Victoria Woodhull

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Victoria Woodhull
Fædd23. september 1838
Dáin9. júní 1927 (88 ára)
StörfVerðbréfasali, stjórnmálamaður
FlokkurJafnréttisflokkurinn
TrúSpíritismi
MakiCanning Woodhull (g. 1853; skilin 18??)
James Blood ofursti (g. 1865; skilin 1876)
John Biddulph Martin (g. 1883; d. 1901)
BörnByron Woodhull
Zula Maude Woodhull
ForeldrarReuben Buckman Claflin & Roxanna Hummel Claflin
Undirskrift

Victoria Claflin Woodhull, síðar þekkt undir nafninu Victoria Woodhull Martin (23. september 1838 – 9. júní 1927) var bandarískur verðbréfasali, stjórnmálamaður og leiðtogi í baráttu kvenna fyrir kosningarétti. Árið 1872 bauð hún sig fram til forseta Bandaríkjanna fyrir Jafnréttisflokkinn. Hún var fyrsta konan sem bauð sig fram í bandarískum forsetakosningum. Lögmæti framboðs hennar hefur þó verið dregið í efa þar sem Woodhull var undir 35 ára aldurstakmarki sem sett er á frambjóðendur á forsetastól í Bandaríkjunum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Victoria Woodhull fæddist undir nafninu Victoria California Claflin í Ohio árið 1838. Faðir hennar, Reuben, var atvinnusvindlari sem hafði fyrir sér með því að þykjast vera læknir og lögfræðingur, og síðar með því að selja hrekklausum Bandaríkjamönnum snákaolíu og önnur kynjalyf. Reuben beitti börn sín ítrekað ofbeldi og því leituðu þau skjóls hjá móður sinni, Roxönnu, sem var forfallinn spíritisti og innrætti spíritistatrú hjá börnum sínum. Victoria sagðist sjálf fá sýnir að handan og geta talað við engla. Ásamt systur sinni, Tennessee Claflin, vakti hún snemma athygli sem miðill í fjölleikahúsum.[1]

Árið 1853 giftist Victoria, þá fimmtán ára gömul, heimilislækni fjölskyldunnar, Canning Woodhull. Hjónaband þeirra var ekki farsælt þar sem Canning var drykkjumaður og fjárhættuspilari sem hélt ítrekað fram hjá Victoriu. Hjónin eignuðust tvö börn en eftir að hið seinna fæddist skildi Victoria við mann sinn og hélt eftir ættarnafni hans.[2] Victoria fór að vinna sem miðill og sjáandi í Indiana, þar sem hún kynntist James Blood, ofursta sem barist hafði í þrælastríðinu og var formaður spíritistasambands St. Louis-borgar. Victoria giftist Blood árið 1865 og flutti með honum og systur sinni, Tennessee, til New York-borgar.

Í New York komust Victoria og Tennessee í kynni við skipa- og járnbrautajöfurinn Cornelius Vanderbilt, einn af auðugustu mönnum Bandaríkjanna á þeim tíma. Vanderbilt var áhugamaður um andatrú og sótti því gjarnan miðilsfundi undir stjórn systranna þar sem hann hlaut margar ráðleggingar um fjármál sem reyndust honum afar arðbærar. Af þakklæti sínu gaf Vanderbilt systrunum styrk til þess að stofna eigið verðbréfafyrirtæki á Wall Street, sem þær gerðu árið 1870 undir nafninu Woodhull, Claflin & Company. Systurnar voru fyrstu konurnar sem unnu við verðbréfasölu í Bandaríkjunum og því vakti stofnun fyrirtækisins mikla athygli. Woodhull og Claflin högnuðust verulega á verðbréfaviðskiptunum.

Stjórnmálaferill og kosningarnar 1872[breyta | breyta frumkóða]

Skopmynd af Victoriu Woodhull (sem „frú Satan“) að boða hugmyndir sínar um frjálsar ástir.

Með nýfengnum auði sínum fór Woodhull að láta bera á sér í bandarískri stjórnmála- og samfélagsumræðu. Þær systurnar stofnuðu vikuritið Woodhull & Claflin's Weekly árið 1870 og fjölluðu þar um ýmsar róttækar stjórnmálahugsjónir sínar, meðal annars kosningarétt kvenna, spíritisma, grænmetisát og ástarfrelsi.[3] Í vikuritinu birtist Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx og Friedrich Engels í fyrsta sinn í enskri þýðingu árið 1871.[4] Woodhull hafði áður gengið til liðs við Bandaríkjadeild Alþjóðasamtaka verkalýðsins og þar komist í kynni við kenningar Marx.

