Nýfundnaland og Labrador

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nýfundnaland og Labrador
Fáni Nýfundnaland og Labrador Skjaldarmerki Nýfundnaland og Labrador
(Fáni Nýfundnaland og Labrador) (Skjaldarmerki Nýfundnaland og Labrador)
Kjörorð: Quaerite Prime Regnum Dei (Leitið fyrst að konungsríki Guðs)
Kort af Nýfundnaland og Labrador
Önnur kanadísk fylki og yfirráðasvæði
Höfuðborg St. John's
Stærsta borgin St. John's
Fylkisstjóri Andrew Furey (Lib.)
Forsætisráðherra Judy Foote (Frjálslyndisflokkur Nýfundnaland og Labrador)
Svæði 405.212 km² (10. sæti)
 - Land 373.872 km²
 - Vatn 31.340 km² (7,7%)
Fólksfjöldi (2022)
 - Fólksfjöldi 530.000 (9. sæti)
 - Þéttleiki byggðar 1,35 /km² (7. sæti)
Aðild í ríkjabandalagið
 - Dagsetning mars 21, 1949
 - Röð Tíunda
Tímabelti UTC-3,5 & -4
Skipting á þingi
 - Neðri málstofa 7
 - Öldungadeild 6
Skammstafanir
 - Póstur NL
 - ISO 3166-2 CA-NL
Póstfangsforskeyti A
Vefur www.gov.nl.ca
Labrador.
Nýfundnaland.
Gros Morne þjóðgarðurinn.
Á norðurströnd Labrador er fjalllendi.

Nýfundnaland og Labrador er austast af fylkjum Kanada og nær yfir eyjuna Nýfundnaland og fastalandssvæðið Labrador. Fólksfjöldi árið 2022 var um 530.000. Höfuðstaðurinn er St. John's sem er einnig stærsta borgin.

Landsvæði og náttúra[breyta | breyta frumkóða]

Samanlagt er svæðið 405.212 ferkílómetrar að flatarmáli, þar af er Labrador 294.330 km2 og Nýfundnaland 111.390 km2. Það er 4% af landsvæði Kanada. Long Range-fjöllin á Nýfundnalandi eru talin vera norðaustasti hluti Appalasíufjalla. Torngat Fjöll eru í Norður-Labrador og er þar þjóðgarður með sama nafni: Torngat Mountains-þjóðgarðurinn. Þar er hæsta fjall fylkisins Mount Caubvick (1652 m.). Jarðfræðilega er Labrador austasti hluti Kanadaskjaldarins sem er stórgrýttur og jökulsorfinn.[1]

Í Norður-Labrador er túndra en í suðurhlutanum barrskógabelti. Barrskógur er á hluta Nýfundnalands en um þriðjungur Nýfundnalands er skógi vaxinn[2]. Trjátegundir eru aðallega hvítgreni, svartgreni og balsamþinur ásamt birki, ösp og reynivið.

Í Labrador eru 42 tegundir spendýra en aðeins 14 á Nýfundnalandi. Spendýr eins og elgur og íkorni hafa verið flutt til Nýfundnalands. Svartbjörn er á báðum landsvæðunum.

Gros Morne-þjóðgarðurinn liggur á vesturströnd Nýfundnalands og var stofnaður árið 1973. Hann er um 1800 km2 að stærð og er annað af tveimur svæðum á Nýfundnalandi sem eru á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Gros Morne var settur á listann árið 1987 en hinn staðurinn er L'Anse aux Meadows. Í þjóðgarðinum er m.a. Western Brook Pond sem er um 16 km langt stöðuvatn sorfið af ám og jöklum.[3] Terra Nova-þjóðgarðurinn er á austurströndinni.

Churchillfljót í Labrador er yfir 850 kílómetra langt. Það hefur verið virkjað og stendur til að virkja það enn frekar. Stíflan í Churchill Falls er næststærsta neðanjarðarraforkuver í heimi.

Samfélag[breyta | breyta frumkóða]

Um 92% íbúa fylkisins búa á Nýfundnalandi. Um 98% hafa ensku að móðurmáli. Frönskumælandi minnihluti er á Nýfundnalandi vestanverðu. Meirihluti íbúanna eru afkomendur innflytjenda frá Suðvestur-Englandi og suður- og suð-austurhluta Írlands, sem komu snemma á 19. öld. Avalonskaginn er fjölmennasta og þéttbýlasta svæði Nýfundnalands og Labrador en þar er höfuðborgin St. John's.

