Vatnsdeig

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vatnsdeigsbolla með fyllingu.

Vatnsdeig er létt deig sem notað er í ýmsar kökur og bollur, oftast sætar. Deigið inniheldur yfirleitt aðeins smjör, vatn, hveiti og egg og stundum örlítið af salti og/eða sykri. Engin lyftiefni eru í deiginu þótt það sem er bakað úr því lyfti sér yfirleitt mjög vel. Lyftingin verður vegna þess að þegar deigið, sem hefur hátt vökvainnihald, er sett í heitan ofn myndast gufa inni í því sem þenur það út svo að það lyftist.

Á Íslandi er deigið oftast notað í vatnsdeigsbollur sem einkum eru bakaðar á bolludaginn en það er einnig notað í ýmsar klassískar franskar kökur og smákökur eins og croquembouches og éclairs, svo og í ósætar bollur eins og gougères, sem stundum eru fylltar með ostakremi eða öðru ósætu áleggi en einnig borðaðar einar sér, til dæmis með víni. Sætar vatnsdeigsbollur eru alltaf fylltar, til dæmis með sultu og þeyttum rjóma eða einhverju kremi eða ís. Oft eru þær einnig þaktar með súkkulaði eða glassúr.

Algengast er að baka vatnsdeigsbollur og annað sem gert er úr vatnsdeigi í ofni en einnig má djúpsteikja það, til dæmis churros, sem eru vatnsdeigslengjur sem sprautað er úr kökusprautu með stjörnustút og síðan steiktar í olíu og bornar fram með heitum súkkulaðidrykk eða kaffi.

Sagt er að ítalskur bakari að nafni Panterelli, búsettur í París, hafi fundið upp vatnsdeigsbakstur árið 1540. Svo mikið er víst að kökur og bollur úr vatnsdeigi hafa löngum verið vinsælar í Frakklandi og þar urðu til ýmsar klassískar vatnsdeigskökur.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Fyrir bolludaginn." Þjóðviljinn, 26. febrúar 1960“.
  • „„Heimsins frægustu kökur." Tíminn, 22. júní 1982“.