Vinaskógur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vinaskógur er skógarlundur í landi Kárastaða í Þingvallasveit, skammt frá Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Til Vinaskógar var stofnað í kjölfar átaks í landgræðslu árið 1989. Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands var verndari átaksins og átti jafnframt hugmyndina að Vinaskógi. Að ósk Vigdísar var skóginum fundinn staður þar sem erlendir þjóðhöfðingjar sem heimsækja Ísland gætu komið og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar og var staðsetning Vinaskógar valin með tillitil til þess að hinir erlendu gestir gætu komið þar við á leið sinni til Þingvalla en heimsókn þangað er fastur liður í opinberum heimsóknum erlendra þjóðhöfðingja til Íslands.[1]

Fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn sem gróðursetti í Vinaskógi var Elísabet II Bretadrottning, þann 26. júlí 1990.[2] Í kjölfarið hefur fjöldi erlendra þjóðhöfðingja gróðursett í Vinaskógi, t.d. allir þjóðhöfðingjar Norðurlanda á Lýðveldishátíðinni árið 1994. Einnig hafa ýmsir aðrir þekktir einstaklingar gróðursett í Vinaskógi og má þar nefna Yoko Ono árið 1991.[3]

Ilmbirki og reyniviður eru einu trjátegundirnar sem gróðursettar hafa verið í Vinaskógi en aðrar tegundir hafa breiðst þar út af sjálfsdáðum.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Skogargatt.is, „Vinaskógur“ Geymt 27 júlí 2019 í Wayback Machine (skoðað 27. júlí 2019)
  2. „Ný aðstaða og aðkoma opnuð í Vinaskógi“, Morgunblaðið 16. ágúst 2004 (skoðað 27. júlí 2019)
  3. „Mikill fjöldi viðstaddur opnun sýningar á verkum Yoko Ono“ Morgunblaðið 30. apríl 1991 (skoðað 27. júlí 2019)