Í riti og verki var Woodhull ötull talsmaður frjálsra ásta; réttar kvenna til þess að ráða sjálfar sínum ástarmálum og eiga eins marga elskhuga og þeim sýndist. Henni blöskraði hve takmörkuð réttindi giftra kvenna voru gagnvart eiginmönnum sínum og gagnrýndi ítrekað tvískinnung samfélagsins þar sem gjarnan var litið fram hjá framhjáhaldi og frillulíferni karla á sama tíma og ætlast var til þess að konur héldu eilífa tryggð við eiginmenn sína. Í vikuriti sínu birti hún meðal annars árið 1872 forsíðufrétt um framhjáhald prestsins og þrælahaldsandstæðingsins Henry Ward Beechers með eiginkonu aðstoðarmanns síns til að sýna fram á þennan tvískinnung. Beecher hafði áður gagnrýnt hugmyndir Woodhull um frjálsar ástir og með því að sýna fram hjá að hann hefði sjálfur ekki haldið trúnað við konu sína vildi Woodhull sýna fram á hræsni hans.

Beecher brást illa við fréttinni um framhjáhald sitt. Woodhull var í kjölfarið handtekin ásamt eiginmanni sínum og systur fyrir að hafa birt klámfengið efni og sat því í fangelsi á kjördag árið 1872.[5]

Woodhull hafði fyrr um árið verið útnefnd sem forsetaframbjóðandi hins nýstofnaða Jafnréttisflokks (enska: Equal Rights Party) í kosningunum sem haldnar voru þann 5. nóvember 1872. Stefnumál hennar í kosningunum voru mjög róttæk á mælikvarða þess tíma. Meðal annars kallaði hún á eftir nýrri stjórnarskrá, afnámi dauðarefsinga, kosningarétti fyrir alla óháð kyni og kynþætti, þjóðnýtingu á vatnsbirgðum Bandaríkjanna og tryggingu á menntun og atvinnu fyrir alla. Woodhull útnefndi fyrrum þrælinn og þrælahaldsandstæðinginn Frederick Douglass sem varaforsetaefni sitt í kosningunum. Douglass hafði þó ekki sjálfur gefið kost á sér sem varaforseti í framboði hennar og tók því engan þátt í kosningabaráttu Woodhull.[6]

Woodhull fékk enga kjörmenn í kjörmannaráðinu sem velur forsetann en ekki er vitað hve mörg atkvæði hún fékk á landsvísu. Henni var sleppt úr fangelsi stuttu eftir kosningarnar þar sem ekki var hægt að sýna fram á að efnið sem hún hefði dreift væri klámfengið.

Síðari ár[breyta | breyta frumkóða]

Woodhull skildi við eiginmann sinn, Blood ofursta, í október árið 1876. Eftir að Cornelius Vanderbilt lést árið 1877 bauð sonur hans, William Henry Vanderbilt, Victoriu og Tennessee 1.000 dollara greiðslu (andvirði tæpra þriggja milljóna íslenskra króna í dag) í skiptum fyrir að þær flyttust burt frá Bandaríkjunum. Vanderbilt óttaðist að annars myndu þær bera vitni gegn honum í réttarhöldum um skiptingu á eignum föður hans. Systurnar féllust á tilboð hans og fluttust því til Bretlands í ágúst árið 1877.[7] Í Bretlandi giftist Victoria Woodhull bankamanninum John Biddulph Martin árið 1881 og hjónaband þeirra stóð þar til Martin lést árið 1901. Woodhull hélt áfram að halda fyrirlestra og skrifa í dagblöð í Bretlandi en vakti aldrei eins mikla athygli og hún hafði gert í Bandaríkjunum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Vera Illugadóttir. „Victoria Woodhull“. RÚV. Sótt 5. febrúar 2019.
Tilvísanir
  1. „Frú Satan“. Dagblaðið Vísir. 27. apríl 2004. Sótt 5. febrúar 2019.
  2. Johnson, Gerald W. (júní 1956). "Dynamic Victoria Woodhull". American Heritage. 7 (4).
  3. „Woodhull and Claflin's Weekly Journal - Victoria Woodhull and Tennie C. Claflin - Google Arts & Culture“ (enska). Google Cultural Institute. Sótt 5. febrúar 2019.
  4. „Woodhull & Claflin's Weekly“ (PDF). 30. desember 1871. Sótt 5. febrúar 2019.
  5. „Arrest of Victoria Woodhull, Tennie C. Claflin and Col. Blood. They are Charged with Publishing an Obscene Newspaper“. New York Times. 3. nóvember 1872. Sótt 5. febrúar 2019. „The agent of the Society for the Suppression of Obscene Literature, yesterday morning, appeared before United States Commissioner Osborn and asked for a warrant for the arrest of Mrs. Victoria C. Woodhull and Miss Tennie ...“
  6. Trotman, C. James (2011). Frederick Douglass: A Biography. Penguin Books. bls. 118–119.
  7. K. Havelin (2006). Victoria Woodhull: Fearless Feminist. Twenty-First Century Books. bls. 81.