Fara í innihald

Xiomara Castro

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Xiomara Castro
Xiomara Castro árið 2023.
Forseti Hondúras
Núverandi
Tók við embætti
27. janúar 2022
VaraforsetiSalvador Nasralla
Doris Gutiérrez
Renato Florentino
ForveriJuan Orlando Hernández
Persónulegar upplýsingar
Fædd30. september 1959 (1959-09-30) (64 ára)
Santa Bárbara, Hondúras
ÞjóðerniHondúrsk
StjórnmálaflokkurFrelsisflokkurinn
MakiManuel Zelaya (g. 1976)
TrúarbrögðKaþólsk
Börn4
HáskóliInstituto Hondureño de Cultura Interamericana

Iris Xiomara Castro Sarmiento, einnig kölluð Xiomara Castro de Zelaya (f. 30. september 1959) er hondúrsk stjórnmálakona og núverandi forseti Hondúras. Hún var kjörin forseti í kosningum í lok nóvember 2021 og tók við embætti í janúar 2022. Castro var frambjóðandi Frelsisflokksins, samfylkingu hondúrskra vinstrihreyfinga, og hafði tvisvar áður boðið sig fram til forseta.[1] Hún er fyrsti kvenforseti Hondúras.[2]

Eiginmaður Castro er Manuel Zelaya, sem var forseti Hondúras frá 2006 til 2009. Honum var steypt af stóli í valdaráni hersins árið 2009 með velþóknun viðskipastéttar og hæstaréttar landsins.[3]

Uppvöxtur og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Xiomara Castro er önnur úr hópi fimm barna og gekk í grunn- og gagnfræðaskóla í Tegucigalpa við San José del Carmen-stofnunina og Maríu Auxiliadoru-stofnunina. Hún hlaut gráðu í viðskiptastjórnun.[4][5]

Castro giftist Manuel Zelaya í janúar 1976. Strax eftir brúðkaupið settust hjónin að í Catacamas í Olancho-umdæmi.

Castro var virk í samtökum fyrir maka meðlima Rótarý-hreyfingarinnar í Catacamas og í starfsemi sem hópurinn skipulagði til að hjálpa bágstöddum börnum í Olancho-umdæmi. Hún tók þátt í stofnun dagstofu fyrir börn í Catacamas (sp. Centro de Cuidado Diurno para Niños en Catacamas) með það að markmiði að aðstoða einstæðar fjölskyldumæður. Samtökin hjálpuðu til við hreinsun, grænmetisrækt og blómarækt til að stuðla að atvinnuþróun.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Í Catacamas skipulagði Castro kvennahreyfingu hondúrska Frjálslynda flokksins og tók virkan þátt í kosningabaráttu eiginmanns síns innan flokksins í febrúar 2005.

Castro varð forsetafrú Hondúras þegar eiginmaður hennar varð forseti árið 2006. Sem slík stýrði hún samfélagsþróunarverkefnum og vann með Sameinuðu þjóðunum ásamt öðrum forsetafrúm til að taka á vandamálum kvenna með alnæmi.[6]

Eftir að Zelaya var steypt af stóli í júní 2009 leiddi Castro mótmælahreyfingu gegn valdaráninu. Hún tók þátt í mörgum mótmælasamkomum ásamt þúsundum landsmanna til að krefjast endurkomu Zelaya.[7] Mótmælahreyfingin hlaut nafnið Þjóðfylking alþýðuandspyrnunnar (sp. Frente Nacional de Resistencia Popular eða FNRP) og varð grunnurinn að nýjum stjórnmálaflokki hjónanna, Frelsisflokknum (sp. Libertad y Refundación; bókstaflega „Frelsi og viðreisn“).[7] Castro leitaði hælis ásamt eiginmanni sínum í brasilíska sendiráðinu þar til komist var að samkomulagi við nýju stjórnina.[6]

Forsetakosningarnar 2013[breyta | breyta frumkóða]

