Wikipedia:Grein mánaðarins/06, 2020
Kontraskæruliðar eða einfaldlega kontrar voru vopnuð andspyrnuhreyfing sem börðust gegn ríkisstjórn sandínista í Níkaragva á níunda og tíunda áratugnum með stuðningi Bandaríkjanna. Stuðningur Bandaríkjanna við hreyfinguna var ein af orsökum Íran-Kontrahneykslisins á forsetatíð Ronalds Reagan. Nafnið „kontra“ var stytting á la contrarrevolución, sem merkir „gagnbyltingin“.
Kontraskæruliðarnir voru stofnaðar með stuðningi einræðisstjórnar Jorge Rafael Videla í Argentínu og bandarísku leyniþjónustunnar. Kontrarnir háðu skæruhernað og gerðu árásir á ríkisstofnanir sandínista í Níkaragva, sér í lagi í norðurhluta landsins þar sem þeir gátu flúið yfir landamærin til Hondúras í bækistöðvar sínar. Kontrarnir gerðu sér ekki miklar vonir um að steypa af stóli stjórn sandínistanna en vonuðust til þess að koma af stað samfélagsóeirðum með því að vinna skemmdarverk á efnahags- og velferðarverkefnum stjórnarinnar. Kontraskæruliðar réðust meðal annars á skóla og heilbrigðisstofnanir, eyðilögðu uppskeru bænda og brenndu niður verksmiðjur.
Kontrahreyfingin varð til með samruna ýmissa andófshreyfinga eignarbænda og frumbyggja sem mótmæltu meðal annars samyrkjuvæðingu sandínistastjórnarinnar, vinahótum hennar við Sovétríkin og herskyldunni sem stjórnin kom á. Hreyfingarnar sameinuðust með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar í júní árið 1985 og töldu árið 1990 til sín um 13.800 til 22.400 meðlimi.