Eftirgrennslanadeild

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eftirgrennslanadeild var deild innan íslensku lögreglunnar sem varð vísir að íslenskri leyniþjónustu og hafði það verkefni að fylgjast með fólki á Íslandi sem þáverandi ráðamenn töldu sér óvinveitt. Stofnun hennar árið 1939 varð til fyrir áhyggjur framsóknar- og sjálfstæðismanna af uppgangi nasista og kommúnista, en þegar fram liðu stundir var þó aðallega fylgst með kommúnistum. Leyniskjölin sem safnað var með persónunjósnum og hlerunum enduðu síðar í götóttri olíutunnu fyrir utan Reykjavík þar sem þau voru brennd árið 1976.

Stofnun Eftirgrennslanadeildarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1939 fól, Hermann Jónasson forsætisráðherra, lögreglustjóraembættinu í Reykjavík að stofna það sem hann nefndi Eftirgrennslanadeild. Var lögreglustöðin þá við Pósthússtræti. Stofnun deildarinnar kom til vegna uppgöngu nasista og kommúnista á Íslandi og slagurinn við Guttó árið 1932 var líka hvati til að halda saman upplýsingum um ákafamennn á vinstri væng stjórnmálanna. Eftirgrennslanadeildin starfaði innan útlendingaeftirliti lögreglunnar næstu tíu árin en þá beitti Bjarni Benediktsson sér, þáverandi dómsmálaráðherra, fyrir stofnun strangleynilegrar öryggisþjónustudeildar hjá lögreglustjóraembættinu í nánum tengslum við dómsmálaráðuneytið.

Lokaða herbergið[breyta | breyta frumkóða]

Árni Sigurjónsson, sem síðar varð yfirmaður Útlendingaeftirlitsins, starfaði þá þegar að öryggismálum og Sigurjón Sigurðsson, sem þá var orðinn lögreglustjóri, valdi auk þess Pétur Kristinsson, fyrrverandi húsgagnasmið, til þessara starfa. Sá Pétur um gagnasöfnun og spjaldskrár en Árni um aðgerðir og eftirlit. Þeir störfuðu í herbergi á lögreglustöðinni sem var kallað „lokaða herbergið“.

Upplýsingarnar brenndar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1976 ætlaði Sigurjón Sigurðsson að sækja um starf hæstaréttardómara og taldi sig fá vilyrði fyrir því embætti. Um leið taldi hann að tími væri kominn til að farga mestum hluta af því skjalasafni sem lögreglan hafði komið sér upp um kommúnista en með þeim hafði aðallega verið fylgst. Trúnaðarmaður Sigurjóns flutti því megnið af safninu, þar á meðal spjaldskrár, upp í sumarbústað sinn í nágrenni Reykjavíkur og brenndi gögnin til ösku í götóttri olíutunnu. Af varð mikill reykur, eins og haft var á orði í þeim fámenna hópi sem vissi um brennuna. Sigurjón hlaut aldrei embætti hæstaréttardómara.

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

  • Í fórum Guðmundar Ásbjörnssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að honum látnum, fundust skjöl þar sem taldar voru upp þær stofnanir sem þyrfti að njósna um.
  • Finnbogi Hermansson segir frá því í bók sinni: Í húsi afa míns hvernig föður hans sem var húsgagnasmiður hafi verið sagt upp störfum vegna pólitískra skoðana sinna. Hann segir á einum stað: „Svona gekk þetta árum saman, að fólk og fjölskyldur máttu sæta ofsóknum íslenskra Kanaleppa og hrærunni stjórnað úr leyniherbergi í gömlu lögreglustöðinni við Pósthússtræti, sem áður hýsti Barnaskóla Reykjavíkur. Drengurinn góði, Pétur Kristinsson, og eftirmenn hans voru auðvitað að vinna vinnuna sína“. [1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Í húsi afa míns; Finnbogi Hermansson, útg. 2008, Uppheimar, bls. 127

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]