „Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku?“. Vísindavefurinn 8.11.2005. http://visindavefur.is/?id=5389. (Skoðað 21.3.2008).
  21. Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær ríktu Rómverjar? “. Vísindavefurinn 10.8.2007. http://visindavefur.is/?id=6751. (Skoðað 21.3.2008).
  22. Geir Þ. Þórarinsson. „Hvenær ríktu Rómverjar? “. Vísindavefurinn 10.8.2007. http://visindavefur.is/?id=6751. (Skoðað 21.3.2008).
  23. Um skipktingu Rómaveldis má m.a. lesa hjá Geir Þ. Þórarinssyni. „Hvers vegna klofnaði Rómverska keisaradæmið í austur- og vesturhluta?“. Vísindavefurinn 8.1.2008. http://visindavefur.is/?id=6988. (Skoðað 21.3.2008).
  24. Um fall Rómaveldis má lesa hjá Stefáni Gunnari Sveinssyni. „Hvað getiði sagt mér um fall Rómaveldis?“. Vísindavefurinn 19.7.2006. http://visindavefur.is/?id=6071. (Skoðað 21.3.2008).
  25. Frumheimild um sögu Langbarða er Paulus Diaconus. „Historia Langobardorum“. Wikiheimild (la). Sótt 2. apríl 2008.
  26. Um samband listamanna og listaverkakaupenda í Flórens á endurreisnartímanum sjá Michael Baxandall, Painting and Experience in 15th century Italy: a primer in the social history of pictorial style, Oxford University Press, 1972.
  27. Sjá t.d. en:Platonism in the Renaissance.
  28. Berkley, George F.H. (1902). The Campaign of Adowa and the Rise of Menelik. Archibald Constable & Company. bls. 345–350.
  29. Sögu ítalska lýðveldisins frá 1948 til dagsins í dag eru gerð ágæt skil í bókum Paul Ginsborg, A History of Contemporary Italy: Society and Politics, 1943-1988 (London: Penguin, 1990) og Italy and Its Discontents: Family, Civil Society, State: 1980-2001 (London: Penguin, 2001).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist