Wikipedia:Úrvalsgreinar/Mýraeldar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af brunasvæðinu.
Kort af brunasvæðinu.

Mýraeldar voru miklir sinueldar í Hraunhreppi í Borgarbyggð sem loguðu í þrjá daga vorið 2006. Að morgni 30. mars blossaði upp eldur í sinu sem fór um 75 km² landsvæði á Mýrum, en alls brunnu um 67 km² lands. Þetta voru nefndir „mestu sinueldabrunar Íslandssögunnar”.

Líklegt er talið að kviknað hafi í út frá vindlingi við þjóðveg 54 á móts við Bretavatn. Sinueldurinn barst mjög hratt, um 18 kílómetra á fyrstu sex klukkustundunum. Brennda svæðið var allt á milli þjóðvegar 54, 540 og 537, að undanskilinni einni tungu sem náði suður fyrir veg 537. Þegar mest var var eldveggurinn allt að tveggja metra hár og fór með tuga metra hraða á mínútu.

Sinueldarnir voru slökktir með gríðarlegu slökkvistarfi af hálfu íbúa svæðisins, brunavarna Borgarbyggðar, aðstoðarslökkviliðs frá nærliggjandi byggðarlögum og þyrlu frá Þyrluþjónustunni. Engar skemmdir urðu á mannvirkjum, að girðingum undanskildum en margir bæir voru mjög nálægt því að verða eldinum að bráð. Bærinn Hamrar var einungis örfáa metra frá eldinum á tímabili. Eldarnir höfðu gífurleg áhrif á lífríki svæðisins, en svæðið sem brann var eitt stærsta samfellda mýrlendi á landinu og er í raun nær lagi að tala um náttúruhamfarir en venjulegan sinubruna. Engin meiðsl urðu þó á fólki.

Lesa áfram um Mýraelda...