Vitus Bering

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vitus Pedersen Bering (1617-1675), frændi heimskautakönnuðarins. Í mörg ár hafði það verið haldið að þessi mynd væri af Vitus Jonassen Bering (1681-1741), og er sá miskilningur enn sjáanlegur í dag.
Gervihnattamynd af Beringssundi. Síbería til vinstri, Alaska til hægri, Diomedeseyjar á miðju sundi

Vitus Jonassen Bering (rúsneska: Иван Иванович Беринг, ágúst 1681 - 19. desember 1741) var danskur heimskautakönnuður, fæddur og uppalinn í Horsens á Jótlandi.

Hann réðst til starfa í flota Péturs mikla Rússakeisara árið 1703 og var í þjónustu hans til æviloka. 1710 til 1712 var hann í Azovshafsflotanum og barðist í stríði Rússa og Tyrkja. Hann giftist rússneskri konu og varð skipstjóri og leiðangursstjóri í könnunarleiðöngrum í Norður-Íshafinu. Félagar hans í rússneska sjóhernum og rannsóknarleiðöngrunum þekktu hann undir nafninu Ivan Ivanovich. Fyrsti leiðangur hans hófst árið 1725. Þá var viðfangsefnið það að finna út hvort Síbería væri landföst við Alaska.

Árið 1728 staðfesti þessi leiðangur að á milli meginlandanna væri sund og hlaut það síðar nafn hans og var nefnt Beringssund.

Árið 1737 fór hann í annan könnunarleiðangur á sömu slóðir til þess að kortleggja landið nánar. Leiðangurinn var á leið til baka frá Alaska árið 1741, þegar vistaskortur tók að hrjá þá og dóu nokkrir menn úr skyrbjúgi (að því er talið var) og þar á meðal Bering.

Í ágúst árið 1991 fann dansk-rússneskur leiðangur gröf Berings og fimm annarra leiðangursmanna og voru þeir grafnir upp og fluttir til Moskvu. Þar tókst réttarlæknum að ráða í útlit Berings í lifanda lífi. Ennfremur kom í ljós, að tennur hans báru engin merki um skyrbjúg og virðist því dánarorsökin hafa verið önnur en hingað til hefur verið talið.

Árið 1992 voru lík Berings og hinna fimm grafin öðru sinni á Beringseyju.

Langur tími leið áður en mönnum varð fullljóst gildi rannsókna hans. Cook skipstjóri (Captain Cook) leiddi í ljós hversu nákvæmur athugandi Bering hafði verið. Nú bera nafn hans Beringssund, Beringseyja (þar sem hann dó og er jarðsettur), Beringshaf og Berings landbrúin.

Vitus Jonassen Bering var einnig skyldur latínuskáldinu honum Vitus Pedersen Bering (1617-1675), og hefur myndir af þeim verið ruglað saman gegnum áratíðinar.