Þann 1. júlí 2012 tilkynnti Castro opinberlega á viðburði í Santa Barbara að hún hygðist gefa kost á sér í forsetakosningum Hondúras næsta ár.[4] Hún vann síðan prófkjör flokksins síns þann 18. nóvember 2012[8] og var formlega valin forsetaframbjóðandi Frelsisflokksins þann 16. júní 2013.[7] Castro gagnrýndi nýfrjálshyggju og hervæðingu samfélagsins og lofaði því að ef hún næði kjöri myndi hún kalla saman stjórnlagaþing til að skrifa nýja stjórnarskrá.[7]

Frá mars til október mældist Castro með forskot á aðra frambjóðendur í skoðanakönnunum.[7][6][9] Í síðustu könnuninn fyrir kosningarnar datt hún hins vegar niður í annað sæti á eftir frambjóðanda Þjóðarflokksins, Juan Orlando Hernández.[10][11] Castro og Hernández voru almennt álitin sigurstranglegustu frambjóðendurnir í aðdraganda kosninganna.[12][11] Castro lenti í öðru sæti á eftir Hernández með 896.498 atkvæðum (28,78%) gegn 1.149.302 (36,89%) sem Hernández hlaut.[13] Þótt Castro hafi ekki unnið kosningarnar var víða litið á framboð hennar sem höfnun á tvíflokkakerfi Hondúras þar sem Frelsisflokkur hennar hlaut meira fylgi en Frjálslyndi flokkurinn og varð næststærsti flokkurinn á hondúrska þinginu.[14]

Forsetakosningarnar 2017[breyta | breyta frumkóða]

Castro sóttist aftur eftir útnefningu Frelsisflokksins fyrir forsetakosningar Hondúras árið 2017.[15] Hún vann forkosningar flokksins auðveldlega[16] en þegar Frelsisflokkurinn gekk í kosningabandalag ásamt Nýsköpunar- og einingarflokknum féllst hún á að stíga til hliðar og leyfa Salvador Nasralla að vera forsetaframbjóðandi á kjörseðli bandalagsins.[17]

Forsetakosningarnar 2021[breyta | breyta frumkóða]

Castro var aftur valin forsetaframbjóðandi Frelsisflokksins árið 2021.[18][19] Salvador Nasralla, forsetaframbjóðandi Bjargvættarflokksins, dró framboð sitt síðar til baka og gerðist varaforsetaframbjóðandi í framboði Castro.[20] Skoðanakannanir bentu til tvísýnna kosninga milli Castro og hægrisinnaðs mótframbjóðanda hennar, Nasry Asfura, úr Þjóðarflokknum.[21][22] Í kosningaherferðinni lagði Castro til að Hondúras skyldi stofna til stjórnmálasambands við Alþýðulýðveldið Kína í stað Lýðveldisins Kína á Taívan. Hún stakk einnig upp á því að stofnuð yrði spillingarnefnd með stuðningi Sameinuðu þjóðanna líkt og í Gvatemala og að stjórnarskrá landsins yrði endurskoðuð.[23][24] Hún hefur einnig lagt til að slakað verði á algeru banni landsins við þungunarrofum.[25]

