Fara í innihald

Rím

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Veggjað rím)

Rím nefnist það þegar orð eða orðhlutur hljóma saman, t.d. góður - rjóður; sveit - leit. Sé rímorð eitt atkvæði kallast það einrím eða karlrím, en séu rímorð tvö atkvæði er það kallað tvírím eða kvenrím. Þriggja atkvæða rím kallast þrírím eða veggjað rím.

Rím getur einnig verið hálfrím, sem einnig er nefnt sniðrím eða skothent rím og þá eru sérhljóð rímorða ekki eins, aðeins samhljóðin. Sem dæmi má nefna land og grund, einnig þvaðra og hnoðri. Þetta er nefnt sérhljóðshálfrím. Einnig er til samhljóðshálfrím. Þá ríma saman sérhljóðin en samhljóðin eru önnur. Dæmi: land - lamb, þvaðra - þvaga. Samhljóðshálfrím er sjaldgæft í rímnaháttum en algengara í danskvæðum, þulum og í nútímanum meðal annars í rappi.

Endarím er algengasta tegund ríms í ljóðlist. Þá ríma síðustu atkvæði hverrar ljóðlínu við síðustu atkvæði ljóðlína sem koma á undan eða eftir.

Oft ríma frumlínur saman og síðlínur eru þá hafðar með öðru rími, þessi aðferð kallast víxlrím:

Myndum kyrrð í stóru stóði,
stýfum, girðum, brýnum hníf,
ketti myrðum köldu blóði,
kátir virðum ekkert líf.

Stundum eru allar línur ljóðsins látnar ríma saman og er þá talað um samrím:

Allvel Dagbjört aldur ber
ungleg sýnist mér
í Reykjadalnum öldruð er
þó ekki sé það hér

Þegar hins vegar fyrri hendingin rímar og síðari hendingin er höfð með öðru rími er ljóðið misrímað:

Komum í bifreið að Baugaseli,
báðir í sokkum úr ullarþeli.
Löbbuðum léttfættir Barkárdalinn,
lítið var áð því enginn var kvalinn

Séu ljóðlínur fleiri og tvær og tvær ljóðlínur látnar ríma saman er talað um runurím:

Skórnir mínir skilja, hlýða
og skilyrðislaust alltaf bíða
aldrei þeir með öðrum fara
í anddyrinu liggja bara
fagra skóna fann ég ekki
fúlir nemar stunda hrekki
skimaði í áttir allar
angistin í huga kallar