Torsten Stålhandske
Torsten Stålhandske (1. september 1593 – 21. apríl 1644) eða Stálhanski var finnskur riddaraliðsforingi í sænska hernum Þrjátíu ára stríðinu. Hann var af sænskum og finnskum aðalsættum og fæddist í Porvoo í Suður-Finnlandi. Hann fylgdi Gústafi 2. Adolf til Prússlands sem liðsmaður í lífverði konungs árið 1626. Sama ár varð hann majór í sveit Arvid Horn og árið eftir gerðist hann riddaraliðsmaður í sveit Åke Henriksson Tott. Árið 1629 varð hann undirofursti í riddaraliði Nylands och Tavastehus sem var skipað finnskum léttvopnuðum riddurum (hakkapeliitat). Í orrustan við Breitenfeld 1631 riðu þeir með hægri fylkingararmi sem konungur leiddi sjálfur. Árið 1632 var hann gerður að ofursta. Í orrustunni við Nürnberg hleypti hann upp „ósigrandi hermönnum“ Cronbergs ofursta og í orrustunni við Lützen átti hann stóran þátt í að tryggja Svíum sigurinn. Í júní 1634 í orrustunni við Hameln særðist hann. Árið eftir var hann orðinn undirhershöfðingi í her Johan Banér og hélt áfram að vekja athygli fyrir framgöngu sína. Undir Lennart Torstenson tók hann þátt í annarri orrustunni við Breitenfeld og hlaut alvarleg sár. Í maí 1642 var hann gerður að hershöfðingja riddaraliðsins. Hann fylgdi Torstenson þegar herinn gerði innrás í Danmörku í Torstensonófriðnum en veiktist og dó í Haderslev 21. apríl 1644.
Sagan segir að viðurnefni sitt, „stálhanski“, hafi hann fengið af því að heilsa föngnum óvinaforingjum svo fast með handabandi að blóð spratt undan nöglum þeirra.