Þórunn Ormsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þórunn Ormsdóttir (d. um 1432) var príorinna og stýrði Reynistaðarklaustri ásamt Þuríði Halldórsdóttur frá 1408 til dauðadags en var þó aldrei skipuð abbadís; engin abbadís var í klaustrinu frá því að Ingibjörg Örnólfsdóttir lést í Svarta dauða og til 1437.

Björgólfur Illugason ráðsmaður stýrði klaustrinu fyrst eftir pláguna en 1408 tóku þær Þórunn og Þuríður við. Klaustrið auðgaðist á þeirra tíð, ekki síst vegna ættmenna Björgólfs ráðsmanns, en Steinunn dóttir hans og Sigríður Sæmundsdóttir frænka hans gengu í klaustrið 1413 og voru gefin með þeim 50 hundruð og 1427 gerðist Illugi sonur Björgólfs próventumaður í klaustrinu og lagði með sér jörð og Þóra dóttir hans gerðist nunna í klaustrinu.

Þann 4. febrúar 1431 vígði Jón Vilhjálmsson biskup átta nunnur til klaustursins og voru það þær Sigríður Sæmundsdóttir, Steinunn Björgólfsdóttir, Þóra Illugadóttir, Þóra Finnsdóttir, Helga Bjarnadóttir, Arndís Einarsdóttir, Agnes Jónsdóttir og Þórdís Finnsdóttir, og hétu þær hreinlífi, hlýðni við yfirboðar og fátækt, en ekki stóðu þær allar við fyrsta hluta heitisins því skömmu síðar fæddi Þóra Illugadóttir barn sem séra Þórður Hróbjartsson (Roðbjartsson) var faðir að en hann var prestur á Hólum í Hjaltadal. Var því ljóst að hún hafði verið orðin þunguð þegar hún var vígð. En ekki nóg með það: Um áramótin næstu ól Þuríður Halldórsdóttir, sem lengi hafði verið í klaustrinu, einnig barn. Faðir þess var Þorlákur Sigurðsson, bryti á Hólum. Jón biskup tók fremur vægt á þessum brotum en Þórður Hróbjartsson var dæmdur í suðurgöngu til Rómar. Þau Þóra munu þó hafa átt annað barn saman síðar.

Þetta var auðvitað mikið hneyksli og erfitt fyrir Þórunni príorinnu, en hún virðist raunar hafa dáið skömmu síðar. Þá varð príorinna Þóra Finnsdóttir, ein hinna nývígðu systra.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
  • „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.