Sigurður Ólafsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sigurður Ólafsson
Sigurður Ólafsson söngvari
Sigurður Ólafsson söngvari
Upplýsingar
FæddurSigurður Ólafsson
1916
Dáinn1993
StörfSöngvari
HljóðfæriRödd
Bóndinn í Laugarnesi
Hestamaðurinn

Sigurður Ólafsson (fæddur 4. desember 1916 að Laugavegi 49 í Reykjavík, látinn 15. júlí 1993) var íslenskur söngvari og hestamaður.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Sigurðar voru Þuríður Jónsdóttir húsmóðir (6. janúar 1873 – 20. janúar 1941) og Ólafur Jónatansson verkamaður (8. maí 1880 – 2. desember 1963). Bræður Sigurðar voru Erling Ólafsson (21. ágúst 1910 – 23. desember 1934), kunnur baríntónsöngvari á fyrri hluta 20. aldar og Jónatan Ólafsson (17. febrúar 1914 – 11. apríl 1997), sem var þekktur píanóleikari og tónskáld.

Uppvöxtur[breyta | breyta frumkóða]

Æskuheimili Sigurðar ómaði af söng og spili. Faðir hans sem var tónelskur átti forláta orgel og harmoniku sem voru þanin tíðum og allir tóku undir í kraftmiklum söng. Sigurður lærði snemma að lesa nótur og taka þátt í söngnum með bræðrum sínum þótt hann langaði ekkert sérstaklega til þess, hvað þá að leggja það fyrir sig, en það átti eftir að breytast.

Viðtal í dagblaðinu Vísi 1981.

"Tja, ég var nú að hugsa um það um daginn, að eiginlega eru ekki bara 50 ár síðan ég var fyrst knapi heldur á ég líka söngafmæli núna. Það var örugglega um svipað leyti sem ég söng í fyrsta skiptið einn og óstuddur. Þá var ég í Miðbæjarbarnaskólanum og það vildi þannig til að efsti bekkur Austurbæjarskólans kom í heimsókn til efsta bekkjar í Miðbæjarskólanum og þar var ég þótt það væri nú ekki mér að þakka. Krakkarnir komu og lásu upp, fóru með kvæði og þess háttar og á eftir, þá var ekki hjá því komist að við færum til þeirra líka. Þá var Hallgrímur Jónsson skólastjóri og hann sendi mig og Ásberg Sigurðsson og ég átti að syngja. Og ég söng, aleinn og án undirleiks auðvitað einhver lög sem Erling heitinn bróðir minn hafði kennt mér, Ég lít í anda liðna tíð, Brúnaljósin brúnu o.fl. Mestur vandinn fannst mér að byrja á réttum tón svo ég spryngi nú ekki á öllu saman."[1]

Þú getur aldrei sungið framar

"Litlu eftir þetta kom í ljós að eitthvað var að hálsinum á mér - það voru kirtlarnir. Læknirinn sagði við mig, Sigurður minn, þú getur aldrei sungið framar. Þá var eins og brysti eitthvað hér í hjartanu á litlum dreng, get ég sagt þér og ég söng ekki í mörg mörg ár. — Þú féllst ekki fyrir mér út af söngnum" bætir hann við og snýr sér að Snúllu (Ingu Valfríði Einarsdóttur eiginkonu sinni)." Heldur svo áfram:

"En svo var það löngu seinna, þá vorum við gift og í samkvæmi og allir áttu að syngja eitthvað. Ég gat ekki skorast undan því fremur en aðrir svo ég segi við konuna, sem spilaði undir á píanóið þarna, allt í lagi, spilaðu Hátt ég kalla eftir Sigfús Einarsson. Og þegar ég var búinn, þá snýr þessi kona sér að mér og segir: Sigurður, það er ekkert um annað að ræða, þegar ég dey, þá vil ég að þú syngir þetta lag við jarðarförina mína. Nú, það er bara svona, hugsaði ég og var nú ekki svo viss um það. En hvað gerist — þessi kona er dáin eftir viku! Og mér fannst ég verða að gera þetta, það síðasta sem hún bað mig um. Svo ég fer ofan í kirkju og hitti Sigfús Einarsson. Hann var afskaplega þurr á manninn og kaldranalegur en var samt mjög hlýlegur maður inn við beinið. Hann leit á mig og lét mig svo syngja lagið og þegar ég var búinn, þá vildi hann fá að vita hvar ég hefði lært. Ég hef ekkert lært, hann Erling bróðir minn hefur bara verið að leiðbeina mér. Já, hann Erling, það hlaut að vera sagði Sigfús þá. Þú kemur þá á morgun. Ég var nú afskaplega taugaóstyrkur, hafði aldrei gert þetta áður og sagði honum það. Þá sagði hann, hafðu engar áhyggjur, hlustaðu bara á nefið á mér! Hann var nefnilega vanur að hnussa svona með nefinu svo heyrðist vel, á meðan hann lék á orgelið og hann stjórnaði mér þannig í mínum fyrsta söng við jarðarför".[2]


