Wikipedia:Grein mánaðarins/10, 2018

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Florence Nightingale (12. maí 1820–13. ágúst 1910), einnig þekkt sem „konan með lampann“, var bresk hjúkrunarkona, rithöfundur og tölfræðingur. Hún linaði þjáningar sjúkra og særðra hermanna í Krímstríðinu og hlaut sitt fræga viðurnefni „konan með lampann“ þá vegna venju sinnar að ganga á milli manna að næturlagi með lampa í hönd til að hjúkra þeim. Framlag hennar til heilbrigðismála markaði tímamót í sögunni. Hún jók virðingu hjúkrunarkvenna og kom á fót fullnægjandi menntunarkerfi fyrir þær. Hún stofnaði árið 1860 fyrsta eiginlega hjúkrunarskóla í heimi við St. Thomas-sjúkrahúsið í London. Hún kom þess að auki til leiðar að á sjúkrahúsum stórbatnaði allur aðbúnaður, skipulag þeirra varð skilvirkara og hreinlæti jókst til muna. Hún var brautryðjandi í nútíma hjúkrun og notkun tölfræðilegra aðferða við úrvinnslu gagna varðandi meðferð og bata sjúklinga. Það var fyrir hennar tilstuðlan að farið var að senda flokk hjúkrunarkvenna með Breska hernum í styrjaldir. Alþjóðlegi hjúkrunarfræðidagurinn er haldinn á afmælisdegi hennar ár hvert. Árið 2010 var Florence Nightingale minnst með alþjóðlegu ári og Sameinuðu þjóðirnar helguðu áratuginn 2011 til 2020 heilbrigði um allan heim.