Karlsbrúin (Prag)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karlsbrúin yfir Moldá. Horft til gömlu borgarinnar (Stáre Město) frá hverfinu Malá Strana.

Karlsbrúin er einkennisbygging borgarinnar í Prag í Tékklandi. Hún er elsta nústandandi brú yfir fljótið Moldá og ein elsta steinbrú Evrópu. Brúin tengir miðborgina við kastalahæðina (Hradžin) og er gífurlega vinsæl meðal ferðamanna.

Saga brúarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennarar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu heimildir um brú á þessum stað eru frá 10. öld og er þá um trébrú að ræða. Hún eyðilagðist í flóði 1157 eða 58. Fyrsta steinbrúin var smíðuð á staðnum milli 1158 og 1170 og hét Júdítbrúin (Juditin most). Brúin skartaði turnum við sitthvort endann. En 1342 skemmdist hún í miklu flóði, ásamt öðrum turninum (austurturninum). Allt sem eftir stóð var vesturturninn og örfáir brúarsporðar í Moldá.

Nýsmíði[breyta | breyta frumkóða]

Verkframkvæmdir nýju brúarinnar hófust 9. júní 1357. Það var Karl IV keisari (og konungur Bæheims) sem lagði fyrsta steininn kl. 5:31. Þegar dags- og tímasetningin eru tölusett kemur út 1-3-5-7-9-7-5-3-1. Óvíst er hver arkítekt brúarinnar var en framkvæmdum stjórnaði Þjóðverjinn Peter Parler. Fyrirmyndin var steinbrúin í Regensburg í Bæjaralandi. Karlsbrúin var 516 m löng og 10 m breið. Yfir ána voru settir 16 steinbogar. Nýr turn var reistur á austurbakkanum, en báðir turnar voru með hliði sem vegfarendur urðu að fara í gegnum. Framkvæmdum lauk 1402 og hlaut brúin heitið Steinbrúin (Kamenný most) eða Pragbrúin (Pražský most). Brúin var gríðarlega mikil samgöngubót fyrir Prag, enda var Pragbrúin eina brúin yfir Moldá. Varðliðar voru settir hvor við sinn endann (Krossherrar með rauðu stjörnuna) sem stjórnuðu umferð um brúna.

Skemmdir og breytingar[breyta | breyta frumkóða]

Flóðið mikla 1872 sem eyðilagði hluta brúarinnar

Fyrstu skemmdir á brúnni urðu 1432 af völdum flóða. Meðan 30 ára stríðið geysaði á 17. öld tóku Svíar vestari brúarendann. Miklir bardagar urðu á brúnni sjálfri er þeir reyndu að komast yfir á austurbakkann. Þessu fylgdu miklar skemmdir. Mestu breytingar sem gerðar voru á brúnni fóru fram um aldamótin 1700. Þá voru 30 stórar styttur reistar á brúnni, 15 hvorum megin við handriðið. 1870 fóru formleg nafnskipti fram en framvegis hét hún Karlsbrúin (Karlův most) eftir Karl IV keisara. 1872/74 skemmdust fimm brúarsporðar vegna íss í Moldá. 1883 var byrjað að hleypa strætisvagni dreginn af hestum yfir brúna. 1890 rákust trjádrumbar í flóði á brúarsporða og eyðilögðu þá. Þrjú gólf hrundu. Viðgerðir tóku tvö ár. 1905 hóf sporvagn að ganga yfir brúna en hann var leystur af af reglulegum strætisvögnum þremur árum síðar. Karlsbrúin slapp við skemmdir í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Milli 1965-78 fór fram viðamikil viðhaldsvinna á brúnni. Þegar henni lauk var lokað á alla vélknúna umferð um brúna. Eftirleiðis var Karlsbrúin eingöngu opin fyrir fótgangandi vegfarendur. Síðast var unnið að viðhaldi á brúnni 20072011. Í það skiptið hlaut vinnan mikla gagnrýni þar sem verktakafyrirtækið uppfyllti ekki hæfniskröfur. Mistök voru gerði í vinnunni, sem leiddi til þess húsfriðunarnefnd sektaði borgina um 130 þúsund evrur. Heimsminjaskrá UNESCO rannsakaði málið sömuleiðis, enda brúin á heimsminjaskránni. Borgarahreyfing stóð fyrir undirskriftum um að leyfa brúnni að vera eins og hún var áður en vinnan hófst. Í nóvember 2011 var rafmagnsluktunum breytt, þannig að núna eru þær gasluktir.