Sigurður varð eftirsóttur söngvari við jarðafarir og á árunum 1940-1960 söng hann oft og tíðum við fleiri en eina jarðarför á dag. Sigurður dreymdi um að verða dýralæknir en það gat ekki orðið en um tíma var hann umsjónarmaður með tilraunadýrum hjá Rannsóknastofu Háskólans. Eitt sinn, þegar hann var á hátindi söngferils síns, hitti hann mann á förnum vegi sem innti hann eftir því hvað hann gerði. Sigurður var fljótur til svars og kastaði fram eftirfarandi vísukorni:

Ég er ríkisins rottuhirðir og
reika um strœti og torg.
Syng við sálumessur
og skemmti á Hótel Borg.
Sem hirðmaðurinn Sebranó í Rígólettó. Með honum á myndinni er Elín Ingvarsdóttir
Sigurður sem fiðlarinn í Gullna hliðinu. Með honum á myndinni er stúlknahópur í hlutverkum engla
Sigurður lék Frank fangelsisstjóra í Leðurblökunni. Með honum á myndinni er Bjarni Bjarnason

Söngvarinn[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður sótti ungur söngtíma hjá Sigurði Birkis og Guðmundi Jónssyni. Hann söng með Karlakór Reykjavíkur frá tuttugu og þriggja ára aldri og síðan með eldri félögum kórsins. Næstu áratugina átti hann eftir að syngja sig inn í hug og hjörtu landsmanna. Sjálfur hefur hann þó ítrekað sagt að söngurinn hafi verið honum eins og hvert annað lifibrauð og því hafi hann ekki haft efni á að hafna þeim tilboðum sem buðust hverju sinni.

Bláa kápan[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta sviðsverkið, sem Sigurður Ólafsson tók þátt í, var „Bláa kápan" eftir Bruno Hardt-Warden og Hermann Feiner við lög og ljóð eftir Walter Kollo og Willi Kollo. Óperettan var sýnd í Iðnó og var frumsýning hennar í byrjun desember árið 1949. -Ég man ekki hvernig það vildi til að ég var beðinn um að taka þátt í þessari uppfærslu, segir Sigurður. En ég var alltaf til í að reyna eitthvað nýtt og sló því til. Ég hafði frekar lítið hlutverk en kom þó fram í tveimur fyrstu þáttunum. Aðalhlutverkin voru hins vegar í höndum þeirra Bjarna Bjarnasonar, sem lék bankamanninn Hendrik Walter, Haraldar Björnssonar, sem lék Detlef fríherra og gósseiganda, og Svanhvítar Egilsdóttur sem lék Beate Marie, dóttur hans. Þá man ég að Guðmundur Jónsson, Ólafur Magnússon, Nína Sveinsdóttir, Lárus Ingólfsson, Sigrún Magnúsdóttir og Steindór Hjörleifsson voru einnig meðal leikara.

Ef marka má leikdóma í dagblöðum eftir frumsýningu hefur „Bláu kápunni" verið vel tekið. Þann 5. desember birtist leikdómur í Mánudagsblaðinu þar sem m.a. getur að líta eftirfarandi umsögn: „Í þessari óperettu „Bláu kápunni" heyrði maður sérstaklega ágætar raddir og var það hinn ágæti hljómsveitarstjóri Dr. Victor Urbancic]], sem með sinni þjálfuðu óperuhönd hélt öllum þráðum músíkurinnar saman og leiddi söngfólkið með sterkri og þjálfaðri músíkhendi frá hinum fyrsta takti til hins síðasta." Ekki talar greinarhöfundur mikið um frammistöðu Sigurðar Ólafssonar — enda var hlutverk hans fremur smátt. Þó er hans getið síðar í umsögninni þar sem talað er um frammistöðu nokkurra söngvara: „Ólafur Magnússon, sem greifinn, hefði mátt vera meira „greifalegur". Steindór Hjörleifsson og Sigurður Ólafsson voru báðir í sínum hlutverkum góðir."[3]

