Verðlagsbylting 16. aldar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Verðlagsbylting 16. aldar, stundum kölluð verðlagsbyltingin (e: The Price Revolution) er tímabil mikillar verðbólgu sem gekk yfir Evrópu frá seinni hluta 15. aldar fram til fyrri hluta 17 aldar. Á þessum árum hækkaði verðlag um eitt til tvö prósentustig ár hvert, sem leiddi til mikilla verðhækkana yfir lengra tímabil. Breytingin var enn áþreifanlegri vegna þess að verðlag hafði haldist stöðugt á miðöldum. Verðbyltingin gerði fyrst vart við sig á Spáni en áhrifin voru fljót að dreifast um alla Vestur-Evrópu og á 150 árum sexfölduðust verð.

Þetta langa tímabil verðlagshækkana skapaði efnahagslega óvissu og kynti undir trúarlegum, félagslegum og pólítískum átökum sem mögnuðust í Evrópu á 16 öldinni.[1]

Ástæður[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að aukið flæði góðmálma til Evrópu hafi verið helsta ástæða verðbólgunnar, en spænsk skip fluttu gull og silfur í miklu magni frá nýlendum sínum inn á meginlandið. Nýstárlegar aðferðir við náumgröft og málmvinnslu litu einnig dagsins ljós, svo að skortur góðmálma í Evrópskum námum heyrði jafnframt sögunni til. Með auknu umfangi málma ár eftir ár keyrðu Spánverjar og samferðamenn þeirra upp þennslu í hagkerfinu og smátt og smátt minnkaði virði peninga í Evrópu þegar auðurinn dreifðist.[2]

Peningaframboð fór upp úr öllu valdi en vöruframboð jókst ekki í takt. Skortur á vörum í samhengi við auð byggðist líka á því að fólksfjölgun hafði aukist mikið og því voru enn fleiri sem þurfti að fæða, klæða og hýsa.[2]

Franski stjórnmálamaðurinn og hagfræðingurinn Jean Bodin var einn af þeim fyrstu sem setti fram þá kenningu að verðbólgan væri tengd auknu magni peninga í umferð. Árið 1568 setti hann fram peningamagnskenninguna (e: Quantity theory of money) sem byggir á því að verðlag vöru og þjónustu byggi einna helst á peningamagni og veltuhraða peninga, þar sem framboð peninga ákvarðar kaupmátt þeirra. Aðrir hagfræðingar sem veittu því athygli að verðlagsbreytingar mætti rekja til aukins peningamagns í umferð voru spænski hagfræðingurinn Martín de Azpilcueta og pólski stjörnufræðingurinn Nikulás Kópernikus.

Aðrir voru ósammála því að magn peninga hefði áhrif á verðlag, og töldu að græðgi fjármálamanna og kaupmanna væri um að kenna. Verð væri ákvarðað af mönnum og hærra verðlag skýrðist af því að kaupmenn kepptust við að smyrja á álagningu til að auðgast.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Price revolution“, Wikipedia (enska), 9. október 2022, sótt 31. október 2022
  2. 2,0 2,1 2,2 „history of Europe - Prices and inflation | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 31. október 2022.