Urðarmáni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Urðarmáni (eldhnöttur, hnattelding eða kúluelding) er umdeilt fyrirbrigði sem minnir á lýsandi eldhnoðra. Urðarmáninn getur svifið um í loftinu eða jafnvel oltið á jörðunni og sundrast oft með miklum gný. Lítið er vitað um hvað urðarmáninn er og hvað veldur honum. Varast ber að rugla urðarmána saman við vígahnött.

Urðarmáni fer stundum með miklum hraða um loftið, en annars staðar svífur hann ofurhægt og stundum sést hann hátt á lofti, en í annan tíma er hann alveg niður við jörðu. Urðarmáninn líkist eldhnetti og er mismunandi að stærð. Hefur honum stundum verið líkt við tungl í fyllingu, og nafnið þannig til komið, og hefur líklega verið kenndur við urð þar sem hann hefur sést fara um út í náttúrunni. Til eru lýsingar á því þegar urðarmáni hefur svífið fyrirvaralaust inn um glugga eða dyr, hafi runnið meðfram veggjum niður við gólf og sundrast svo með blossa og hvelli og horfið.

Urðarmáninn hefur enn ekki verið skýrður til hlýtar, og oft hefur hann vakið ótta hjá fólki. Fyrr á öldum var urðarmáninn tengdur við draugagang, enda þótti hann víða versti vágestur. Í þjóðtrú var urðarmáni haft um forlagatungl eða illan fyrirboða, því sagt var að þegar skyggnir menn sæju „urðarmánann“ þá áttu þeir von á manndauða. Einhvers konar urðarmáni boðar til dæmis manndauða í Eyrbyggju, eins og kemur fram í kafla 52:

Að Fróðá var eldaskáli mikill og lokrekkja innar af eldaskálanum sem þá var siður. Utar af eldaskálanum voru klefar tveir, sinn á hönd hvorri. Var hlaðið skreið í annan en mjölvi í annan. Þar voru gervir máleldar hvert kveld í eldaskála sem siður var til. Sátu menn löngum við eldana áður menn gengu til matar. Það kveld er líkmenn komu heim, þá er menn sátu við málelda að Fróðá, þá sáu menn á veggþili hússins að komið var tungl hálft. Það máttu allir menn sjá þeir er í húsinu voru. Það gekk öfugt um húsið og andsælis. Það hvarf eigi á brott meðan menn sátu við elda. Þóroddur spurði Þóri viðlegg hvað þetta mundi boða. Þórir kvað það vera urðarmána „mun hér eftir koma manndauður“. segir hann. Þessi tíðindi bar þar við viku alla að urðarmáni kom inn hvert kveld sem annað. [1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.