Rígólettó[breyta | breyta frumkóða]

Sunnudagurinn 3. júní 1951 var óperan „Rigoletto" frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. „Ég lék lítið hlutverk, Sebranó hirðmann, og var þetta í fyrsta skipti sem ég söng á ítölsku“, segir Sigurður. „Ég var því vissulega bæði spenntur og kvíðinn þegar mér bauðst að syngja í þessari óperu. Ég var þó ekki eins kvíðinn fyrir því að syngja og að leika — enda hafði ég ekki mikla reynslu af því að leika á sviði. Svo var heldur ekki laust við ég væri haldinn svolítilli minnimáttarkennd gagnvart þeim stórstjörnum, sem unnu með mér, en allt var þetta fólk búið að læra mikið í söng.“

Í aðalhlutverkum voru þau Guðmundur Jónsson, Else Mühl og sjálfur Stefán Íslandi. Leikstjóri sýningarinnar var Norðmaðurinn Simon Edwardsen, sem var sérstaklega fenginn að láni frá Óperunni í Stokkhólmi, og reyndist hann okkur mjög vel. Einhver sagði að Edwardsen hefði svo mikla tilfinningu fyrir leikhúsi að hann gengi undir nafninu „leikhúsrottan". Og það eru orð að sönnu. Æfingarnar, sem fóru fram í kjallara Þjóðleikhússins og ballettsal, voru bæði langar og strangar — enda gerði sá norski miklar kröfur. En ég minnist þess líka hversu sanngjarn hann var. Hann vissi sem var að flest okkar voru viðvaningar á óperusviði og því sagði hann snemma á æfingatímanum:

„Ef það er eitthvað, sem ykkur finnst þið ekki geta eða ráða við, þá skulum við endilega ræða málin og finna út hvort við getum ekki gert hlutina öðruvísi." Þannig ávann hann sér traust og virðingu allra, sem tóku þátt í sýningunni, og hefur það án efa skilað sér í lokin — enda var okkur feikilega vel tekið.

Stefán og Else komu bæði frá útlöndum til þess að syngja við þetta tækifæri og þarf ekki að spyrja að frammistöðu þeirra. Aftur á móti kom Guðmundur Jónsson, sem söng sjálfan Rígólettó, verulega á óvart eins og lesa má í ritdómum. Þar segir m.a.: „En það sem vakti þó einna mesta forundran var frammistaða Guðmundar Jónssonar í hlutverki Rígólettós. Hún spáir miklu og góðu um frammistöðu hans sem óperusöngvara."[4]

Gullna hliðið[breyta | breyta frumkóða]

Hið sígilda leikrit „Gullna hliðið" eftir Davíð Stefánsson við tónlist Dr. Páls Ísólfssonar var tvisvar sinnum fært upp í Þjóðleikhúsinu á þessum árum; fyrst árið 1951 og síðan aftur árið 1954. Í bæði skiptin lék Sigurður hið kunna hlutverk fiðlungsins. — Ég man það eitt frá þessu leikriti að ég söng Hrosshár í strengjum og Mín liljan fríð og var með fiðlu í höndunum og englahjörð í kringum mig, segir Sigurður.

Hann getur þess að Lárus Pálsson, sem jafnframt leikstýrði verkinu, hafi leikið sjálfan djöfulinn á eftirminnilegan hátt. Og víst muna þeir Ævar og Erling, synir Sigurðar, eftir djöflinum, sem birtist þeim óvænt í búningsherbergi Þjóðleikhússins þar sem þeir voru staddir sem litlir drengir að fylgjast með föður sínum. -Allt í einu birtist Lárus Pálsson í allri múnderingunni með horn og klaufir, vatt sér að pabba og sagði: „Siggi minn, áttu eld handa mér?" Við strákarnir vorum svo hræddir við djöfsa að við fórum að hágrenja, segir Ævar."[5]

Á árunum 1950-1952 lék Sigurður hlutverk „Polichinells" í „Ímyndunarveikinni" og hlutverk þræls í „Tyrkja-Guddu". Þá lék hann hlutverk „Amiens" í „Sem yður þóknast" eftir Shakespeare.

