Vindkæling

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Graf sem sýnir vindkælingarstuðull, það er skynjaðann hitamun við 0 ° C eftir vindhraða.
Vindkælingarstuðull: Skynjaður hitamunur við 0 ° C eftir vindhraða.

Vindkæling er lækkun líkamshita vegna flæðis lægra lofthita. Hún er mælikvarði á hitatap húðar vegna hitabreytinga lofts, það er hversu kaldara manni finnst loft verða í vindi. Tölur fyrir vindkælingu er alltaf lægri en lofthiti.

Sem dæmi er lofthiti 10 °C í logni þar sem hvessir skyndilega upp í 15 metra/sekúndu veldur vindkæling þeim áhrifum sem samsvara því að lofthiti lækki um helming. Þessi tilfinning fyrir kulda eykst eftir því sem kaldara verður. Ef hitastigið -10 °C og vindur 15 metra/sekúndu samsvara vindkæling því að hitastigið sé komið niður í -22 °C. [1] Við hitastig -25 °C í rólegu lofti myndi vindkæling vera jöfn eða nálæg raunverulegum lofthita. Við þær aðstæður frysi húðin á 30 mínútum. Við -25 °C og 40 km vindhraða á klukkustund, væri hitastig vindkælingar komið í −41 °C og húðin frysi á innan við 10 mínútum.[2]

Mynd sem sýnir Vindkælistig á hitakvarðanum selsíus og hættu á frostbiti og kali
Vindkælistig á selsíus hitakvarðanum og þá hættu sem kann að vera á kali.

Áhrif vindkælingar á líkamann[breyta | breyta frumkóða]

Tölur lesnar af hitamæli segja því ekki alla söguna um það hversu mikið varmatap líkamans verður hjá þeim sem eru á ferðinni úti. Kuldi, sem er hættulítill í hægum vindi, getur orðið lífshættulegur sé jafnframt hvasst.[3] Til að koma í veg fyrir kælingu hitar líkaminn upp þunnt einangrandi loftlag næst líkamanum. Í blæstri rofnar þetta einangrandi lag og líkaminn bregst við með því að reyna að gefa frá sér varma. Því meiri vindur, þeim mun erfiðara er fyrir líkamann að vernda þetta lag og hann eyðir varma til að í að reyna að viðhalda því. [4]

Viðbrögð við kulda eru ólík eftir aldri, líkamsástandi og sjúkdómum. Í líkamanum stýrir undirstúka heilans viðbrögðum við hitabreytingum svo halda megi helstu líffærum gangandi. Kuldi veldur samdrætti háræða í efstu lögum húðar það hægir á efnaskiptum. Þá tekur líkaminn að skjálfa. Innöndun kalds lofts getur einnig valdið samdrætti í lungnaberkjum. Við það dragast vöðvar í útlimum og háræðar í húð saman sem dregur úr blóðflæði til útlima og blóð rennur þess í stað til innri líffæra og hækkar blóðþrýsting.[5]

Mjög mikill kuldi getur valdið ofkælingu sem miðast við að líkamshiti falli niður fyrir 35°C. Hún hefur mikil áhrif á hjarta- og æðakerfi, öndunarfærakerfi, taugakerfi, þvagfærakerfi og fleiri kerfi. Við ofkælingu reyna vöðvar að auka varmamyndun með stöðugri virkni sem kallar fram hroll og skjálfta. Lægri líkamshiti veldur aukinni súrefnisþörf svo öndunartíðni eykst. Fari líkamshiti fer niður fyrir 24 °C stöðvast öndun. Við ofkælingu eru hjartsláttartruflanir algengar og dreifing súrefnis er skert. Þar sem súrefnisþörf hefur þegar aukist ofkælingu getur þetta ástand verið banvænt.[6]

Kælingarstuðull og áhrif á líkamann[breyta | breyta frumkóða]

