Fara í innihald

Ungmennafélag Álftaness

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ungmennafélag Álftaness
Fullt nafn Ungmennafélag Álftaness
Stofnað 1946
Leikvöllur Körfubolti: Kaldalónshöllin
Knattspyrna: OnePlus-völlurinn
Stærð
Stjórnarformaður Guðjón Þór Þorsteinsson
Deild Körfubolti karla: Úrvalsdeild
Knattspyrna karla: E-deild
Knattspyrna kvenna: C-deild
Heimabúningur
Útibúningur

Ungmennafélag Álftaness er íslenskt fjölgreinafélag sem þjónar íbúum á Álftanesi innan sveitarfélagsins Garðabæjar. Félagið heldur úti ýmsum deildum, s.s. í blaki, knattspyrnu og körfuknattleik auk einstaklingsgreina.

Félagið var stofnað þann á þrettándanum, þann 6. janúar árið 1946 undir heitinu Ungmennafélag Bessastaðahrepps, þegar Málfundafélaginu Þresti, sem stofnað var árið 1939, var breytt í ungmennafélag. Árið 1950 gekk félagið til liðs við Ungmennasamband Kjalarnesþings og var fulltrúi þess, Ármann Pétursson frá Eyvindarholti, óðara kjörinn varaformaður sambandisns og tók við formennsku þess fáeinum árum síðar. Félagið festi snemma kaup á bíóbragga frá hernámsliðinu og stóð fyrir kvikmyndasýningum og böllum, sem urðu fljótlega alræmd fyrir drykkjuskap og áflog aðkomumanna.

Ármann var driffjöðurinn í starfi Ungmennafélagsins fyrstu árin. Bessastaðahreppur var fámennur og engin eiginleg íþróttaaðstaða fyrir hendi. Stöku bændur fengust þó til að lána tún sín til æfinga að slætti loknum. Mörkum var hróflað upp og í þau sett net úr grásleppunetum. Ekki var um skipulagðar æfingar að ræða og engin formleg íþróttamót haldin, ef undan er skilin ein sundkeppni á árinu 1951. Við brotthvarf Ármanns af formannsstóli árið 1952 lagðist íþróttastarfsemi félagsins af um nokkurt skeið.[1]

Formenn á táningsaldri

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1961 var Úlfar Ármannsson, sonur Ármanns Péturssonar, kjörinn formaður félagsins að sér fjarstöddum. Hann var þá sautján ára gamall og nemandi við Reykjaskóla. Undir hans forystu hófust íþróttaæfingar ungmennafélagsins að nýju og innanfélagsmót voru haldin í frjálsum íþróttum. Úlfar tryggði félaginu aðgang að túnum í hreppnum og þrýsti jafnframt á hreppsstjórnina um að útbúa íþróttasvæði. Skólahúsnæðið á Bjarnastöðum var nýtt til inniæfinga á vetrum, s.s. í borðtennis. Félagið sá einnig um áramótabrennu sveitarinnar og skipulagði nýársdansleiki í kjölfarið.

Um 1970 var íbúafjöldinn á Álftanesi rétt um 200 talsins og setti það íþróttastarfinu mikil takmörk. Segja má að starfsemi félagsins hafi fremur talist tómstundastarf en eiginleg íþróttaiðkun. Áhersla var lögð á leiki á borð við skák, bridds og félagsvist auk félagsmálanámskeiða. Félagið átti ekki félagsheimili og hafði hvorki aðgang að íþróttahúsi né raunverulegum íþróttavelli.

Árið 1974 var Kristján Sveinbjörnsson kjörinn formaður, þá átján ára að aldri og hafði þegar gegnt starfi gjaldkera. Undir hans stjórn stóð félagið reglubundnum kvikmyndasýningum með 16 mm sýningarvél. Kristján teiknaði einnig merki félagsins sem enn er í notkun.

Fólksfjölgun og bætt aðstaða

[breyta | breyta frumkóða]

Íbúafjöldi Álftaness meira en tvöfaldaðist á áttunda áratugnum og var orðinn um 500 manns árið 1980. Ungmennafélagið var lykilstofnun í samfélaginu og fáeinum árum síðar fór félagafjöldinn yfir 100 manns. Möguleikar til formlegs íþróttastarfs tóku stakkaskiptum árið 1989 þegar íþróttahús með 18*32 metra gólfflöt og möguleika á stækkun var tekið í notkun. Ári síðar var fyrsta sundlaug hreppsins vígð, 16*8 metrar að stærð. Miklar breytingar hafa síðan átt sér stað á íþróttamiðstöðinni við Breiðumýri, m.a. með stækkuðu íþróttahúsi og nýrri og glæsilegri sundlaug.[2]

Árið 2004 var nafni Bessastaðahrepps breytt í Sveitarfélagið Álftanes og var nafni ungmennafélagsins breytt til samræmis við það. Sveitarfélögin Álftanes og Garðabær sameinuðust á árinu 2013 en Ungmennafélag Álftaness hefur upp frá því gegnt mikilvægu hlutverki við að standa vörð um hverfisvitund íbúanna á nesinu.

