Vopnadómur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vopnadómur Magnúsar prúða, sýslumanns var dómur sem hann lét ganga 12. október 1581 á héraðsþingi í Tungu (í Patreksfirði í núverandi Barðastrandarsýslu) um það að allir bændur ættu að vera skyldir til að eiga vopn til að geta varið landið. Í vopnadómi er minnst á að sýslumenn hafi látið safna vopnum og brjóta fimm árum áður, en engar aðrar heimildir finnast um slíkt vopnabrot sem ýmsir hafa dregið í efa að hafi átt sér stað. Árið 1579 rændu sjóræningjar Eggerti Hannessyni, tengdaföður Magnúsar, á Bæ á Rauðasandi. Skýrsla Eggerts til konungs um ránið leiddi til þess að árið eftir sendi konungur vopn í hverja sýslu landsins: átta spjót og sex byssur. Þetta leiddi þó ekki til aukins vopnaburðar meðal Íslendinga nema hugsanlega tímabundið á Vestfjörðum. Talið er að vopnaeign hafi verið að mestu aflögð annars staðar á landinu um aldamótin 1600. Vopnaburður og vopnaeign Vestfirðinga kom síðar við sögu í Spánverjavígunum 1615, en fyrir þeim stóð Ari Magnússon sýslumaður í Ögri, sonur Magnúsar prúða.

Vopnadómur er til prentaður í Alþingisbókum Íslands, I. bindi.

Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist