Zenóbía

Septimía Zenóbía (arameíska: 𐡡𐡶𐡦𐡡𐡩 Bat-Zabbai; um 240 – um 274) var drottning Palmýruveldisins í Sýrlandi hinu meira á 3. öld. Ýmsar kenningar eru til um uppruna hennar. Hún var líklega ekki af alþýðufólki og giftist Odaenathusi, stjórnanda borgarinnar Palmýru. Árið 260 varð eiginmaður hennar konungur og Palmýra varð stórveldi í Austurlöndum nær eftir að hafa unnið sigur á Sassanídum frá Persíu. Odaenathus var myrtur og Zenóbía varð ríkisstjóri fyrir hönd sonar síns Vaballathusar. Öll ríkisár hans var stjórn ríkisins í hennar höndum.
Árið 270 hóf Zenóbía landvinningastríð og lagði undir sig mest af því sem áður voru austurlönd Rómaveldis. Loks féll Rómverska Egyptaland í hendur hennar. Frá miðju árinu 271 náði veldi hennar frá Ankýru í miðri Anatólíu í norðri, að Efra Egyptalandi í suðri. Á þeim tíma var ríki hennar enn að nafninu til hluti af Rómaveldi, en eftir herfarir Árelíanusar keisara árið 272 lýsti Zenóbía yfir keisaratign sonar síns og tók sjálf upp titilinn keisaraynja. Hún klauf þannig Palmýru frá Rómaveldi. Eftir harða bardaga báru Rómverjar að lokum sigur úr býtum. Árelíanus náði Zenóbíu á sitt vald í Palmýru. Hann rak hana í útlegð til Rómar þar sem hún lifði til æviloka.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Southern, Patricia (2008). Empress Zenobia: Palmyra's Rebel Queen. A&C Black. bls. 159. ISBN 978-1-4411-4248-1.