Fara í innihald

Verbúðirnar við Grandagarð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Verbúðirnar við Grandagarð er samfelld röð skýla meðfram götunni Grandagarði í Reykjavík. Skýlin voru byggð með traustri norðvesturhlið til þess að verða varnarveggur eða brimbrjótur ef sjór gekk yfir Grandagarð. Skýlunum var ætlað að geyma það sem tengdist útgerð og hafnarstarfsemi og voru stórar dyr á þeim til að hægt væri að koma inn stórum nótabátum. Leyfi fékkst fyrir byggingu verbúðanna í júlí 1945 og árið 1949 var búið að taka í notkun 22 verbúðir. Seinna var verbúðaröðin lengd um 20 verbúðir og var hún fullbyggð um 1960 og myndaði þá óslitna röð eftir Grandagarði. Röðin var síðar rofin og verbúðir rifnar á tveimur stöðum vegna umferðartenginga. Lóð verbúðanna skiptist nú í tvennt Grandagarð 15-39 og Grandagarð 41-99. Milli lóðanna liggur gatan Grunnslóð.