Í Labrador eru íbúar aðeins tæplega 30.000 eða 8% fylkisins. Stærstu bæirnir þar eru Happy Valley/Goose Bay og Labradorborg. Á norðurströnd Labrador er sjálfstjórnarhéraðið Nunatsiavut sem byggt er inúítum

Olía, járnvinnsla, timbur og pappírsframleiðsla og fiskveiðar eru mikilvægar atvinnugreinar. Á sumrin er ferðaþjónusta mikilvæg.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Frumbyggjar hafa verið á svæðinu í þúsundir ára. Á eyjunni bjuggu tveir indíánaþjóðflokkar – Mi’kmaq (Micmac) og Beothuk. Mi’kmaq-indíánar komu frá fastalandinu og settust líklega að á Nýfundnalandi rétt fyrir eða um svipað leyti og fyrstu Evrópumennirnir komu. Minjar eftir norræna menn hafa fundist í L'Anse aux Meadows og hugsanlegt er að svæðið þar í kring hafi verið það sem þeir nefndu Vínland.

John Cabot/Giovanni Caboto var einna fyrstur Evrópumanna til að sigla til Nýfundnalands frá Evrópu eftir að norrænir menn komu þar. Hann var Ítali en í þjónustu Hinriks 7. Englandskonungs og kom til Nýfundnalands árið 1497. Eftir að Evrópubúar höfðu numið þar land var farið að tala um eyjuna sem Terra nova (nýtt land á latínu). Nafnið Labrador er hins vegar talið búið til úr portúgalska orðinu lavrador (landeigandi) og er nafngiftin eignuð portúgalska landkönnuðinum João Fernandes Lavrador sem var þar á ferð árið 1498.

Ýmsar Evrópuþjóðir veiddu fisk á þessum slóðum eins og Portúgalir, Frakkar, Hollendingar, Spánverjar og Englendingar og kepptust þeir um völd á svæðinu. Englendingar urðu ofan á að lokum.

Nýlendan Nýfundnaland[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1824–25 fékk Nýfundnaland opinbera nýlendustöðu, með borgaralegan ríkisstjóra. Fulltrúastjórn var komið á fót árið 1832 með kosningu til fyrsta þingsins. Árið 1855 var komið á fót ríkisstjórn er sótti vald sitt til kjörinna fulltrúa löggjafans. Níu árum síðar, vegna alvarlegrar efnahagslegra þrenginga, hófst rökræða meðal íbúa um hvort þeir ættu að ganga til liðs við kanadíska ríkjasambandið sem þá var að mótast á meginlandi Kanada. Eftir hörð átök var því hafnað í þingkosningunum árið 1869, með yfirgnæfandi meirihluta.

Napóleonsstyrjaldirnar höfðu þau áhrif, að sókn annarra þjóða á miðin við Nýfundnaland minnkaði mjög en landsmenn juku útveg að sama skapi. Þeir náðu fótfestu á fiskmörkuðunum við Miðjarðarhaf, en einnig opnaðust markaðir í Brasilíu. Þegar friður loks komst á, varð mikið verðfall á utflutningsafurðum.[4]

Upp úr árinu 1890 sáust mörg teikn á lofti um efnahagslegar þrengingar. Árið 1892 varð gífurlegt tjón, þegar þrír fjórðu höfuðstaðarins St. John's brunnu til kaldra kola. Tveimur árum síðar, fóru tveir af helstu bönkum landsins í þrot og ríkisbankinn neyddist til að stöðva viðskipti sín. Gjaldmiðill landsins, dollar Nýfundnalandsbúa, varð verðlaus. Viðskiptalíf tók mikla dýfu og atvinna minnkaði. Bráðabirgðalán frá Bretlandi og Kanada leystu brýnasta vandann. Viðbótarlán, sem fengust í Montreal, New York, og London komu í veg fyrir fullkomið fjármálahrun. Kanadískir bankar urðu umsvifamiklir í fjármálalífi landsins, og seðlar þeirra urðu gjaldmiðill landsins í staðinn dollara Nýfundnalandsbúa.[5]