Brúarhliðin[breyta | breyta frumkóða]

Austurturninn[breyta | breyta frumkóða]

Austurturninn

Turninn við austurenda Karlsbrúarinnar, við gömlu borgina (Stare Mesto) reis 1370-80 og er í gotneskum stíl. Hann hefur staðið nær óbreyttur í gegnum aldirnar til dagsins í dag. Á turninum eru tvö skjaldarmerki, eitt af keisara þýska ríkisins og eitt af konungi Bæheims. Auk þess eru tvær stórar styttur, ein af Karli IV keisara og hin af Wenzel IV son hans. Ofar eru styttur af heilögum Aðalberti og heilögum Sigmundi. Allt þetta skraut er á austurhlið turnsins (sem snýr að miðborginni). Á vesturhliðinni er nær ekkert, enda eyðilagðist allt er Svíar börðust um brúna í lok 30. ára stríðsins. Eftir að mótmælendur hentu fulltrúum keisarans út um glugga á konungshöllinni 1618, voru þeir handteknir og hálshöggnir. Höfuð þeirra voru fest upp á austurturninn og fengu að hanga þar í heil tíu ár, frá 1621-31. Turninn er opinn almeningi en efst er útsýnispallur.

Vesturturninn[breyta | breyta frumkóða]

Vesturturninn

Vesturturninn stendur við borgarhverfið Malá Strana fyrir neðan kastalahæðina. Turninn var smíðaður samtímis Júdítbrúnni, um miðja 12. öld. Meðan Karlsbrúin var í byggingu var honum óverulega breytt en hann er í rómönskum stíl. 1591 var honum breytt í endurreisnarstíl. Turn þessi er talsvert minni en vesturturninn og ekki eins veglega skreyttur. Svíar náðu valdi yfir turninum í lok 30 ára stríðsins og skemmdist hann nokkuð í bardögum.

Stytturnar[breyta | breyta frumkóða]

30 styttur eru á brúargólfi Karlsbrúarinnar, 15 sitthvoru megin. Þær eru aðallega af dýrlingum. Upphaflega var engin stytta á brúnni þegar hún var tekin í notkun 1402. Árið 1629 var kross reistur en fyrstu stytturnar voru settar á 1707. Eftir það var styttum hægt og hægt bætt við þar til þær voru orðnar 30 að tölu. Þegar viðgerðarvinna var í gangi 1965 – 1978 var öllum styttum komið fyrir í þjóðarsafninu í Prag en eftirmyndir settar upp í staðin.

Suðurhlið[breyta | breyta frumkóða]

Stytturnar 15 á suðurhlið, frá austri (miðborg) til vesturs (að kastala):

Heilagur Ívó
Barbara, Margrét, Elísabet
  • Heilagur Ívó. Settur upp 1711 á kostnað lagadeildar háskólans. Ívó er verndardýrlingur lögfræðinga.
  • Tríó af dýrlingunum Barböru, Margréti og Elísabetu. Sett upp 1707.
  • Píeta af Maríu Magdalenu og Maríu mey að syrgja Jesú. Sett upp 1858. Á þessum stað var upphaflega kross en hann eyðilagðist í flóði 1496. Árið 1695 var önnur píeta sett upp, en hún var flutt í klaustur 1859 er núverandi stytta var sett upp.
Heilagur Jósef
Heilagur Frans frá Assisi
  • Heilagur Jósef. Settur upp 1854. Áður stóð þar önnur eins stytta síðan 1706 en hún eyðilagðist í götubardögum 1848.
  • Heilagur Frans Xaveríus að skíra prinsa frá Indlandi og Japan. Sett upp 1913. Upphaflega stóð önnur eins stytta á reitnum frá 1711, en hún féll í Moldá í flóði 1890. Sú hafði verið gefin af guðfræði- heimspekideild háskólans.
  • Heilagur Kristófer með barn á öxlinni. Settur upp 1857 og kostaður af Václav Wanek myndhöggvara.
  • Heilagur Frans frá Borgía ásamt tveimur englum. Settur upp 1710.
  • Heilög Lúdmíla að kenna barnabarni sínu, heilögum Wenceslás. Sett upp 1784 í stað styttu af heilögum Wenceslás sem eyðilagðist í flóði á sama ári. Við styttufótinn er smástytta af píslarvætti Wenceslás.
  • Heilagur Frans frá Assisi ásamt tveimur englum. Settur upp 1855 og gefin af Liebsteinský greifa. Áður stóð á reitnum önnur eins stytta frá 1708 sem hafði eyðilagst.
Jóhannes frá Maþa, Felix frá Valois, Ívan
Heilagur Wenceslás
  • Tvenna af heilögum Vinsens Ferrer og heilögum Prókop. Fyrir framan Vinsens er syndari að krjúpa. Prókop stendur á djöfli. Settir upp 1712
  • Heilagur Nikulás frá Tolentínó ásamt engli. Settur upp 1708 og greitt af Ágústínusarklaustrinu heilags Tómasar í Prag.
  • Heilög Lútgerður frá Tongeren. Sett upp 1710.
  • Heilagur Aðalbert. Settur upp 1709.
  • Samstæða af Jóhannesi frá Maþa, Felix frá Valois, heilagur Ívan og Tyrkja. Sett upp 1714. Stytta þessi er sú stærsta á brúnni og jafnframt sú dýrasta. Hún var upphaflega án Ívans, verndardýrling slava, en honum var bætt við síðar af ókunnum ástæðum.
  • Heilagur Wenceslás. Sett upp 1858 og kostuð til af blindrasamtökunum. Á þessum stað stóð verslun allt til 1822.

