Tomiichi Murayama
| Tomiichi Murayama | |
|---|---|
| 村山 富市 | |
Tomiichi Murayama árið 1994. | |
| Forsætisráðherra Japans | |
| Í embætti 30. júní 1994 – 11. janúar 1996 | |
| Þjóðhöfðingi | Akihito |
| Forveri | Tsutomu Hata |
| Eftirmaður | Ryūtarō Hashimoto |
| Persónulegar upplýsingar | |
| Fæddur | 3. mars 1924 Ōita, Japan |
| Látinn | 17. október 2025 (101 árs) Ōita, Japan |
| Stjórnmálaflokkur | Sósíalistaflokkurinn (1955–1996) |
| Maki | Yoshie Murayama (g. 1953) |
| Háskóli | Meiji-háskóli |
| Undirskrift | |
Tomiichi Murayama (japanska: 村山 富市, Murayama Tomiichi; 3. mars 1924 – 17. október 2025) var japanskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Japans frá 1994 til 1996. Murayama var fyrsti sósíalíski forsætisráðherra landsins frá Tetsu Katayama árið 1948.[1] Hans er helst minnst fyrir að gefa frá sér Murayama-yfirlýsinguna þegar 50 ár voru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, þar sem hann baðst opinberlega afsökunar á árásarstríðum og stríðsglæpum Japana.[2]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Tomiichi Murayama fæddist 3. mars 1924 í héraðinu Ōita. Hann var sá sjöundi í ellefu barna systkinahópi.[3] Faðir hans, Hyakutarō, var fisksali og yngri sonur útgerðarmanns (japanska: 網元; amimoto).[4] Faðir hans lést þegar Tomiichi Murayama var 14 ára gamall[4] og hann neyddist því vegna fjárskorts að hætta skólagöngu sinni eftir átta ár, sem var þá lágmarksskólaskylda í Japan.[5] Móðir hans reyndi að sjá fyrir fjölskyldunni með því að selja fisk á mörkuðum. Fyrstu stjórnmálaskoðanir Murayama mótuðust af fátæklegu uppeldi hans.[6]
Murayama fór ungur út á vinnumarkaðinn og fór á kvöldnámskeið samhliða vinnu til að eiga möguleika á að fara einn daginn í háskóla. Þegar hann varð tvítugur árið 1944 var hann kvaddur til herþjónustu en hann þurfti aldrei að yfirgefa Japan.[5]
Murayama útskrifaðist frá stjórnmála- og hagfræðideild Meiji-háskóla stuttu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, árið 1946.[7]
Murayama var meðlimur í japanska Sósíalistaflokknum, sem var endurnefndur Jafnaðarmannaflokkurinn árið 1996. Þegar Murayama varð forsætisráðherra árið 1994 var hann fyrsti sósíalíski forsætisráðherra landsins í næstum hálfa öld, en sá síðasti hafði verið Tetsu Katayama frá 1947 til 1948. Murayama fór fyrir samsteypustjórn Sósíalistaflokksins með Frjálslynda lýðræðisflokknum (hinum hefðbundna andstæðingi sósíalista í Japan) og Nýja flokknum Sakigake.
Þann 15. ágúst 1995, þegar 50 ár voru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, gaf Murayama frá sér svonefnda Murayama-yfirlýsingu þar sem hann baðst opinberlega afsökunar á stríðsglæpum Japana í stríðinu.[8]
Stjórnartíð Murayama einkenndist meðal annars af jarðskjálftanum í Hanshin, sem olli gríðarlegu eignartjóni, og eiturgasárásinni á neðanjarðarlestarkerfið í Tókýó, sem var mannskæðasta hryðjuverkaárás í sögu Japans. Murayama sagði af sér þann 5. janúar árið 1996 vegna áforma í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar um að ríkið verði miklum fjárhæðum í að forða húsnæðislánafyrirtækjum frá gjaldþroti. Andstæðingar áformanna töldu að með þeim væri stjórnin að bjarga bændum, sem áttu félögin, á kostnað skattgreiðenda.[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Benedikt Stefánsson (3. júlí 1994). „Á vit fortíðar eða aukinnar sundrungar“. Morgunblaðið. bls. 6.
- ↑ „Sópi ekki sögunni undir teppið“. mbl.is. 10. júlí 2015. Sótt 24. ágúst 2025.
- ↑ Sam Jameson (30 júní 1994). „Socialist Named Premier in Japan“. Los Angeles Times (enska). Sótt 12 apríl 2020.
- 1 2 Akio Watanabe (2016). The Prime Ministers of Postwar Japan, 1945–1995: Their Lives and Times (enska). Lanham: Lexington Books. bls. 362. ISBN 978-1-4985-1002-8.
- 1 2 Edgar A. Porter; Ran Ying Porter (2017). Japanese Reflections on World War II and the American Occupation (enska). Amsterdam: Amsterdam University Press. bls. 61. ISBN 978-90-485-3263-6.
- ↑ Teresa Watanabe (1 júlí 1994). „New Japanese Premier Not Exactly Groomed for Top Job“. Los Angeles Times (enska). Sótt 12 apríl 2020.
- ↑ „Profile of Prime Minister Tomiichi Murayama“. www.mofa.go.jp (enska). Sótt 13 apríl 2020.
- ↑ „Japon : l'ex-Premier ministre Tomiichi Murayama, qui s'était excusé pour les atrocités de la 2e Guerre mondiale, est décédé - RTBF Actus“. RTBF (franska). Sótt 17 október 2025.
- ↑ „Kosningum spáð á næstu mánuðum“. Morgunblaðið. 6. janúar 1996. bls. 19.
| Fyrirrennari: Tsutomu Hata |
|
Eftirmaður: Ryūtarō Hashimoto | |||