Íþróttadeildir

[breyta | breyta frumkóða]

Körfuknattleikur

[breyta | breyta frumkóða]

Álftnesingar sendu lið til keppni í D-deild Íslandsmótsins í karlaflokki veturinn 2016-17 í fyrsta sinn. Samhliða stofnun körfuboltadeildarinnar hófst þjálfun yngri flokka undir merkjum félagsins.[3] Á öðru ári sínu fór Álftanes upp úr D-deildinni og endurtók leikinn árið eftir, leiktíðina 2018-19, þá undir stjórn Hrafns Kristjánssonar.[4]

Næstu árin festu Álftnesingar sig í sessi í næstefstu deild og bjuggu sig undir að taka skrefið enn ofar. Vorið 2022 var tilkynnt að sjónvarpsþáttastjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson tæki við keflinu af Hrafni sem þjálfari liðsins.[5] Þegar á sinni fyrstu leiktíð leiddi hann Álftanes til sigurs í B-deildinni og var félagið í fyrsta sinn komið í röð þeirra bestu.

Álftanes hafnaði í sjötta sæti Subway-deildarinnar veturinn 2023-24, en féll úr leik fyrir Keflvíkingum í 8-liða úrslitum. Vorið 2025 gerði liðið enn betur og tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins eftir sigur á Njarðvík í fjórðungsúrslitum.

Meistaraflokkar Álftaness í bæði karla- og kvennaflokki hófu keppni í efstu deild í blaki leiktíðina 2018-19. Karlaliðið lenti í fjórða sæti af fimm liðum á fyrsta ári og komst í úrslitaleik bikarkeppninnar en tapaði þar fyrir KA. Vorið 2020 náðu Álftaneskarlar þriðja sæti í deildinni en höfnuðu í áttunda og næstneðsta sæti á leiktíðinni 2020-21 og drógu sig í kjölfarið úr keppni í efstu deild.

Kvennaliðið hafnaði í næstneðsta sæti árin 2019, 2020 og 2021, stukku upp í þriðja sæti leiktíðina 2021-22 og náðu sínum besta árangri, öðru sæti í deildarkeppninni árið 2022-23 auk þess að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Þótt karlaliðið drægi sig í hlé hefur kvennaliðið haldið sínu striki í efstu deild.[6]

Knattspyrna

[breyta | breyta frumkóða]

Ungmennafélag Bessastaðahrepps lagði frá upphafi stund á knattspyrnu, án þess þó að keppa á opinberum mótum. Eftir því sem íbúum fjölgaði fór félagið að halda úti liðum í yngri flokkum. Fyrsta skiptið sem Álftnesingar sendu lið til keppni á Íslandsmóti var meistaraflokki kvenna sumarið 2004 þar sem liðið lék í B-deild. Eftir þetta varð nokkuð hlé á þátttöku Álftaneskvenna. Þær hófu keppni á nýjan leik 2010 og hafa upp frá því leikið í neðstu deild, fyrst B-deild 2010-16 og síðan C-deild frá 2017.[7]

Karlalið Álftaness keppti fyrst á Íslandsmóti sumarið 2007. Það hefur hæst leikið í D-deild og flakkað milli hennar og E-deildar. Liðið hefur í tvígang orðið deildarmeistari, í E-deild sumarið 2014 og í F-deild sumarið 2024.[8]

Bæði karla- og kvennalið Álftaness í knattspyrnu hafa átt í samstarfi við Stjörnuna sem vensla- eða uppeldisfélag.

Karlaflokkur

[breyta | breyta frumkóða]

Karlaflokkur

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Jón M. Ívarsson: Saga UMSK, bls. 126-8“ (PDF).
  2. „Bjarki Bjarnason og Jón M. Ívarsson: Aldarsaga UMSK 1922-2022, bls. 205-8“.
  3. Huginn Freyr var í liðinu þegar að Álftanes vann 3.deildina 2018 en er formaður í dag - Karfan.is, 13.3.2013
  4. Hrafn Kristjánsson tekur við Álftanesi - Mbl.is, 20.7.2018
  5. Kjartan Atli tekur við Álftanesi - Karfan.is, 4.5.2022
  6. Úrslitagrunnur Blaksambands Íslands.
  7. Víðir Sigurðsson Íslensk knattspyrna 2024. Reykjavík: Sögur útgáfa. s. 254.
  8. Víðir Sigurðsson Íslensk knattspyrna 2024. Reykjavík: Sögur útgáfa. s. 194.