Eftir að útgönguspár kosninganna voru birtar lýsti Castro yfir sigri.[25][26] Þann 30. nóvember viðurkenndi flokkur Asfura ósigur.[27][28] Hann fundaði síðan með Castro og óskaði henni til hamingju. Castro tók við embætti sem fyrsti kvenforseti Hondúras þann 27. janúar 2022.[29]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Ævar Örn Jósepsson (29. nóvember 2021). „Stefnir í stórsigur stjórnarandstæðings í Hondúras“. RÚV. Sótt 5. desember 2021.
 2. Atli Ísleifsson (1. desember 2021). „Verður fyrsta konan til að gegna em­bætti for­seta í Hondúras“. Vísir. Sótt 5. desember 2021.
 3. Ævar Örn Jósepsson (30. nóvember 2021). „Næsta öruggt að Castro verði næsti forseti Hondúras“. RÚV. Sótt 5. desember 2021.
 4. 4,0 4,1 „Xiomara Castro Sarmiento“. Proceso Digital. Afrit af upprunalegu geymt þann 9 nóvember 2013. Sótt 6. nóvember 2013.
 5. „Xiomara Castro: Gobierno fracasó en su política de seguridad“. El Tiempo. 13. október 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. nóvember 2013. Sótt 9. nóvember 2013. (spænska)
 6. 6,0 6,1 6,2 Alberto Arce (22. júní 2013). „Deposed Honduran Leader's Wife Leads in Polls“. Associated Press. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. nóvember 2013. Sótt 6. nóvember 2013.
 7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 Alberto Arce (16. júní 2013). „Xiomara Castro lanza candidatura en Honduras“. Nuevo Herald. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2013. Sótt 6. nóvember 2013. (spænska)
 8. „Abogados de derecha disputarán la presidencia a Xiomara Castro, la esposa de Mel Zelaya“. El Faro. 18. nóvember 2012. Sótt 6. nóvember 2013. (spænska)
 9. Noé Leiva (24. október 2013). „A un mes de las elecciones, la izquierdista Xiomara Castro encabeza las encuestas“. El Faro. Sótt 10. nóvember 2013. (spænska)
 10. „A un mes de las elecciones, JOH aventaja por cinco punto a Xiomara Castro“. La Prensa. 1. nóvember 2013. Sótt 10. nóvember 2013. (spænska)
 11. 11,0 11,1 Eric Sabo & Isabella Cota (31. október 2013). „Debut Honduran Bonds Rally as Polls Show Tighter Election“. Bloomberg News. Sótt 10. nóvember 2013.
 12. Ero Meyer (30. október 2013). „Election Update . . Chile, Honduras, and Venezuela“. TransAtlantic Magazine. Sótt 10. nóvember 2013.
 13. „TSE official results“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. desember 2013. Sótt 19. desember 2017.
 14. „Candidata opositora Xiomara Castro denuncia 'robo' de su triunfo en Honduras“ (spænska). La Nación. 28. nóvember 2013.
 15. „Xiomara Castro, una política decidida a cambiar a Honduras“ (spænska). El Heraldo. 7. mars 2017. Sótt 19. desember 2017.
 16. „Xiomara Castro gana las primaris de Libre y apunta a la alianza“ (spænska). El Heraldo. 12. mars 2017. Sótt 19. desember 2017.
 17. Karen N. Reyes (21. maí 2017). „Salvador Nasralla encabeza la alianza opositora“ (spænska). HRN. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. desember 2017. Sótt 19. desember 2017.
 18. Lopez, Oscar (28. nóvember 2021). „What's at Stake in the Honduran Presidential Election?“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 28. nóvember 2021.
 19. 'She's the only option': Hondurans hope Xiomara Castro can lead the nation in a new direction“. the Guardian (enska). 24. nóvember 2021. Sótt 28. nóvember 2021.
 20. „Last Minute Alliance Shifts Honduras Election Scene“. Havana Times. El Faro. 18. október 2021. Sótt 1. desember 2021.
 21. Palencia, Gustavo (26. nóvember 2021). „Honduran ruling party hopeful Asfura faces uphill climb“. Reuters (enska). Sótt 28. nóvember 2021.
 22. García, Jacobo (28. nóvember 2021). „Los modelos antagónicos de Xiomara Castro y Asfura se enfrentan en las urnas de Honduras“. El País (spænska). Sótt 28. nóvember 2021.
 23. O’Boyle, Brendan (14. október 2021). „Could Honduras Shift Left? A Look at Xiomara Castro“. Americas Quarterly (bandarísk enska). Sótt 2. desember 2021.
 24. „Honduras president-elect's China pledge puts Taiwan and US on edge“. the Guardian (enska). 1. desember 2021. Sótt 2. desember 2021.
 25. 25,0 25,1 „Xiomara Castro poised to become first female president of Honduras“. The Guardian (enska). 29. nóvember 2021. Sótt 29. nóvember 2021.
 26. „Honduras set for first female president as Castro holds wide lead“ (enska). Al Jazeera. Sótt 29. nóvember 2021.
 27. „Honduras' ruling party concedes presidential election to leftist“. Reuters. 30. nóvember 2021. Sótt 1. desember 2021.
 28. „Honduras elected its first female president, Xiomara Castro“. NBC News. 1. desember 2021. Sótt 2. desember 2021.
 29. „Opposition candidate Xiomara Castro elected Honduras' first female president“. UPI. 30. nóvember 2021. Sótt 1. desember 2021.


Fyrirrennari:
Juan Orlando Hernández
Forseti Hondúras
(27. janúar 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti