Fara í innihald

Verkamannaflokkurinn (Noregur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Verkamannaflokkurinn
Arbeiderpartiet
Leiðtogi Jonas Gahr Støre
Varaleiðtogi Hadia Tajik
Ritari Kjersti Stenseng
Stofnár 1887; fyrir 137 árum (1887)
Höfuðstöðvar Youngstorget 2 A, Ósló
Félagatal 50.067 (2019)[1]
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Jafnaðarstefna
Einkennislitur Rauður  
Sæti á stórþinginu
Vefsíða www.arbeiderpartiet.no

Verkamannaflokkurinn (norska: Arbeiderpartiet; nýnorska: Arbeidarpartiet) er norskur stjórnmálaflokkur sem aðhyllist jafnaðarstefnu. Leiðtogi flokksins er Jonas Gahr Støre. Flokkurinn var stofnaður árið 1887 og hefur verið leiðandi í norskum stjórnmálum frá þriðja áratugi 20. aldar. Flokkurinn hefur setið í ríkisstjórn Noregs frá árinu 2021.

Verkamannaflokkurinn er aðili að Flokki evrópskra sósíalista og átti aðild að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna frá 1951 til 2016.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Norski Verkamannaflokkurinn var stofnaður árið 1887 og bauð í fyrsta sinn fram á þing í kosningum árið 1894. Þá fékk flokkurinn enga kjörna þingmenn. Flokkurinn komst fyrst á þing árið 1903 og bætti við sig fylgi í öllum kosningum til ársins 1927 og varð þá stærsti flokkurinn á norska þinginu. Flokkurinn hefur viðhaldið þeirri stöðu í öllum kosningum upp frá því og hefur stundum haft hreinan meirihluta á þinginu.

Árið 1919 gekk flokkurinn til liðs við Alþjóðasamtök kommúnista. Þetta leiddi tveimur árum síðar til þess að Sósíaldemókratíski verkamannaflokkurinn klauf sig úr Verkamannaflokknum í mótmælaskyni. Árið 1927 sagði Verkamannaflokkurinn sig úr Alþjóðasamtökunum og flokkarnir tveir sameinuðust á ný. Kommúnistar höfðu stofnað Norska kommúnistaflokkinn árið 1923 og að mestu yfirgefið Verkamannaflokkinn.

Verkamenn stofnuðu fyrstu ríkisstjórn sína, undir forsæti Christophers Hornsrud, árið 1928 en sú stjórn entist aðeins í tvær vikur. Á fjórða áratugnum lét Verkamannaflokkurinn af byltingarstefnu sinni og fór þess í stað að aðhyllast umbótastefnu. Flokkurinn komst aftur í stjórn árið 1935 og sat við stjórn Noregs samfellt til ársins 1965 (að undanskyldum hernámsárum nasista frá 1940 til 1945). Eftir seinni heimsstyrjöldina leiddi Einar Gerhardsen flokkinn og landið í 17 ár. Þetta tímabil er talið gullöld norska Verkamannaflokksins.

Flokkurinn sat aftur við stjórn Noregs frá 1971 til 1972, 1973 til 1981, 1986 til 1989, 1990 til 1997 og frá 2000 til 2001. Í þingkosningum ársins 2001 hlaut flokkurinn 24,3 % atkvæða og 43 þingsæti af 165. Verkamenn komust ekki að samkomulagi við aðra flokka um stjórnarmyndun og gengu því í stjórnarandstöðu.

Flokkurinn hlaut 32,7 % atkvæða og 61 þingsæti í kosningum árið 2005 og myndaði nýja stjórn. Þann 22. júlí árið 2011 var gerð hryðjuverkaárás á sumardvalarstað ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins á Útey. Í árásinni voru 69 manns drepnir.

Í þingkosningum ársins 2013 hlaut flokkurinn 30,8 % atkvæða og 55 sæti og var áfram stærsti flokkur á þinginu en bandalag norskra hægriflokka náði samanlagt fleiri þingsætum og myndaði nýja minnihlutastjórn undir forsæti Ernu Solberg.

