Norðurmýri

Hnit: 64°08′21″N 21°55′06″V / 64.13917°N 21.91833°V / 64.13917; -21.91833
From Wikipedia

64°08′21″N 21°55′06″V / 64.13917°N 21.91833°V / 64.13917; -21.91833

Norðurmýri

Norðurmýri er hverfi í Reykjavík sem markast af Snorrabraut í vestri, Miklubraut í suðri og Rauðarárstíg í austri. Norðurmörk hverfisins eru ýmist talin miðast við Njálsgötu, Grettisgötu eða Laugaveg. Það fer þannig eftir því hvernig hverfið er skilgreint hvort Austurbæjarbíó telst vera í Norðurmýri eða ekki. Hverfið dregur nafn sitt af mýrlendi sem var milli Skólavörðuholts og Rauðarárholts. Nyrsti hluti Norðurmýrarinnar, ofan Hverfisgötu og fram að sjó nefndist Elsumýri. Syðsti og austasti hlutinn liggur að Klambratúni. Í dag er stundum litið á Norðurmýri sem hluta af Hlíðum, þó að Norðurmýri sé eldri.

Samkvæmt fyrstu tillögum að bæjarskipulagi Reykjavíkur frá 1927 var gert ráð fyrir að járnbrautarstöð risi í Norðurmýri. Horfið var frá því ráði og á ofanverðum fjórða áratugnum hófst þar bygging íbúðahverfis.

Götur[edit | edit source]

Götur innan Norðurmýrar
Nafn götu Fjöldi húsa Uppruni nafns
Auðarstræti 10 Auður Djúpúðga - Laxdæla
Bollagata 13 Bolli Þorleiksson - Laxdæla
Guðrúnargata 10 Guðrún Ósvífursdóttir - Laxdæla
Gunnarsbraut 17 Gunnar Hámundarson - Njála
Hrefnugata 10 Hrefna Ásgeirsdóttir - Laxdæla
Karlagata 23 Karli - Landnáma
Kjartansgata 10 Kjartan Ólafsson - Laxdæla
Mánagata 26 Þorkell máni - Landnáma
Skarphéðinsgata 9 Skarphéðinn Njálsson - Njála
Skeggjagata 21 Þórður Skeggi - Landnáma
Vífilsgata 23 Vífill - Landnáma
Götur að hluta til innan norðurmýrar
Nafn götu Fljöldi húsa innan Norðurmýrar Uppruni nafns
Flókagata 17 Hrafna-Flóki - Landnáma
Njálsgata 12 Njáll Þorgeirsson - Njála
Grettisgata 0 / 5* Grettir Ásmundarson**
Rauðarárstígur 12 / 13* Rauðará - Örnefni
Snorrabraut 14 / 15* Snorri Goði - Laxdæla***

*Tala er margbreytileg eftir því hvort Norðurmýri er afmörkuð af Njálsgötu eða Grettisgötu.

**Grettir Ásmundarson kemur helst fram í Grettis-sögu en einnig í Laxdælu og Landnámu.

***Snorri Goði kemur fram í Laxdælu, Brennu-Njáls sögu og Landnámu.

Byggð[edit | edit source]

Norðurmýrin er íbúðahverfi og flest húsin þar eru frá fjórða áratugnum. Flest húsin eru tveggja eða þriggja hæða steinuð fjölbýlishús með görðum sunnan megin við húsin og steyptum garðveggjum. Við Rauðarárstíg og Njálsgötu er nánast samfelld tveggja hæða húsalengja. Hægt er að sjá greinileg merki um sig jarðvegarins sem stafar af þornun mýrarinnar á því hvernig garðar hafa sigið niður fyrir gangstéttar og garðveggi.

Í bókmenntum og kvikmyndum[edit | edit source]

Í æskuminningabókinni Sól í Norðurmýri eftir Þórunni Valdimarsdóttur og Magnús Þór Jónsson (Megas) er lýst uppvexti ungs drengs í hverfinu.

Norðurmýrin er sögusvið spennusögunnar Mýrin eftir Arnald Indriðason. Samnefnd kvikmynd Baltasars Kormáks frá 2006 sem gerð var eftir sögunni var tekin í hverfinu.

Mörg atriði í Bíódögum Friðriks Þórs Friðrikssonar voru tekin upp í Norðurmýri.

Mikill hluti Löggulífs eftir Þráin Bertelsson var tekinn upp í Norðurmýri.