Leðurblakan[breyta | breyta frumkóða]

Óperettan „Leðurblakan,“ eftir austurríska valsakónginn Johann Strauss, var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní árið 1952. Leikstjóri sýningarinnar var Simon Edwardsen en Dr. Urbancic stjórnaði tónlistarflutningi. Báðir höfðu þeir unnið við uppsetninguna á „Rígólettó" árið áður og voru því öllum hnútum kunnugir. Og víst voru stórstjörnur í helstu aðalhlutverkum; Guðrún Á. Símonar, sem lék Rósalindu, og Einar Kristjánsson sem lék Von Eisenstein.

Í leiklistargagnrýni í Morgunblaðinu þann 19. júní talar Sigurður Grímsson um að sýningin hafi verið öllum sem að henni stóðu til sóma og getur þess að hún sé verulegur viðburður í listalífi borgarinnar. Hann fer einnig lofsamlegum orðum um frammistöðu aðalleikaranna. Þar segir einnig: „Einar Kristjánsson hefur oft sungið hér opinberlega áður og nýtur hér mikilla vinsælda sem söngvari. Rödd hans er björt og tær, allmikil og hann beitir henni af kunnáttu og smekkvísi. Leikur Einars er léttur og lifandi og ber það með sér að hann er þaulvanur leiksviðinu. Guðrún Á. Símonar fer með annað aðalhlutverk óperettunnar, hlutverk Rósalindu, konu von Eisensteins. Er þetta fyrsta hlutverk ungfrúarinnar á leiksviði og ber leikur hennar þess nokkur merki. En rödd hennar er glæsileg, björt og örugg en þó ef til vill nokkuð hörð á köflum. Hámarki sínu náði hinn ágæti söngur hennar er hún söng „Czardansinn" í öðrum þætti."

Sigurður segist sjálfur hafa haft lítið hlutverk með höndum; hlutverk Frank fangelsisstjóra. -Ég man að mér þótti ákaflega gaman að taka þátt í svo glæsilegri og viðamikilli skrautsýningu sem „Leðurblakan" var, segir hann. Hlutverk Frank fangelsisstjóra var ekki stórt en samt var ég oft og tíðum á sviðinu."[6]

Hljómplötur og kabarettar[breyta | breyta frumkóða]

Sjötti áratugurinn var áratugur kabaretta og revíusýninga auk þess sem íslensk hljómplötuútgáfa var í miklum blóma. Sigurður Ólafsson átti sinn þátt í þessu ævintýri því á þessum árum söng hann með íslenskum danshljómsveitum, m.a. í Þórskaffi, Gúttó, og Breiðfirðingabúð, lék og söng í kabarettsýningum í Sjálfstæðishúsinu og á vegum Íslenzkra tóna í Austurbæjarbíói. Setti upp skemmtidagskrá ásamt félögum sínum, sem þeir fóru með um landið þvert og endilangt, tók þátt í danslagakeppnum og söng inn á fjölmargar hljómplötur.

Fyrsta hljóðritunin[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta hljóðritunin með söng Sigurðar mun vera lagið Silfrað hár sem hann söng inn á lakkplötu ásamt karlakórnum Stefni hjá Útvarpinu árið 1941. Þetta lag var síðar gefið út á safndiskinum „Þín minning lifir“ sem Sena gaf út 2003.

Litli vin[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "Litli_vin-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson.ogg" fannst ekki

Hljómplötufyrirtækið Íslenzkir tónar sem Tage Ammendrup rak gaf út flestar hljómplöturnar með söng Sigurðar Ólafssonar. Fyrsta hljómplata Sigurðar var hljóðrituð í upptökusal Ríkisútvarpsins í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll árið 1952 við undirleik hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar. Á henni eru lögin Litli vin, sem er erlent lag en Freysteinn Gunnarsson gerði textann, og Hvar varstu í nótt?, erlent lag sem Jón Sigurðsson gerði texta við.

Sjómannavalsinn[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "Sj%C3%B3mannavalsinn-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson.ogg" fannst ekki

Ári síðar gáfu Íslenzkir tónar síðan út plötu, sem geymir eitt allra vinsælasta lag Sigurðar fyrr og síðar, Sjómannavalsinn, eftir Svavar Benediktsson við texta Kristjáns frá Djúpalæk en þetta lag náði fyrsta sætinu í danslagakeppni SKT.

