Vestdalseyri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Vestdalseyri er eyri við ós Vestdalsár í Seyðisfirði. Þar var lítið sjávarpláss og þorp í rúma öld, eða frá 1851-1963. Í upphafi var þar rekin verslun og hvalstöð. Gránufélagið reisti þar stórt verslunarhús og bryggju og þar voru aðalstöðvar þess á Austurlandi. Sóknarkirkja Seyðfirðinga var á Vestdalseyri á árunum 1882-1922 en var þá flutt á núverandi stað inn á Fjarðaröldu. Um aldamótin 1900 var íbúafjöldi á Vestdalseyri um 180 manns.

Þekktir Vestdalseyringar eru m.a. Vilmundur Jónsson landlæknir, Karl Dunganon hertogi af St. Kilda og Vilborg Dagbjartsdóttir skáld.

Á stríðsárunum hreiðraði setulið um sig á Vestdalseyri og víðar um Seyðisförð en þá var farið að halla undan fæti fyrir byggðarlaginu. Samfélagið á Vestdalseyri átti löngum undir högg að sækja gagnvart Seyðisfjarðarkaupstað og svo fór að lokum að byggðin lagðist af þótt bæjarstæðið væri bæði gott og fallegt og sólríkara en flestir aðrir staðir við fjörðinn. Allmiklar byggðarleifar sjást enn á Vestdalseyri.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.