Élisa Bonaparte

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Bonaparte-ætt Stórhertogaynja af Toskana og prinsessa af Lucca og Piambino
Bonaparte-ætt
Élisa Bonaparte
Élisa Bonaparte
Ríkisár 19. mars 1805 – 18. mars 1814 (sem prinsessa Lucca og Piambino), 3. mars 1809 – 1. febrúar 1814 (sem stórhertogaynja Toskana)
SkírnarnafnMarie Anne Élisa Bonaparte
Fædd3. janúar 1777
 Ajaccio, Korsíku
Dáin7. ágúst 1820
 Tríeste, austurríska keisaradæminu
GröfSan Petronio-basilíku í Bologna
Konungsfjölskyldan
Faðir Carlo Buonaparte
Móðir Letizia Ramolino
EiginmaðurFelice Pasquale Baciocchi
BörnFelix, Elisa, Jérôme, Frédéric

Marie Anne Élisa Bonaparte Baciocchi Levoy (3. janúar 1777 – 7. ágúst 1820) var korsísk-frönsk aðalskona sem ríkti sem prinsessa af Lucca og Piambino (1805–1814) og sem stórhertogaynja af Toskana og greifynja af Compignano á Ítalíu í umboði bróður síns, Napóleons keisara.

Élisa var fjórða barn og elsta dóttir Carlo Buonaparte og Letiziu Ramolino sem komst á legg. Hún var yngri systir Napóleons Bónaparte. Hún átti einnig eldri bræðurna Joseph og Lucien og yngri systkinin Louis, Pauline, Caroline og Jérôme.

Sem prinsessa af Lucca og Piombino og stórhertogaynja af Toskana var Élisa eina systir Napóleons sem fór með pólitísk völd. Samband þeirra var stundum stirt vegna móðgunargirni Napóleons og hvassra ummæla Élisu. Élisa hafði mikinn áhuga á list, sérstaklega leiklist, og ýtti undir listastarfsemi í löndunum þar sem hún ríkti.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Élisa giftist þann 1. maí 1797 Felice Pasquale Baccioli. Árið 1798 flutti Élisa til Parísar, þar sem hún umgekkst mennta- og menningarsamfélagið. Eftir að bróðir hennar tók sér keisaratign árið 1804 fékk Élisa titilinn „hennar keisaralega hátign“ og næsta ár fékk hún til sinna yfirráða furstadæmin Lucca og Piombino. Árið 1809 varð hún stórhertogaynja Toskana.

Élisa stýrði ríkjum sínum af klókindum og ötulsemi. Hún stofnaði banka og listaskóla fyrir myndhöggvara, endurskipulagði lögin að franskri fyrirmynd, setti skatt á kirkjuna og lokaði öllum klaustrum nema þeim sem hýstu aðra starfsemi, innleiddi ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir fátæka, stofnaði landbúnaðarskóla, og kom á almennri skólaskyldu fyrir stúlkur. Hún stóð einnig fyrir stórtækum byggingarverkefnum, þar á meðal vatnsveitu sem hún byrjaði að byggja árið 1811. Hún vann sér þó inn óvinsældir þar sem hún var frönsk, vegna óbilgirni sinni gagnvart kirkjunni og fyrir að rífa niður gamlar byggingar og var uppnefnd „La Madame“.

Sagt er að Élisa hafi sem stórhertogaynja Toskana átt í ástarsambandi við hirðskáld sitt, fiðluleikarann Niccolò Paganini. Samband hennar við Napóleon versnaði síðustu valdaár hennar þar sem hún bauð páfann, sem átti í deilum við Napóleon, velkominn í ríki sitt.

Eftir hundrað dagana árið 1815 var Élisa gerð brottræk frá Ítalíu. Hún settist að í Tríeste (sem þá tilheyrði austurríska keisaradæminu) og stytti sér þar stundir með því að fjármagna fornleifauppgröft.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]