Svanshóll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Svanshóll er bær í Bjarnarfirði á Ströndum. Bærinn dregur nafn sitt af Svani, hinum fjölkunnuga bragðakarli sem kunnur er úr Njálu og var frændi Hallgerðar langbrókar. Hann var sonur Bjarnar þess sem nam land í Bjarnarfirði og Ljúfu að því er fram kemur í Landnámu. Volgar uppsprettur eru víða í landi Svanshóls.

Í fjallinu utan við bæinn er dálítil lækjarsytra í hlíðinni sem heitir Svansgjá. Hún var syðri dyrnar á göngum Svans gamla norður í Kaldbaksvík forðum en þarna gekk hann í fjallið og kom út í Svansgjá í Kalbakshorninu. Eyðijörðin Halldórsstaðir er í Svanshólalandi, gegnt Skarði að norðan.

Svanur á Svanshóli[breyta | breyta frumkóða]

Svanur á Svanshóli er fyrsti nafntogaði galdramaðurinn á Ströndum. Hans er getið í Landnámu og er þar sagður sonur Björns, landnámsmanns í Bjarnarfirði, og Ljúfu konu hans. Hann hefur verið vel þekktur maður á ritunartíma íslenskra fornrita.

Svans er meðal annars getið í Grettis sögu og Laxdælu og svo hefur hann heilmikil áhrif á gang mála í Njáls sögu. Hann var móðurbróðir Hallgerðar langbrókar og veitti henni lið í hjúskaparraunum hennar, tók á móti Þjóstólfi eftir að hann hafði drepið Þorvald mann hennar og varði fyrir eftirleitarmönnum með göldrum og gjörningum.

Þegar Dalamenn riðu á Bjarnarfjarðarháls til að hefna Þorvaldar sóttu fylgjur að Svani. Hann bað Þjóstólf að ganga út með sér, vafði geitarskinni um höfuð sér og mælti:

Verði þoka
ok verði skrípi
ok undur öllum þeim,
er eptir þér sækja.

Brá þá svo við að á Bjarnarfjarðarhálsinn kom þoka svo Dalamenn sáu ekkert frá sér, féllu af baki og týndu hestunum, gengu í fen og villtust í skóginum og töpuðu vopnunum. Í þrígang reyndu þeir að komast yfir hálsinn en alltaf steyptist þokan á móti þeim en létti svo þegar þeir hurfu frá.

Í Njálu er Svanur sagður „fjölkunnugur mjög“ og „illur viðureignar“. Í þjóðsögum segir að Svanur hafi stytt sér leið til sjóróðra og gengið í gjána ofan við Svanshólsbæinn og komið út í Kaldbaksvík norðan fjallgarðsins og róið þaðan til fiskjar. Svo er greint frá ævilokum hans að eitt sinn þegar hann var í róðri gerði austanveður mikið svo bátur hans týndist. Fiskimenn sem voru að veiðum við Kaldbak þóttust þá sjá Svan ganga inn í Kaldbakshornið þar sem honum var vel fagnað. Sú trú virðist hafa verið algeng að fornu að menn dæju í björg.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]