Siklingur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Handverkfærið Siklingur

Siklingur eða siklingsstál er nafn á stálplötu sem er handverkfæri notað til sléttunar á viði m.a. til þess að slétta og laga lakkhúð á viðarfleti milli umferða. Siklingurinn skefur niður misfellur, penslaför og bólur ef einhverjar eru í lakkinu. Þegar tré er lakkað geta myndast óæskileg penslaför en einnig myndast stundum smáar loftbólur. Gott er að nota sikling til að slípa yfirborðið á milli umferða. Siklingur er eiginlega fínasta bitverkfærið sem notað er til að skafa lakk á milli umferða. Það skefur niður rykkorn og bólur ef einhverjar eru í lakkinu.

Brýning[breyta | breyta frumkóða]

Á myndinni er Siklingur ásamt þjöl og þrístrendri hljáfægðri stálþjöl sem eru notuð við brýningu.
Siklingur, þjöl og þrístrend gljáfægð stálþjöl.

Það er nákvæmnisvinna að brýna sikling sem er gert með sérstökum hætti svo að brúnir á köntum plötunnar verði beittar. Til að brýna sikling er m.a. notað verkfæri sem sem er þrístrend gljáfægð stálþjöl. Þetta verkfæri er notað við viðhaldsbrýningu á vettvangi meðan siklingurinn er í notkun. Við róttækari brýningu er notuð sérstök einhöggvin flöt þjöl og steinbrýni bæði gróft og fínt. Þegar siklingur er brýndur byggist árangurinn á því að kantar hans séu réttir vel af, gerðir beinir og hornréttir við hliðarnar. Til þess að það megi takast vel er gott að festa siklinginn í skrúfstykki og láta 2 sentimetra af siklingnum standa upp úr. Síðan er flatri þjölinni strokið langs eftir kanti siklingsins þar til kanturinn er alveg beinn og hallalaus. Þegar þjölin hefur rétt kantinn af eru brýnin notuð til þess að fínslípa kanta siklingsins. Að lokinni þessari brýnslu er komið að því að nota þrístrendu sléttu þjölina. Siklingurinn er lagður flatur t.d. á borðbrún og stutt með annarri hendinni fast ofan á siklinginn til að halda honum föstum og með hinni hendinni er þjölinni rennt nokkrum sinnum fram og til baka, eftir brún siklingsins sem upp snýr. Því næst er þjölin dregið þéttingsfast, með hæfilegum halla, eftir kanti siklingsins til þess að sveigja brúnina svolítið upp. Þetta er svo endurtekið á öllum fjórum brúnum siklingsins. Að þessu loknu eiga allar brúnir siklingsins að vera skarpar og örlítið sveigðar upp, eða út frá plötunni.