Yoshihiko Noda
| Yoshihiko Noda | |
|---|---|
| 野田 佳彦 | |
Yoshihiko Noda árið 2011. | |
| Forsætisráðherra Japans | |
| Í embætti 2. september 2011 – 26. desember 2012 | |
| Þjóðhöfðingi | Akihito |
| Forveri | Naoto Kan |
| Eftirmaður | Shinzō Abe |
| Persónulegar upplýsingar | |
| Fæddur | 20. maí 1957 Funabashi, Chiba, Japan |
| Stjórnmálaflokkur | Lýðræðisflokkurinn (1998–2016) |
| Maki | Hitomi Noda (g. 1970) |
| Börn | 2 |
| Háskóli | Waseda-háskóli |
Yoshihiko Noda (japanska: 野田 佳彦; f. 20. maí 1957) er japanskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Japans frá 2011 til 2012. Noda var leiðtogi Lýðræðisflokksins, sem fór fyrir ríkisstjórn Japans frá 2009 til 2012.
Noda var fjármálaráðherra í ríkisstjórn forvera síns, Naoto Kan. Hann þótti varkár í því embætti og hafði lýst sig fylgjandi því að hækka skatta á tekjuháa til að mæta tekjuþörf ríkisins, sem var stórskuldugt. Noda var hins vegar andvígur því að hækka skatta á áfengi og tóbak.[1]
Noda var kjörinn leiðtogi Lýðræðisflokksins og forsætisráðherra Japans þegar Naoto Kan sagði af sér í lok ágúst árið 2011.[2][3] Þegar Noda tók við embætti var stjórnin enn að fást við eyðilegginguna eftir jarðskjálftann og flóðið sem fóru yfir Japan í mars 2011. Enn var mikil hreinsun og uppbygging óunnin vegna hamfaranna og orkuframleiðsla í landinu var illa löskuð vegna sprenginga í kjarnorkuverinu í Fukushima í skjálftanum. Þegar þarna var komið hafði Lýðræðisflokkurinn tapað meirihluta á efri deild japanska þingsins og átti því erfitt með að koma málum sínum í gegn.[4]
Sem forsætisráðherra lét Noda hækka vöruskatta í landinu, sem varð honum til mikilla óvinsælda og leiddi til þess að þrír fyrrverandi ráðherrar lýstu yfir framboði gegn honum í formannskjöri Lýðræðisflokksins.[5]
Noda lét endurræsa tvo af 50 kjarnorkuofnum Japans í júní 2012. Kjarnorkuverunum hafði verið lokað eftir kjarnorkuslysið í Fukushima en Noda sagði japanskt þjóðfélag ekki geta lifað af ef verin yrðu öll höfð í biðstöðu.[6]
Noda lét rjúfa þing og boða til þingkosninga í nóvember 2012.[7] Í kosningunum tapaði Lýðræðisflokkurinn illa fyrir Frjálslynda lýðræðisflokknum undir forystu Shinzō Abe. Noda viðurkenndi ósigur og sagði í kjölfarið af sér sem leiðtogi Lýðræðisflokksins.[8]
Noda hefur áfram verið virkur í japönskum stjórnmálum eftir að hann lét af embætti forsætisráðherra. Í september 2024 var hann kjörinn leiðtogi Stjórnarskrárbundna lýðræðisflokksins, eins af arftökum Lýðræðisflokksins.[9] Flokkurinn bætti við sig miklu fylgi undir forystu Noda í þingkosningum árið 2025. Þegar japanska þingið kaus um forsætisráðherra eftir þingkosningarnar tapaði Noda fyrir Shigeru Ishiba, leiðtoga Frjálslynda lýðræðisflokksins.[10]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Hvorki ríkur né myndarlegur“. mbl.is. 30. ágúst 2011. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „Nýr forsætisráðherra Japans“. Vísir. 30. ágúst 2011. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „Noda skipaður forsætisráðherra“. RÚV. 30. ágúst 2011. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „Tekur við ógrynni vandamála af Kan“. Fréttablaðið. 30. ágúst 2011. bls. 10.
- ↑ „Sótt að forsætisráðherra Japans úr eigin flokki“. Vísir. 21. september 2012. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „Vill endurræsa tvo kjarnaofna“. Vísir. 9. júní 2012. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „Noda rýfur þing í Japan“. mbl.is. 16. nóvember 2012. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „Noda játar sig sigraðan“. RÚV. 16. desember 2012. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ „立憲新代表に野田元首相、決選投票で枝野氏上回る 人事で「刷新感」“. The Asahi Shimbun. 23. september 2024. Afrit af uppruna á 23. september 2024. Sótt 23. september 2024.
- ↑ Atli Ísleifsson (11. nóvember 2024). „Ishiba áfram forsætisráðherra þrátt fyrir kosningatap“. Vísir. Sótt 24. ágúst 2025.
| Fyrirrennari: Naoto Kan |
|
Eftirmaður: Shinzō Abe | |||