Karlsey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kalsoy eða Blokkflautan.
Staðsetning Karlseyjar

Karlsey (færeyska: Kalsoy) er löng og mjó eyja norðan til í Færeyjum, á milli Austureyjar og Kunoy (Konueyjar). Nyrst á eynni var áður drangur sem hét Kallurin og hafði eyjan nafn sitt af honum en hann er nú hruninn. Hæsta fjall á Kalsoy er Nestindar (788 m). Stærð eyjarinnar er 30,9 km² og hún er 18 km löng en aðeins 1-3 km á breidd. Þar bjuggu 76 manns árið 2018.

Á eynni eru fjórar litlar byggðir eða þorp, tengdar saman með vegum og jarðgöngum. Vesturströnd eyjarinnar er sæbrött og byggðirnar eru allar á austurströndinni. Þær eru Húsar (47 íbúar 1. janúar 2011), Syðradalur (6 íbúar), Mikladalur (34 íbúar) og Trøllanes (19 íbúar). Byggðin Blankskáli var syðst á eynni en fór í eyði fyrir nærri 200 árum. Aðalatvinnuvegir eyjarskeggja eru landbúnaður og fiskveiðar og þar er einnig fiskeldisstöð.

Bílferja siglir milli Syðradals og Klakksvíkur nokkrum sinnum á dag og frá Syðradal gengur svo rúta norður til Trøllaness. Fimm jarðgöng eru á leiðinni og þess vegna kalla Færeyingar hana oft „Blokkflautuna“. Þessi göng, sem gerð voru á árunum 1979-1985, eru Villingadalstunnilinn (1193 m), Mikladalstunnilin (1082 m), Ritudalstunnilin (683 m), Teymur í Djúpadal (220 m) og Trøllanestunnilin (2248 m).