William Jennings Bryan
| William Jennings Bryan | |
|---|---|
William Jennings Bryan árið 1913. | |
| Utanríkisráðherra Bandaríkjanna | |
| Í embætti 5. mars 1913 – 9. júní 1915 | |
| Forseti | Woodrow Wilson |
| Forveri | Philander C. Knox |
| Eftirmaður | Robert Lansing |
| Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 1. kjördæmi Nebraska | |
| Í embætti 4. mars 1891 – 3. mars 1895 | |
| Forveri | William James Connell |
| Eftirmaður | Jesse Burr Strode |
| Persónulegar upplýsingar | |
| Fæddur | 19. mars 1860 Salem, Illinois, Bandaríkjunum |
| Látinn | 26. júlí 1925 (65 ára) Dayton, Tennessee, Bandaríkjunum |
| Þjóðerni | Bandarískur |
| Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
| Maki | Mary Baird Bryan (g. 1884) |
| Börn |
|
| Háskóli | Illinois College (BA) Union College of Law (LLB) |
| Atvinna | Lögfræðingur, stjórnmálamaður |
| Undirskrift | |
William Jennings Bryan (19. mars 1860 – 26. júlí 1925) var bandarískur lögmaður og stjórnmálamaður. Sem stjórnmálamaður var hann þekktur sem popúlisti, friðarsinni og frjálslyndissinni. Bryan var meðlimur í Demókrataflokknum og var þrisvar sinnum forsetaefni flokksins, árin 1896, 1900 og 1908. Hann sat á fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá 1891 til 1895 og var utanríkisráðherra Bandaríkjanna frá 1913 til 1915 í ríkisstjórn Woodrows Wilson forseta.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]William Jennings Bryan var sonur Silas Bryan, auðugs landeiganda og dómara í Illinois, og Mariah Bryan.[1] Eftir að Bryan lauk laganámi við Pritzker-lagadeild Northwestern-háskóla[2] hóf hann lögmannsstörf í Jacksonville í Illinois en flutti síðan til Lincoln í Nebraska.[3] Frá 1891 til 1895 átti hann sæti við fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Nebraska.[4]
Forsetaframboð
[breyta | breyta frumkóða]Demókrataflokkurinn valdi Bryan sem forsetaefni sitt í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 1896, þegar hann var aðeins 36 ára.[5] Hann hafði þá vakið athygli með „gullkrossræðu“ sinni á landsþingi flokksins, þar sem hann gagnrýndi gullfótinn og mælti með því að gengi Bandaríkjadalsins yrði bundið við fleiri en einn góðmálm. Bryan hlaut einnig stuðning Popúlistaflokksins í kosningunum. Umfjöllun flestra bandarískra fjölmiðla um Bryan var með neikvæðu móti og hann var gjarnan útmálaður sem öfgamaður.[6] Hann varð jafnframt fyrir árásum útlendingahatara.[7] William Jennings Bryan hafði verið andstæðingur síðasta forsetans úr röðum Demókrata, íhaldsmannsins Grovers Cleveland. Arthur Sewall var valinn sem varaforsetaefni í framboði Bryans. Frambjóðandi Repúblikana, William McKinley, sem naut stuðnings Marcusar Hanna og bandarískra fjármálaafla,[8] vann sigur í kosningunum með 51,03% atkvæða og 271 atkvæði í kjörmannaráðinu. Bryan hlaut 46,70% atkvæða og 176 kjörmannaatkvæði.
Bryan varð aftur frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 1900. Adlai Ewing Stevenson var valinn sem varaforsetaefni hans. Bryan tapaði aftur á móti McKinley, sem hlaut 51,64% atkvæða (og 155 kjörmannaatkvæði) en Bryan 45,52%.
Bryan bauð sig fram til forseta í þriðja sinn árið 1908 fyrir Demókrataflokkinn með John Worth Kern sem varaforsetaefni sitt. Hann hlaut aðeins 43,04 % atkvæða og 162 kjörmannaatkvæði gegn 51,57 % sem William Howard Taft hlaut.[9]
Áhrif í bandarískum stjórnmálum
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir að hafa ekki unnið neinar kosningar frá árinu 1892 naut William Jennings Bryan mikilla áhrifa innan Demókrataflokksins. Hann tilheyrði vinstri armi flokksins, sem var andsnúinn nýlendustefnu og heimsvaldastefnu.[10] Hann beitti sér meðal annars gegn stríði Bandaríkjanna á Filippseyjum.
