Listamannadeilan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Listamannadeilan var deila menntamálaráðs, undir forystu Jónasar Jónssonar frá Hriflu og íslenskra myndlistarmanna sem átti sér stað 1941-1942. Deilan náði hámarki þegar Jónas setti upp „háðungarsýningu“ á verkum nokkurra listamanna í búðarglugga Gefjunar í Aðalstræti í Reykjavík 26. apríl 1942.

Ávarpið[breyta | breyta frumkóða]

Aðdragandi deilunnar var að fjórtán myndlistarmenn sendu Alþingi um mitt ár 1941 kvörtun vegna listaverkakaupa menntamálaráðs fyrir íslenska ríkið og hvöttu til þess að í ráðinu sæti einhver sem hefði sérþekkingu á myndlist. Listamennirnir voru ósáttir við þá afstöðu ráðsins að kaupa einungis frásagnarlist með þjóðlegu myndefni en sniðganga verk mikils meirihluta menntaðra myndlistarmanna. Ávarpið var birt í Morgunblaðinu 7. maí. Undir það skrifuðu Þorvaldur Skúlason, Ásgrímur Jónsson, Finnur Jónsson, Ásmundur Sveinsson, Gunnlaugur Scheving, Jón Engilberts, Sveinn Þórarinsson, Jón Þorleifsson, Marteinn Guðmundsson, Jóhann Briem, Jóhannes Kjarval, Kristín Jónsdóttir, Karen Þórarinsson og Nína Tryggvadóttir.[1]

Menntamálaráð brást skjótt við með svari 20. maí þar sem það réttlætti listaverkakaup sín[2] og listamenn svöruðu aftur 22. maí.[3] Ekki bætti úr skák að árið 1941 keypti ráðið ekkert verk af íslenskum myndlistarmönnum og bar við fjárskorti, og auk þess báru reikningar þess með sér að einungis einn þriðji þess fjár sem ráðinu hefði verið fenginn til kaupanna hefði verið nýttur til þeirra frá stofnun ráðsins 1928.

Tímagreinarnar[breyta | breyta frumkóða]

Í upphafi árs 1942 birti Jónas Jónsson greinaröðina „Skáld og hagyrðingar“ í Tímanum þar sem hann lýsti skoðunum sínum á myndlist, kallaði tiltekna myndlistarmenn „klessumálara“ og sakaði þá um að reyna að blekkja fólk til að halda að það sem þeir væru að fást við væri list. Við þessum greinum brást Bandalag íslenskra listamanna hart með nýju ávarpi til Alþingis 16. apríl. [4]

Gefjunarsýningarnar[breyta | breyta frumkóða]

Þann 26. apríl lét Jónas upp á sitt eindæmi setja upp sýningu í búðarglugga verslunarinnar Gefjunar í Aðalstræti í Reykjavík. Sýningin innihélt verkin Þorgeirsboli eftir Jón Stefánsson, Hjörtur Snorrason eftir Gunnlaug Scheving, Kona eftir Jóhann Briem, Í sjávarþorpi eftir Jón Engilberts og Við höfnina og Blá kanna eftir Þorvald Skúlason. Sýningunni var ætlað að draga dár að verkum listamannanna eins og berlega kom fram í grein eftir Jónas sem birtist í Tímanum daginn eftir opnunina og bar titilinn „Er þetta það sem koma skal?“. Sýningin minnti óneitanlega á myndlistarsýninguna Entartete Kunst sem nasistar efndu til árið 1937 og viðbrögðin létu heldur ekki á sér standa með blaðaskrifum manna á borð við Sigurð Nordal prófessor og Stein Steinarr.[5]

2. maí var sýningin tekin niður og önnur sett upp, að þessu sinni á verkum sem væru til eftirbreytni. Þar voru verk eftir Sigurð Guðmundsson og Þórarinn B. Þorláksson, Ríkarð Jónsson, Gunnlaug Blöndal, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Kjarval og Jón Stefánsson, sem einnig hafði átt eftirminnilegasta verkið á fyrri sýningunni, Þorgeirsbola.[6]

Listamannaskálinn[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1942 hafði Bandalag íslenskra listamanna staðið í ströngu í deilunni. Um vorið hafði það breytt um skipulag og var nú samsett úr þremur aðildarfélögum (myndlistarmanna, rithöfunda og tónskálda). Um haustið hélt bandalagið „listamannaþing“ að tillögu Páls Ísólfssonar. Í október voru Alþingiskosningar haldnar og í kjölfarið var skipt um menn í menntamálaráði. Formaður var Valtýr Stefánsson sem hafði gagnrýnt fyrri ákvarðanir ráðsins í blaðagreinum.

Bandalagið ákvað í framhaldi af þinginu að ráðast í að byggja sýningarskála listamanna sem átti að taka á tilfinnanlegum skorti á sýningarhúsnæði í borginni. Úthlutað var lóð við hlið Alþingishússins, milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis. Byggingu skálans, sem síðar gekk alltaf undir nafninu Listamannaskálinn, lauk snemma árs 1943, meðal annars fyrir fé sem safnaðist með happdrætti sem myndlistarmenn efndu til þar sem verk þeirra voru verðlaun.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Listaverkakaup Mentamálaráðs - Ávarp til Alþingis frá listamönnum“. Morgunblaðið, 7. maí. 1941. bls. 5. Sótt 6. janúar 2008.
  2. „Svar Mentamálaráðs til myndlistamannanna þrettán“. Morgunblaðið, 20. maí. 1941. bls. 5. Sótt 6. janúar 2008.
  3. „14 listamenn svara Mentamálaráði“. Morgunblaðið, 22. maí. 1941. bls. 5. Sótt 6. janúar 2008.
  4. „Út af vítaverðu framferði Mentamálaráðs“. Morgunblaðið, 16. apríl. 1942. bls. 3. Sótt 6. janúar 2008.
  5. Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld - II. bindi, Reykjavík, Helgafell, 1973, s. 209-210.
  6. Ibid.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]