Til Nýfundnaland héldi sjálfstæði sínu varð ljóst að renna þyrfti fleiri stoðum undir efnahaginn. Því var síðla á 19. öld, ráðist í kostnaðarsama lagningu járnbrauta í þeirri von að það myndi örva iðnþróun. Árangurinn var takmarkaður. Mikilvægi námuvinnsla jókst þó sem og skógariðnaðar. Landbúnaður svæðisins var þróaður.[6] Fiskveiðar voru enn megin atvinnuvegurinn.[7]

Sjálfsstjórnarsvæðið Nýfundnaland[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1907 fékk Nýfundnaland stöðu sjálfsstjórnarsvæðis innan samtaka ríkja í Breska Samveldinu. Breska konungsveldið var áfram „fullvalda“ en valdi krúnunnar var beitt í gegnum stjórnarráðið á Nýfundnalandi, eingöngu ábyrgt gagnvart löggjafanum í höfuðstaðnum St. John's.

Í fyrri heimsstyrjöldinni (1914–18) var framlag Nýfundnalands til bandamanna verulegt, sé horft til íbúafjölda og efnahagsstyrks. Þaðan fór herdeild til Evrópu en hún þurrkaðist næstum öll út á fyrsta degi orrustunnar um Somme í Frakklandi. Herkostnaður Nýfundnalands var gríðarlegur og eftirstríðsárin urðu nýlendunni efnahagslega erfið vegna hárra opinberra skulda. Á sama tíma féll fiskverð verulega, en sjávarútvegur var megin atvinnugreinin.[8] Ríkisstjórnin stóð því frammi fyrir efnahagslegur hruni við upphaf kreppunnar miklu árið 1929. Möguleikinn á vanskilum við greiðslur skulda olli afskiptum Breta. Löggjafarsamkoman kaus brott eigin tilvist árið 1933, í skiptum fyrir lánaábyrgð Bretlands og loforði um að þingið yrði síðar endurreist.[9] Árið 1934 færðist ábyrgð ríkisstjórnar sjálfsstjórnarsvæðisins til ríkisstjórnarnefndar sem heyrði beint undir framkvæmdavaldið í London. Næstu 15 árin voru hvorki haldnar kosningar né kallað saman löggjafarþing.[10]

Í seinni heimsstyrjöldinni var mikil efnahagsleg uppsveifla á Nýfundnalandi og í Labrador. Þangað streymdu kanadískir og bandarískir hermenn og reistar voru stórar herstöðvar við höfuðstaðinn St. John's, en einnig í Argentia, Gander, Stephenville og Goose Bay. Að auki voru minni herstöðvar settar víðar upp.

Sambandsríki Kanada[breyta | breyta frumkóða]

Að stríðinu loknu hófust umræður um stjórnskipulega framtíð Nýfundnalands. Bretar þrýstu á um þjóðaratkvæðagreiðslu um viðeigandi stjórnarform. Kanadamenn, sem höfðu fengið fulla sjálfsstjórn frá Bretum árið 1931, þrýstu á um innlimun Nýfundnalands í sambandsríkið og lofuðu betri kjörum. Þeir óttuðust að ella myndi svæðið ganga til liðs við Bandaríkin, en vera bandarískra herstöðva á svæðinu þýddi töluverð áhrif þeirra. Í áköfum og tilfinningaþrungnum umræðum höfnuðu íbúar samningi um að verða eitt sambandsríki Kanada. Meirihlutinn vildi koma á fyrra stjórnarformi sjálfsstjórnarsvæðisins. Breska ríkisstjórnin setti þó sambandið við Kanada í þjóðaratkvæði 3. júní 1948. Niðurstaða þeirra var ófullnægjandi. Efnt var til annarrar þjóðaratkvæðagreiðsla, mánuði síðar, þann 22. júlí, og nú fékk tillaga um að svæðið yrði eitt sambandsríkja Kanada, 52,3 prósent atkvæða. Nýfundnaland varð því 10. fylkið innan Kanada, þann 31. mars 1949. Fram til ársins 1964 var fylkið nefnt Nýfundnaland en síðar var nafninu fyrir breytt í Nýfundnaland og Labrador. Sú nafnbreyting var sett inn í stjórnarskrá Sambandsríkisins Kanada árið 2001.