Um upptökurnar segir Sigurður: "Á þessum tíma voru allar hljómplötur hljóðritaðar í upptökusal Ríkisútvarpsins í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll. Þá fór upptakan þannig fram að við fluttum lagið frá upphafi til enda — rétt eins og við gerðum á dansleikjum. Ef eitthvað bar út af urðum við einfaldlega að byrja upp á nýtt."

Það er svo margt[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "%C3%9Ea%C3%B0_er_svo_margt-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson.ogg" fannst ekki

Sigurður söng einnig fyrstur söngvara hið rómaða lag; Það er svo margt að minnast á eftir Inga T. Lárusson við texta Einars Sæmundsen. Á sömu hljómplötu er einnig að finna lag Sigvalda Kaldalóns, Fjallið eina við ljóð Grétars Ó. Fells. Bæði þessi lög náðu ótrúlegum vinsældum og eru enn spiluð í Ríkisútvarpinu. Sjálfur segist Sigurður vera nokkuð sáttur við frammistöðu sína í laginu „Það er svo margt" og segir það vera eitt af sínum uppáhaldslögum.

— Það var vinur minn og félagi úr hestamennskunni Einar Sæmundsen sem orti ljóðið við þetta lag og líklega þykir mér vænna um það fyrir vikið. Einar var sérstaklega elskulegur maður og góður vinur minn og er þetta ljóð hans tileinkað minningum hans frá æskustöðvunum austur á Fjörðum. Reyndar var Ingi T. einnig Austfirðingur og þarna lögðu þeir tveir saman krafta sína og útkoman varð þetta fallega lag.[7]

Blikandi haf[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "Blikandi_haf-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson_og_Sigurveig_Hjaltested.ogg" fannst ekki

Næstu árin komu út fleiri plötur Íslenzkra tóna með söng Sigurðar en alls urðu lögin, sem hann söng inn á hljómplötur fyrir íslenska tóna, tuttugu og fimm að tölu. Þar á meðal má nefna Blikandi haf eftir Tólfta september (Freymóð Jóhannsson) en í því lagi sungu þau Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested saman. Þess má geta að þetta lag vann til fyrstu verðlauna í danslagakeppni SKT, sem haldin var árlega í Góðtemplarahúsinu á þessum árum.

Síldarvalsinn[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "S%C3%ADldarvalsinn-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson.ogg" fannst ekki

Árið 1956 söng Sigurður Ólafsson inn á hljómplötu, með Tríói J. Morávek, það lag sem átti eftir að bera hróður hans lengi og víða. Þetta var Síldarvalsinn eftir Steingrím Sigfússon frá Patreksfirði. Á sömu plötu syngja þau Soffía Karlsdóttir einnig Ég bíð þér upp í dans eftir Þórhall Stefánsson og Guðnýju Ricter við texta Örnólfs úr Vík.

Halló[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "Hall%C3%B3-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson_og_Hulda_Emilsd%C3%B3ttir.ogg" fannst ekki

Árið 1960 sungu þau Sigurður og Hulda Emilsdóttir saman tvö lög við texta eftir Tólfta september inn á hljómplötu sem gefin var út af Tónabandinu, útgáfu Freymóðs Jóhannssonar. Þar er að finna hið kunna lag Halló en á bakhlið plötunnar er lag sem heitir Bergmál hins liðna.

Á plötuumslagi má lesa eftirfarandi ummæli um söngvarana: „Hulda Emilsdóttir hefur vakið bráðvaxandi athygli með sérlega smekklegum söng sínum í útvarpi og á skemmtistöðum í Reykjavík hin síðari ár. Veitið þessari ungu listakonu athygli. Sigurður Ólafsson er meðal kunnustu og vinsælustu núlifandi söngvara íslenskra. Tónabandinu er þannig mikil ánægja að geta gefið hlustendum kost á hinum ágæta söng hans með Huldu Emilsdóttur á þessari hljómplötu."

Við eigum samleið[breyta | breyta frumkóða]

Hljóðskráin "Vi%C3%B0_eigum_samlei%C3%B0-Sigur%C3%B0ur_%C3%93lafsson_og_Mar%C3%ADa_Markan.ogg" fannst ekki

Síðasta platan, sem Íslenzkir tónar gáfu út með söng Sigurðar, kom út árið 1955. Þar nýtur Sigurður aðstoðar ekki ómerkari söngkonu en Maríu Markan og syngja þau m.a. saman á þeirri plötu lag Sigfúsar Halldórssonar Við eigum samleið við texta Tómasar Guðmundssonar. María Markan var þá nýkomin heim eftir mikla velgengni sem óperusöngkona á erlendri grund og söng þarna í fyrsta sinn, og líklega það eina, dægurlag inn á hljómplötu.