Verkamannaflokkurinn og norska vinstriblokkin unnu afgerandi meirihluta í þingkosningum ársins 2021[2] og flokkurinn myndaði í kjölfarið minnihlutastjórn ásamt norska Miðflokknum með Jonas Gahr Støre sem forsætisráðherra.[3] Flokkurinn hefur tapað miklu fylgi frá því að Støre varð forsætisráðherra. Í sveitastjórnarkosningum árið 2023 lenti Verkamannaflokkurinn í öðru sæti og var þetta í fyrsta skipti í tæpa öld sem flokkurinn hlaut ekki flest atkvæði.[4]

Afstaða til Evrópusambandsins[breyta | breyta frumkóða]

Í þjóðaratkvæðagreiðslunum árin 1972 og 1994 um aðild Noregs að Efnahagsbandalagi Evrópu og síðar Evrópusambandinu voru flestir talsmenn Verkamannaflokksins hlynntir aðild. Sósíalíski vinstriflokkurinn varð til úr klofningi EB-andstæðinga úr Verkamannaflokknum árið 1973.

Stefnumál[breyta | breyta frumkóða]

Flokkurinn samþykkti síðustu stefnuskrá sína á landsþingi sínu árið 2017. Í inngangi stefnuskrár flokksins frá 2005 til 2009 er áherslum flokksins lýst á eftirfarandi hátt:

„Norski Verkamannaflokkurinn vill skapa réttlátt samfélag þar sem öllum sameiginlegum grunnreglum mannkynsins er fylgt. Við berjumst fyrir gildum á borð við frelsi, jafnfrétti og samheldni. Við viljum sjá heim án stríðs og fátæktar, þar sem frjálsir og jafnir menn geta stýrt eigin lífskjörum, þar sem manneskjur lifa í sátt og samlyndi við náttúruna, þar sem barist er gegn kapítalísku arðráni. Verkamannaflokkurinn vill þróa landið okkar sem lýðræðissamfélag og við störfum með þeim sem berjast í þágu lýðræðis og mannréttinda í öðrum heimshlutum. Verkamannaflokkurinn vill efla umbyrðarlyndi og fjölbreytni og berjast gegn hvers kyns mismunun. Við viljum byggja á tengslum vinnu og fjármagns og þróa vilja þjóðarinnar samkvæmt grunnhugsjónum okkar í tengslum við völd og samfélagsábyrgð. Verkamannaflokkurinn mun reyna að ná fram markmiðum sínum með lýðræðislegum kosningum. Jafnaðarstefna okkar verður okkur að leiðarljósi í stjórnmálum.“[5]

Tengsl við Norska alþýðusambandið[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðstöðvar Verkamannaflokksins við Youngstorget, beint við hliðina á höfuðstöðvum Alþýðusambandsins

Norska alþýðusambandið (n. Landsorganisasjonen i Norge eða LO) er stærsta samband stéttarfélaga á Norðurlöndum og Noregsdeild þess telur til sín um 83.0000 meðlimi. Fram að aldamótum tengdist Alþýðusambandið Verkamannaflokknum með gagnkvæmu styrkjakerfi sem ekki er lengur við lýði í dag. Enn eru þó sterk tengsl á milli stofnananna tveggja sem felast meðal annars í því að Alþýðusambandið á fastafulltrúa í stjórn flokksins og veitir flokknum rausnarlega fjárstyrki. Þetta samband hefur haft sterk áhrif á kosningaúrslit og Verkamannaflokkurinn á sjaldan miklu fylgi að fagna nema með því að halda góðum samskiptum við LO.

Leiðtogar Verkamannaflokksins[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Rødt har klart størst økning av nye medlemmer siden den borgerlige regjeringen tok over“. FriFagbevegelse. 27. janúar 2020. Sótt 21. ágúst 2020.
  2. Ingvar Þór Björnsson (13. september 2021). „Vinstriblokkin hafði betur í Noregi“. RÚV. Sótt 13. september 2021.
  3. Arnhildur Hálfdánardóttir (14. október 2021). „Minnihlutastjórn sem getur ekki valið leikfélaga“. RÚV. Sótt 14. október 2021.
  4. „Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi“. Varðberg. 12. september 2023. Sótt 20. október 2023.
  5. „Ny solidaritet: Arbeiderpartiets program 2005 – 2009“. Verkamannaflokkurinn. 10. apríl 2005. Sótt 21. ágúst 2020.