Á seinni hluta 20. aldar var ráðist í að styrkja verulega innviði Nýfundnalands og Labrador með aðstoð kanadísku sambandsstjórnarinnar. Lífskjör bötnuðu til muna og menntunarstig hækkaði. Erfiðlega gekk þó að koma á efnahagslegum stöðugleika. Í kringum 1990 hrundu fiskistofnar við Nýfundnaland[11] og mjög gekk á skógarauðlindir svæðisins. Efnahagur svæðisins fór í mikla lægð og fólki fækkaði.[12]

Vonir hafa verið bundnar við olíu- og jarðgasvinnslu við Grand Banks og á hafsvæðinu fyrir utan Labrador, steinefnavinnslu og fallorku í Labrador og ferðaþjónustu. Frá 2006 tók íbúum að fjölga aftur.

Þróun auðlinda í norður og vesturhluta Labrador færði íbúum miklar en ekki alltaf jákvæðar breytingar. Hópar Inúíta og Innu, frumbyggjar svæðisins, mótmæltu og leituðu formlegrar viðurkenningar á landkröfum. Samningar við Inúíta náðust árið 2005 um yfirráð yfir Nunatsiavut í norðurhluta Labrador. Viðræðum við Innu fólkið er ólokið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar er m.a. Newfoundland and Labrador(en) á ensku Wikipedia. Sótt 15. mars 2016.
  • Örlög Nýfundnalands Grein J. H. K. sem birtist í Frjáls þjóð - 37. tölublaði (28.11.1968), bls. 4-5.
  • Vefur Britannica um Nýfundnaland og Labrador. Inniheldur margvíslegar upplýsingar t.d. um náttúru, lofslag, landslag, skipulag, sögu, og markverða staði]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Kanada - Labrador Ferðaheimur. Skoðað 15. mars, 2016.
  2. Nýfundnaland I[óvirkur tengill] Skógræktarritið. Skoðað 15. mars, 2016.
  3. Nýfundnaland I[óvirkur tengill] Skógræktarritið. Skoðað 15. mars, 2016.
  4. J. H. K (28. nóvember 1968). „Örlög Nýfundnalands“. Frjáls þjóð - 37. Tölublað (28.11.1968). bls. 4-5. Sótt 14. mars 2021.
  5. J. H. K (28. nóvember 1968). „Örlög Nýfundnalands“. Frjáls þjóð - 37. Tölublað (28.11.1968). bls. 4-5. Sótt 14. mars 2021.
  6. Dr. Ólafur R. Dýrmundsson ráðunautur (1. janúar 1994). „Landbúnaður á Nýfundnalandi-Fyrri hluti“. Freyr - 1. - 2. tölublað. bls. 12-17. Sótt 15. mars 2021.
  7. J. H. K (28. nóvember 1968). „Úrlög Nýfundnalands“. Frjáls þjóð - 37. Tölublað (28.11.1968). bls. 4-5. Sótt 14. mars 2021.
  8. „Nýfundnaland“. Jafnaðarmaðurinn - 6. tölublað. 17. febrúar 1932. bls. 4. Sótt 15. mars 2021.
  9. Pétur O . Johnson (1. nóvember 1940). „Nýfundnaland“. Frjáls verslun - 11. tölublað - Megintexti. bls. 4-5. Sótt 15. mars 2021.
  10. Steingrímur Matthíasson (1. október 1940). „Um Nýfundnaland og skuldabaslið þar“. Eimreiðin - 4. Hefti. bls. 342-356. Sótt 15. mars 2021.
  11. Morgunblaðið - 162. tölublað (19. júlí 1992). „Ofveiði að ganga af stofnunum dauðum“. Morgunblaðið / Árvakur. bls. 23. Sótt 15. mars 2021.
  12. Dr. Ólafur R. Dýrmundsson ráðunautur (1. janúar 1994). „Landbúnaður á Nýfundnalandi-Fyrri hluti“. Freyr - 1. - 2. tölublað. bls. 12-17. Sótt 15. mars 2021.