Norðurhlið[breyta | breyta frumkóða]

Stytturnar 15 á norðurhlið, frá austri (miðborg) til vesturs (að kastala):

Madonna, Dóminíkus, Tómas af Aquino
Jesús, María mey, Jóhannes postuli
  • Madonna og heilagur Bernard. Sett upp 1709 og kostuð til af Benedikt Littwerig, ábóta í klaustrinu Osek.
  • Tríó af Madonnu, heilögum Dóminíkus og Tómas af Aquino. Sett upp 1708 og kostuð til af dóminíkusarklaustri heilags Giles í Prag.
  • Jesú á krossinum ásamt Maríu mey og Jóhannes postula. Stytta þessi hefur þróast og breyst í gegnum aldirnar. Upphaflega stóð bara trékross á reitnum sem settur var upp 1361. Hann var eyðilagður af hússítum 1419. Annar kross var settur upp 1629 og var hann með líkama Jesú. Hann stórskemmdist af Svíum í 30 ára stríðinu og var það sem eftir varð flutt í þjóðarsafnið í Prag. Enn annar kross var settur upp, sem veik fyrir málmkrossi 1657 sem smíðaður var í Dresden. 1666 voru tveimur blýstyttum bætt við, sem viku fyrir sams konar sandsteinsstyttum 1861. Þær sýna Maríu mey og Jóhannes postula.
  • Heilög Anna með Jesúbarnið. Sett upp 1707.
Norbert frá Xanten, Wenceslás, Sigmundur
Heilagur Nepómúk
  • Tvenna af heilögum Kyril og heilögum Meþód. Settir upp 1938 af menntamálaráðuneytinu. Upphaflega stóð stytta af heilögum Ignatíusi á reitnum en hún skemmdist í flóði 1890 og stendur nú í þjóðarsafninu í Prag.
  • Jóhannes skírari. Settur upp 1857. Upphaflega stóð stytta af skírn Jesú frá á reitnum frá 1706 til 1848.
  • Norbert frá Xanten, Wenceslás og Sigmundur. Settir upp 1853.
  • Heilagur Nepómúk (eða Jóhannes af Nepómúk). Sett upp 1683 og þar með elsta styttan á brúnni. Jóhannesi var varpað af brúnni 1393 og drukknaði. Í dag er siður að snerta brúna á þessum stað. Talið er það færir lukku og það tryggir að maður kemur aftur til Prag.
  • Heilagur Anton frá Padúa. Settur upp 1707.
  • Heilagur Júdas Taddeus. Settur upp 1708.
Heilagur Vítus
Jesús, Kosmas, Damían
  • Heilagur Ágústínus. Settur upp 1708 og kostaður Ágústínusarklaustri heilags Tómasar í Prag.
  • Heilagur Kajetan. Settur upp 1709 og kostaður til af Teatínusarklaustrinu í Prag, enda var Kajetan stofnandi reglunnar.
  • Heilagur Filippus Benitíus. Settur upp 1714. Styttan var gerð í Salzburg og kostuð til af Servítaklaustrinu í Prag.
  • Heilagur Vítus. Settur upp 1714 og kostaður til af formanni varðsveitar Vyšehrad-kastalans. Líkamsleifar Vítusar eru í Vítusarkirkjunni við hlið kastalans í Prag.
  • Tríó af Jesú ásamt heilögum Kosmasi og heilögum Damían. Settir upp 1709 og kostað til af læknadeild háskólans. Kosmas og Damían eru verndardýrlingar lækna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]