Fara í innihald

Turnugla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Turnugla

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Uglur ( Strigiformes)
Ætt: Kransuglur (Tytonidae)
Ættkvísl: Tyto
Tegund:
T. alba

Tvínefni
Tyto alba
(Scopoli, 1769)
Útbreiðsla Tyto alba, Tyto furcata og Tyto javanica
Útbreiðsla Tyto alba, Tyto furcata og Tyto javanica
Samheiti
  • Strix alba (Scopoli, 1769)
  • Strix pratincola (Bonaparte, 1838)
  • Tyto delicatula (Gould, 1837)

Turnugla er algengust og útbreiddust kransugla. Þær eru allt að 10 milljón talsins og finnast í öllum heimsálfum, að Suðurskautinu utantöldu.[1]

Útlit og sérkenni

[breyta | breyta frumkóða]

Stuttar og stífar fjaðrir mynda hjartalaga andlit sem gefur turnuglunni blíðlegt útlit og er hennar sérkenni. Litur fjaðra er brúnn og gylltur að ofan en bringan ljós. Augun eru dökk og fætur hvítir og fiðraðir með beittum klóm sem henta vel til veiða. Meðalstærð fuglsins er um 25 cm að lengd og vænghaf er allt að 127 cm og er kvendýrið stærra og dekkra en karldýrið. Ávalir og mjúkdúna vængir og stuttur hali stuðla að uppbyggilegum og hljóðlausum flugstíl sem hentar vel til næturveiðanna. Erfitt er að segja til um líftíma en talið er að lífslíkur séu 2-4 ár.[2] Næm sjón og vítt sjónsvið gerir henni kleift að ákvarða fjarlægðir í veiðiferðum, augun geta ekki sameinað eina mynd en hún getur þó horft fram fyrir sig ef hallað er undir flatt.[3] Snúningur höfuðsins er fyrirhafnarlítill sem kemur henni að gagni því eins og allir fuglar hefur hún ekki augnknött og eru augun því óhreyfanleg í augntóftunum.[4] Augun eru einnig vel til náttveiðanna fallin, smágerðir og fiðraðir hringir umhverfis þau beina hljóðum að eyrum uglunnar.[5] Fuglinn gefur frá sér hljóð sem minna á flaut, hvæs og hrotur og getur því reynst erfitt að vita af honum þar sem hljóðið er frábrugðið því sem einkennir uglu almennt.[2]

Þróun fuglsins

[breyta | breyta frumkóða]

Allt að 35 undirtegundum turnuglunnar er hægt að þekkja í sundur á stærð og lit.[2] Fundist hafa steingervingar ættarinnar sem nema um 5,5 milljónir ára en upphafleg beinabygging og holdarfar hefur þróast úr tvöfaldri stærð sem hún er í dag. Ástæðan er ekki fullkunn en beinist að fæðuskorti, flugörðuleika sökum þyngdar og fáum möguleikum til skjóls sökum stærðar. Samspil þessara þriggja þátta er talin hafi ráðið líffræðilegri þróun fuglsins. Tyto alba er latneskt heiti uglunnar sem þýðir einfaldlega ‘hvít ugla‘ á góðri íslensku.[6]

Æxlun, afkvæmi og allt þar á milli

[breyta | breyta frumkóða]

Meðal aldur kynþroska turnuglunnar er um eins árs og á við um bæði kyn. Uglan heldur sér yfirleitt við einn maka svo lengi sem hann er á lífi, þó nokkrar skýrslur um fjölkvæni séu fyrir hendi. Karlfuglinn vandar valið á kvenkosti sínum til undaneldis og ræðst val hans á þeirri sem prýðir flestum doppum, sem virðist hafa áhrif á líkur afkvæma til að verða ekki fyrir áhrifum snýkjudýra.[7] Karlfuglinn hefur eistnapar í kviðarholinu og þaðan liggja sáðrásir í eina rás sem víkkar í sameiginlega rás fyrir þvag-æxlunar og þarfagangsops fugla, cloaca. Kvenfuglinn hefur einn eggjaleiðara sem leiðir frá eggjastokkunum niður í cloaca.[8] Mökunarferlið byrjar með frumkvæði karlfugls sem laðar að sér kvendýrið með köllum og eltir hana þar til bæði karl-og kvenfugl gefa frá sér skrækjur.[9] Bæði kynin hafa kynop sem þau leggja saman og innvortis æxlun á sér stað á nokkrum sekúndum.[8] Kvendýrið verpir að meðaltali sex eggjum og stólar á makann til fæðuöflunar á meðan hún liggur í 29-34 daga á fjaðralausum kviðnum sem leiðir hita til eggjanna. Ungarnir verða sjálfstæðir eftir 3-5 vikur eftir að þeir verða fleygir. Þar sem lífslíkur uglunnar miðast við tvö ár, verpir hún oft tvisvar sinnum á ári en varptímabilið er breytilegt og miðast við loftslag tiltekins staðar.[2]

Unganir .Barn Owl Marais des Cygnes NWR

Turnuglur eru fremur kyrrsettar en á ekki við um allar enda fer það eftir búsvæðum sem geta verið víða. Uglan er aðlöguð bæði þéttu skóglendi og opnu svæði og dafnar uglan vel í ólíkum umhverfisaðstæðum.[7] Uglan getur bæði verið ein eða í pari og heldur sér oftast kyrru fyrir á daginn en í næturlagi fer hún á veiðar. Uglan vill vera í friði í skugga og lygnir aftur augum.[5] Hún gerir sér hreiður í m.a trjábolum, klettasprungum, fljótabönkum og hlöðum.[2]

Fæðuval og hættur

[breyta | breyta frumkóða]
Turnugla flýgur með bráðina

Turnuglan er rándýr og er líkaminn vel lagaður til þess. Uglan getur nálgast bráðina án þess að hún viti af og ræðst hún á hana með fótum sínum í 1,5-4,5 metra frá jörðu og gleypir bráðina í heilu lagi. Hún veiðir smá spendýr sér til ætis þ.e, mýs, leðurblökur og kanínur en stundum verða smærri fuglar eins og starrar og þrestir uglunni að bráð. Þekkt er að uglan geymir umframmagn fæðunnar fyrir komandi afkvæmi en ekki er ljóst hvort hún sé sérhæft eða tækifærissinnað rándýr því þó að uglan virðist vera sérhæfð í að veiða smærri spendýr getur það í raun endurspeglað þá staðreynd að þessi smádýr eru jafnframt þau líklegustu til að verða á vegi uglunnar í næturlífi hennar.[7] Menn eru oftar en ekki ómeðvitaðir um ferðir turnuglunnar og er hún friðsæl almennt. Hún veiðir sér bráð sem hún ræður við án afskipta lífvera sem ná yfir hennar hæð. Uglan verður sjaldan öðrum rándýrum að bráð en þegar hætta steðjar að breiðir hún út vængina í átt að óvininum og hallar hausnum fram og aftur. Ef óvinurinn, sem er yfirleitt snákur, gefst ekki upp lætur uglan sig falla á bakið og berst með klónum.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]