Feðgin syngja saman[breyta | breyta frumkóða]

Feðginin Þuríður Sigurðardóttir og Sigurður Ólafsson 1971

Svavar Gests útgefandi SG hljómplatna hitti kunningja sinn Sigurð Ólafsson á förnum vegi:

-Snemma á árinu 1971 hitti ég Sigurð á götu og datt þá í hug að spyrja hann hvort hann vildi ekki syngja inn á plötu — enda var þá langt um liðið síðan síðasta plata hans kom út, segir Svavar.

Sigurður aftók það með öllu og bar við æfingaleysi og aldri. Eftir miklar fortölur féllst hann á þetta en þó með því skilyrði að Þuríður Sigurðardóttir, dóttir hans, aðstoði hann í nokkrum lögum.

Sex mánuðum síðar kom platan út. Sem fyrr fylgdi Svavar Gests plötunni úr hlaði með stuttum texta á albúmi þar sem hann segir m.a.: „Lögin eru flestöll frá þeim tíma þegar Sigurður var upp á sitt besta en þó hefur hann ekki sungið neitt þessara laga inn á plötu fyrr. Sum hafa alls ekki komið út á plötu áður eins og Rökkvar í runnum eftir Jónatan, bróður hans, (við texta Oddfríðar Sæmundsdóttur, frænku hans), Nóttin og þú eftir Steingrím Sigfússon, Árin líða eftir Matthías Á. Mathiesen, Kveðja förumannsins eftir Gunnar Ingólfsson (frænda Sigurðar) og Í Reykjavík eftir Hjördísi Pétursdóttur. Eina erlenda lagið á plötunni er Hvar sem liggja mín spor, lag sem Sigurður söng á skemmtunum um árabil og heldur mikið upp á."

— "Ég var svolítið taugaóstyrkur þegar við Þura vorum að syngja þessi lög í hljóðveri, segir Sigurður. Hér áður fyrr, þegar ég söng inn á plötur, var söngur og hljóðfæraleikur hljóðritað saman en þarna varð ég að syngja með undirleikinn hljómandi í heyrnartækjum — beint í eyrun. En þetta gekk þó allt saman á endanum og mér er sagt að þessi plata hafi bara selst nokkuð vel. — Mér þótti ákaflega vænt um að fá að syngja með pabba á þessari plötu, segir Þuríður. Þetta var nokkurs konar „come-back" hjá gamla manninum og hann stóð sig eins og hetja. Ekki sakaði heldur að platan seldist vel og var og er enn mikið spiluð í útvarpinu."[8]

Hestamaðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Verðlaunaafhending á Hólum 1966. Til vinstri; Ingólfur Jónsson þáverandi landbúnaðarráðherra sem afhenti verðlaunin, svo Snúlla með Gulu-Glettu, þá Sigurður með Glettu og loks Björn Jónsson bóndi með Hroll.

Viðtal í dagblaðinu Vísi á Hellu 1976.

„Ég hef tekið þátt í öllum landsmótum sem haldin hafa verið og öllum fjórðungsmótum nema í einu", sagði Sigurður Ólafsson hinn góðkunni hestamaður og söngvari þegar við hittum hann ásamt konu hans Ingu Einarsdóttur (Snúllu) á Fjórðungsmótinu á Hellu. Sigurður var þá mættur rétt einu sinni á hestamót. ,,Ég er ekki með neina hesta í keppninni að þessu sinni, en Erlingur sonur okkar er með hesta", sagði Sigurður.[9]

Sigurður er líklega þekktastur allra skeiðhrosseigenda og hafa hestar hans getið sér orðstí fyrir skeiðið. Þekktastur allra skeiðhrossa er líklega Gletta, sem lengi átti Íslandsmet.

„Ég sýndi hana síðast 29 vetra, þá fór hún sýningarsprett á móti syni sinum Hrolli og stakk hann hreinlega af. Hún keppti hins vegar ekki í skeiði og var Hrollur sigurvegari í því. Hrollur hætti að keppa þegar hann var orðinn tuttugu vetra. Hann byrjaði hins vegar níu vetra og sigraði allan sinn feril. Það var ánægjulegt að hann var með betri tíma þegar hann hætti en þegar hann hóf sinn skeiðferil".