Meðfylgjandi tafla gefur grófa mynd kælingarstuðuls og áhrif þess á líkamann:[7]

Kælingarstuðull Áhrif á líkamann
0 °C til - 20 °C lítil hætta á kali
-20 °C til -40 °C möguleiki á dálitlu kali innan 30 mínútna
-40 °C til -60 °C kal innan 10 mínútna
-60 °C og neðar mikil hætta á kali innan 5 mínútna

Tafla: Ólík hitastig vindkælingar og vindhraði[breyta | breyta frumkóða]

Meðfylgjandi tafla[8] sýnir ólík hitastig vindkælingar, annars vegar með vindhraða mældum í kílómetrum á klukkustund og lofthita mældum á hitakvarðanum selsíus:

Hitastig vindkælingar
Vindhraði Lofthiti
0 km/klst 10 °C 5 °C 0 °C −5 °C −10 °C −15 °C −20 °C −30 °C −40 °C −50 °C
5 km/klst 9,8 4,1 −1,6 −7,3 −12,9 −18,6 −24,3 −35,6 −47,0 −58,3
10 km/klst 8,6 2,7 −3,3 −9,3 −15,3 −21,2 −27,2 −39,2 −51,1 −63,0
15 km/klst 7,9 1,7 −4,4 −10,6 −16,7 −22,9 −29,1 −41,4 −53.7 −66,1
20 km/klst 7,4 1,1 −5,2 −11,6 −17,9 −24,2 −30,5 −43,1 −55,7 −68,3
25 km/klst 6,9 0,5 −5,9 −12,3 −18,8 −25,2 −31,6 −44,5 −57,3 −70,2
30 km/klst 6,6 0,1 −6,5 −13,0 −19,5 −26,0 −32,6 −45,6 −58,7 −71,7
40 km/klst 6,0 −0,7 −7,4 −14,1 −20,8 −27,4 −34,1 −47,5 −60,9 −74,2
50 km/klst 5,5 −1,3 −8,1 −15,0 −21,8 −28,6 −35,4 −49,0 −62,7 −76,3
60 km/klst 5,1 −1,8 −8,8 −15,7 −22,6 −29,5 −36,5 −50,3 −64,2 −78,0
Athugið: Sá hluti töflunnar sem er dökkblár sýnir að líkindi eru á að viðkomandi frysi til dauða innan 30 mínútna eða minna. Hætta er á frostbiti eða kali þegar hitastig húðarinnar nær -4,8 ° C, en undir því kemur frostbit hjá um 5 prósentum fólks.

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Francois Fortin; (Unnur Ólafsdóttir þýddi); og fleiri (2006). Veður og umhverfi. Mál og menning / Edda útgáfa hf. bls. 62-63.
  2. Britannica, The Editors of Encyclopaedia. "Wind chill". Encyclopedia Britannica, 25 Nov. 2019. Sótt 22. janúar 2021.
  3. Veðurstofa Íslands. „Hversu mikil er vindkælingin í miklu frosti og roki?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2011. Sótt 22. janúar 2021.
  4. Francois Fortin; (Unnur Ólafsdóttir þýddi); og fleiri (2006). Veður og umhverfi. Mál og menning / Edda útgáfa hf. bls. 62-63.
  5. Þórdís Kristinsdóttir. „Er það satt að maður veikist frekar í kulda en þegar heitt er?“ Vísindavefurinn, 16. júní 2011. Sótt 22. janúar 2021.
  6. Þórdís Kristinsdóttir. „Er það satt að maður veikist frekar í kulda en þegar heitt er?“ Vísindavefurinn, 16. júní 2011. Sótt 22. janúar 2021.
  7. Francois Fortin; (Unnur Ólafsdóttir þýddi); og fleiri (2006). Veður og umhverfi. Mál og menning / Edda útgáfa hf. bls. 62-63.
  8. „Windchill“, Wikipedia (þýska), 5. júlí 2020

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]