Árið 1912 átti stuðningur Bryans drjúgan þátt í því að tryggja Woodrow Wilson tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar það ár. Þegar Wilson var kjörinn forseti skipaði hann Bryan utanríkisráðherra í stjórn sinni. Þeir Wilson voru sammála um að halda ekki áfram svokallaðri „mútustefnu“ („Dollar Diplomacy“) sem William Howard Taft hafði haldið í utanríkismálum. Þeir unnu saman að stefnumótun í innanríkismálum.[11][12] Bryan skrifaði undir Bryan-Chamorro-sáttmálann við Níkaragva.[13] Þrátt fyrir að Bryan væri almennt mótfallinn hernaðarinngripum erlendis tók hann þátt í inngripum Bandaríkjanna á Haítí, Dóminíska lýðveldinu og Mexíkó.[14]
Bryan háði baráttu sína í þágu smábænda fyrst og fremst í þágu hvíts fólks. Hann var haldinn sams konar fordómum gegn svörtum Bandaríkjamönnum og flestir hvítir stjórnmálamenn þessa tíma. Hann lét í ljósi viðhorf sín í ummælum um hernaðarinngrip Bandaríkjanna á Haítí árið 1916: „Hugsið ykkur – negrar sem tala frönsku!“. Bryan tókst heldur ekki að vinna sér stuðning í þéttbýli (til dæmis meðal iðnaðarverkamanna) og meðal innflytjenda, sem voru líkt og svart fólk hluti af kjósendahópnum sem tryggði Woodrow Wilson sigur í forsetakosningunum 1912.
Bryan, sem var ötull friðarsinni og andstæðingur heimsvaldastefnu, sagði af sér sem utanríkisráðherra þann 8. júní 1915 til að mótmæla inngöngu Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldina.[15]
Bryan flutti í kjölfarið til Flórída og tók þátt í starfi nokkurra kristinna bókstafstrúarsamtaka. Árið 1920 varð hann einn háværasti gagnrýnandi þróunarkenningarinnar og einn helsti stuðningsmaður áfengisbannsins. Hann mælti með því að stjórnarskrá Bandaríkjanna yrði breytt þannig að bannað yrði að kenna þróunarkenninguna í skólum. Nokkur ríki landsins settu slík bönn í kjölfar herferða Bryans.
Bryan lést þann 26. júlí 1925 í miðri baráttu sinni gegn kenningum Darwins. Stuttu áður hafði Bryan tekið þátt í saksókninni í svokölluðum „aparéttarhöldum“ gegn John Thomas Scopes, sem var ákærður fyrir að brjóta gegn lögum í Tennessee sem bönnuðu kennslu þróunarkenningarinnar. Scopes tapaði málinu og var dæmdur til að greiða táknræna sekt.
William Jennings Bryan var grafinn í kirkjugarðinum í Arlington.[16]
Árið 1924 var bróðir Bryans, Charles Wayland Bryan, þáverandi ríkisstjóri í Nebraska, varaforsetaefni Demókrataflokksins í framboði Johns W. Davis
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Michael Kazin (2006). A Godly Hero: The Life of William Jennings Bryan (enska). Knopf. ISBN 978-0-375-41135-9.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „William Jennings Bryan | Encyclopedia.com“. www.encyclopedia.com (bandarísk enska). Sótt 20. mars 2020.
- ↑ „Encyclopedia of the Great Plains | Bryan, William Jennings (1860-1925)“. plainshumanities.unl.edu (bandarísk enska). Sótt 20. mars 2020.
- ↑ „William Jennings Bryan | Biography, Cross of Gold, & Scopes Trial“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 20. mars 2020.
- ↑ „Bryan, William Jennings | International Encyclopedia of the First World War (WW1)“. encyclopedia.1914-1918-online.net. Sótt 20. mars 2020.
- ↑ Editors, History com. „William Jennings Bryan“. HISTORY (enska). Sótt 20. mars 2020.
- ↑ Frank, Thomas (1 ágúst 2020). „Les populistes américains contre le lobby des médecins“. Le Monde diplomatique (franska).
- ↑ Saintemarie, Martin (11 október 2020). „Le populisme sauvera-t-il les États-Unis ?“. Le Vent Se Lève (franska).
- ↑ Frank Browning; John Gerassi (2015). Histoire criminelle des États-Unis. Nouveau monde. bls. 302.
- ↑ Papke, David Ray. „William Jennings Bryan“. www.mtsu.edu (bandarísk enska). Sótt 20. mars 2020.
- ↑ Louis Balthazar (29 janúar 2015). „La politique étrangère des Etats-Unis“. Presses de Sciences Po: 147–186. doi:10.3917/scpo.david.2015.02.0147.
- ↑ Kazin et al. 2006, bls. 215-217.
- ↑ Kazin et al. 2006, bls. 222-227.
- ↑ „William Jennings Bryan - People - Department History - Office of the Historian“. history.state.gov (bandarísk enska). Sótt 20. mars 2020.
- ↑ Kazin et al. 2006, bls. 229-231.
- ↑ Kazin et al. 2006, bls. 237-238.
- ↑ „William Jennings Bryan“. Find a Grave (bandarísk enska).