Hvað gerir hross að góðu skeiðhrossi?

„Fyrst og fremst er það eðlið. En auk meðfæddra hæfileika bætast við þjálfun og meðferð. En við skulum minnast þess að gæðingur er ekki neinn hestur nema hann hafi allan gang. Einhliða vakur hestur er ekki skemmtilegur. — Mér finnst það athugavert við þær miklu framfarir sem orðið hafa í hestamennskunni að tímavörslu og dómgæslu og þess háttar miðar niður á við. Áður var ræst með bjöllu og dómari var löggiltur frá ÍSÍ en nú er hins vegar ræst með flaggi. Það þyrfti að vinna að ötulli kennslu í tímatöku. Dálæti á ljósum hestum Þau Sigurður og Inga hafa verið þekkt að því að eiga mikið úrval skeiðhrossa en einnig fyrir að hestar þeirra hafa verið Ijósleitir. ,,Mér hefur alltaf þótt gaman að sjá þessa ljósu hesta", segir Inga. ,,Áður og fyrr voru alltaf fáir Ijósir hestar en það er ánægjulegt að vita til þess að þeim virðist fara fjölgandi.

Um hestamennsku sem tómstundagaman segja þau Sigurður og Inga. „Það er dýrðlegt að vera úti í fallegu umhverfi og bílarnir hvergi nærri. Það er ekki hægt að komast í betra samband við náttúruna en að ríða út einn eða við annan mann.“[10]

Fjölskyldan[breyta | breyta frumkóða]

Fjölskyldan 1978. Frá vinstri; Ævar, Þuríður, Sigurður, Erling, Snúlla, Ólafur, Valgerður og Gunnþór.

Sigurður kvæntist 3. desember 1938 Ingu Valfríði Einarsdóttur, f. 10. nóvember 1918, sjúkraliða sem kölluð er Snúlla. Þau hjónin reistu sér myndarbú í Laugarnesi þar sem þau bjuggu næstu 30 árin ásamt hvítu fákunum og börnunum sex, þeim Valgerði, f. 1937, meinatækni; Erling, f. 1942, tamningamanni og reiðkennara; Ævari, f. 1944, bílamálara; Þuríði, f. 1949, söngkonu og málara; Ólafi, f. 1950, trésmið og Gunnþóri, leikmunaverði og pönkara f. 1960. Dóttir Sigurðar frá því fyrir hjónaband er Elsa, húsmóðir í Reykjavík.


Litið yfir sviðið[breyta | breyta frumkóða]

-Margir vildu nota mann, það er rétt, segir Sigurður. En fæstir vildu ráða mann eins og mig í fasta vinnu. Það var því ekki um annað að ræða en taka því sem bauðst — hvort sem það hét dægurlagasöngur eða annars konar söngur. Það kom því oft fyrir að ég væri þátttakandi í mörgum verkefnum í einu og varð ég að sæta lagi að komast yfir allt saman, segir hann að lokum.



Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

Íslenzkir tónar[breyta | breyta frumkóða]

Útgáfuröðin IM 1-120[breyta | breyta frumkóða]

78-snúninga plötur.

  • IM 13 - Sigurður Ólafsson - Litli vin - Hvar varstu í nótt - 1953
  • IM 14 - Sigurður Ólafsson - Meira fjör - Komdu þjónn… - 1953
  • IM 20 - Sigurður Ólafsson - Sjómannavals - Stjörnunótt - 1953
  • IM 30 - Sigurður Ólafsson - Kvöldkyrrð - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf - 1953
  • IM 45 - Sigurður Ólafsson - Á Sprengisandi - Kveldriður - Svanurinn minn syngur - 1954
  • IM 46 - Sigurður Ólafsson - Það er svo margt - Fjallið eina - 1954
  • IM 56 - Sigurður Ólafsson - Síldarvalsinn - Sigurður Ólafsson og Soffía Karlsdóttir - Ég bíð þér upp í dans - 1954
  • IM 85 - María Markan og Sigurður Ólafsson - Við eigum samleið // María Markan - Þitt augnadjúp - 1955
  • IM 88 - Sigurður Ólafsson - Ástarvísa hestamannsins - Tígulkvartettinn - Sveinki káti - 1955
  • IM 89 - Sigurður Ólafsson - Við komum allir, allir… - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Á Hveravöllum - 1955
  • IM 111 - Sigurður Ólafsson - Sjómannavalsinn - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf - 1956

Útgáfuröðin EXP-IM 1-122[breyta | breyta frumkóða]

45-snúninga plötur.

  • EXP-IM 2 - Sigurður Ólafsson - Litli vin - Kvöldkyrrð - Ingibjörg Þorbergs og Alfreð Clausen - Á morgun - Sigurveig Hjaltested og Alfreð Clausen - Blikandi haf - 1954
  • EXP-IM 9 - Sigurður Ólafsson - Á Sprengisandi - Kveldriður - Svanurinn minn syngur - Fjallið eina - Það er svo margt - 1954
  • EXP-IM 15 - Alfreð Clausen - Ég minnist þín - Góða nótt - Sigurður Ólafsson - Og jörðin snýst úr Nitouche - Alfreð Clausen og Sigurður Ólafsson - Drykkjuvísa úr Bláu kápunni - 1956
  • EXP-IM 35 - Sigurður Ólafsson - Sjómannavalsinn - Síldarvalsinn -Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Á Hveravöllum - 1958
  • EXP-IM 62 - Tígulkvartettinn - Ég bið að heilsa - Sólsetursljóðin - Sigurður Ólafsson - Smaladrengurinn - Smalastúlkan - Karlakórinn Vísir, Siglufirði - Ég vil elska mitt land - 1959
  • EXP-IM 72 - Óðinn Valdimarsson - Útlaginn - Ingibjörg Þorbergs - Kvölds í ljúfum blæ - Sigurður Ólafsson og Sigurveig Hjaltested - Blikandi haf - Sigfús Halldórsson -Tondeleyo - 1960

Útgáfuröðin LP-IT[breyta | breyta frumkóða]

33-snúninga plötur.

  • LPIT 1000/1 - Söngvar frá Íslandi nr. 1 - 2 plötur (Dægurlög) - 27 lög með ýmsum flytjendum.
  • LPIT 1002/3 - Söngvar frá Íslandi nr. 2 - 2 plötur. (Sönglög) - 26 lög með ýmsum flytjendum.

Tónabandið[breyta | breyta frumkóða]

45-snúninga

  • TON 101 - Halló -Bergmál hins liðna

SG hljómplötur[breyta | breyta frumkóða]

LP

Útgáfuröðin „SG 001-175“[breyta | breyta frumkóða]

  • SG 042 - Sigurður og Þuríður - Feðgin syngja saman (1971)

Útgáfuröðin „Íslenskir tónar“[breyta | breyta frumkóða]

  • IT - 004 - 005 - Sigurður Ólafsson - Safnplötur með 30 lögum frá 1952 - 1957 - 25 laganna hafa komið út á plötum Íslenzkra tóna - 5 eru áður óútgefin. SG hljómplötur gaf út 1978.

Sena[breyta | breyta frumkóða]

  • Þín minning lifir- Íslenskir tónar/Sena - 2003

RÚV[breyta | breyta frumkóða]

  • Útvarpsperlur - RUV - 2002 - Upptökur úr safni útvarpsins og og einkasafni Jónatans Ólafssonar
  • Óútgefið efni í eigu RUV - Lög eftir Vestur Íslendinginn Ólaf Hallsson, 1950 (fundust á lakkplötum fyrir nokkrum árum og voru hljóðhreinsuð hjá RUV)

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Vísir 6. júní 1981, bls. 16 - Viðtal við Sigurð Ólafsson og Snúllu:
  2. Vísir 6. júní 1981, bls. 16 - Viðtal við Sigurð Ólafsson og Snúllu:
  3. Í söngvarans jóreyk,bls. 170 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  4. Í söngvarans jóreyk,bls. 173 - 174 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  5. Í söngvarans jóreyk,bls. 176 - 177 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  6. Í söngvarans jóreyk,bls. 177 - 178 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  7. Í söngvarans jóreyk,bls. 181 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  8. Í söngvarans jóreyk,bls. 188 - 189 - Ragnheiður Davíðsdóttir skráði:
  9. Vísir 4. júlí 1976, bls. 4 - Viðtal við Sigurð Ólafsson á hestamannamóti á Hellu:
  10. Vísir 4. júlí 1976, bls. 4 - Viðtal við Sigurð Ólafsson á hestamannamóti á Hellu:

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]