Alþjóðaferðamálasamtökin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá UNWTO)
Alþjóðaferðamálasamtökin
Merki samtakanna

Sérstofnun Sameinuðu þjóðanna
SkammstöfunUNWTO (enska)
StofnunSem alþjóðasamtök: 1. júní 1975
GerðMilliríkjastofnun
HöfuðstöðvarMadríd, Spáni
Opinber tungumálArabíska, enska, franska, kínverska, rússneska og spænska
FramkvæmdastjóriZurab Pololikashvili
Vefsíðawww.unwto.org

Alþjóðaferðamálasamtökin (UNWTO) (stundum nefnd Alþjóðaferðamálastofnunin) sem er alþjóðastofnun og ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna, vinnur að framgangi ábyrgrar, aðgengilegrar og sjálfbærrar ferðaþjónustu í allra þágu. Höfuðstöðvar samtakanna í Madríd á Spáni.


Starfssemi[breyta | breyta frumkóða]

Mynd af höfuðstöðvum Alþjóðaferðamálastofnunarinnar í Madríd á Spáni.
Höfuðstöðvar Alþjóðaferðamálasamtakanna í Madríd á Spáni.

Samtökin eru leiðandi í að halda á lofti hlut ferðaþjónustu í hagvexti, þróun án aðgreiningar og sjálfbærni í umhverfinu. Þau bjóða atvinnugreininni forystu og stuðning í þekkingaröflun og rannsóknum, sem og alþjóðlegan vettvang við mótun ferðamálastefnu.

Samtökin leggja áherslu á sjálfbæra þróun ferðaþjónustu, samkeppnishæfni, nýsköpun og stafræna umbreytingu greinarinnar. Þá er siðfræði, menning og félagslega ábyrgð ferðaþjónustunnar þýðingarmikið í starfi samtakanna, sem og tæknilegt samstarf og alþjóðleg tölfræði greinarinnar.

Samtökin eru mjög virk í fræðslumálum og endurmenntun ferðaþjónustunnar og reka meðal annars svokallaða UNWTO akademíu sem vinnur að menntun og þjálfun mannauðs ferðaþjónustunnar. Hún var sett á laggirnar árið 1998 og hefur aðsetur í Furstadæminu Andorra.

Samtökin hafa höfuðstöðvar í Madríd á Spáni og tengiskrifstofa í Genf, Sviss.

Aðild[breyta | breyta frumkóða]

Aðild að Alþjóðaferðamálasamtökunum nær til 159 ríkja auk 6 með aukaaðild. Þá eru yfir 500 tengd félög sem eru fulltrúar einkaaðila, menntastofnana, samtaka ferðaþjónustunnar og ferðamálayfirvalda á staðnum.

Samtökin byggja á þeirri sýn að opinberir og einkaaðilar séu óaðskiljanlegir samstarfsaðilar í að stuðla að sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu.

Samtökin eru eina undirstofnun Sameinuðu þjóðanna þar sem fulltrúar frá einkageiranum taka beinan þátt í stjórnunarskipaninni.

Ísland er eitt fárra landa ekki með aðild að Alþjóðaferðamálasamtökunum.[1]

Siðareglur[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðaferðamálasamtökin hafa unnið að alþjóðlegri gæðavottun á rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Samtökin hafa í því skyni gefið út alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu. Reglurnar sem gilda jafnt um opinbera aðila og einkaaðila, eru ekki lagalega bindandi. Þær er fremur vottun um gæði og heilbrigði fyrirtækja og samtaka í greininni.[2]

Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki með aðild að Alþjóðaferðamálasamtökunum hefur Ferðamálastofa og íslensk ferðaþjónustufyrirtæki gert siðareglur samtakanna að sínum.[3]

Sjálfbær ferðaþjónusta[breyta | breyta frumkóða]

Samtökin hvetja til innleiðingar alþjóðlegra siðareglna fyrir ferðaþjónustu, svo hámarka megi framlag ferðaþjónustunnar til félagslegrar- og efnahagslegrar framþróunar. Jafnframt er unnið að því að lágmarka möguleg neikvæð áhrif atvinnugreinarinnar og þróa hana sem tæki til að ná fram sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þar er markmiðið að útrýma fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun og friði um allan heim. Samtökin telja sjálfbæra ferðaþjónustu sérstaklega tengjast heimsmarkmiðum 8, 12 og 14.[4]

Samtökin skilgreindu sjálfbæra ferðamennsku árið 2004 svo:[5][6]

  • Sjálfbær ferðaþjónusta nýtir umhverfisauðlindir sem gegna lykilhlutverki í þróun ferðaþjónustu á sem bestan og hagkvæmastan hátt, en viðhalda jafnframt nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum og aðstoða við verndun náttúruarfs og líffræðilegrar fjölbreytni;
  • Sjálfbær ferðaþjónusta virðir félags- og menningarlegan upprunaleika samfélaga í heimabyggðum, vernda menningararf þeirra, bæði byggingararf og samtímamenningu, sem og hefðbundin lífsgildi, og stuðlar að skilningi og umburðarlyndi á milli ólíkra menningarhópa;
  • Sjálfbær ferðaþjónusta tryggir lífvænlega, langtíma efnahagslega starfsemi sem veitir öllum hagsmunaaðilum félagslegan og hagrænan ávinning er dreifist á milli þeirra á sanngjarnan hátt, þar með talið hvað varðar stöðugleika í möguleikum til atvinnuþáttöku.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. UNWTO (2021). „Member States of the UNWTO“. Member States of the UNWTO. Sótt 28. mars 2021.
  2. UNWTO / Ferðamálastofa (2017). „Alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu— Fyrir ábyrga ferðaþjónustu (í íslenskri þýðingu á vef Ferðamálastofu)“ (PDF). Ferðamálastofa. Sótt 28. mars 2021.
  3. Morgunblaðið - 232. tölublað (05.10.2017) (5. október 2017). „Gæðavottorð ferðaþjónustu“. Morgunblaðið/ Árvakur. Sótt 28. mars 2021.
  4. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (Desember 2019). „Skýrsla nr. C19:05 Náttúruvernd og byggðaþróun: Áhrif verndarsvæða á grannbyggðir“ (PDF). Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. bls. 89. Sótt 28. mars 2021.
  5. Ferðamálastofa (2013). „Framkvæmdasjóður ferðamannastaða - Matsblað við yfirferð styrkumsókna“ (PDF). Ferðamálastofa. Sótt 28. mars 2021.
  6. Ferðamálastofa. „Eden gæðaáfangastaðir“. Ferðamálastofa. Sótt 28. mars 2021.