Fara í innihald

Tomiichi Murayama

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tomiichi Murayama
村山 富市
Tomiichi Murayama árið 1994.
Forsætisráðherra Japans
Í embætti
30. júní 1994  11. janúar 1996
ÞjóðhöfðingiAkihito
ForveriTsutomu Hata
EftirmaðurRyūtarō Hashimoto
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. mars 1924(1924-03-03)
Ōita, Japan
Látinn17. október 2025 (101 árs) Ōita, Japan
StjórnmálaflokkurSósíalistaflokkurinn (1955–1996)
MakiYoshie Murayama (g. 1953)
HáskóliMeiji-háskóli
Undirskrift

Tomiichi Murayama (japanska: 村山 富市, Murayama Tomiichi; 3. mars 1924 – 17. október 2025) var japanskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Japans frá 1994 til 1996. Murayama var fyrsti sósíalíski forsætisráðherra landsins frá Tetsu Katayama árið 1948.[1] Hans er helst minnst fyrir að gefa frá sér Murayama-yfirlýsinguna þegar 50 ár voru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, þar sem hann baðst opinberlega afsökunar á árásarstríðum og stríðsglæpum Japana.[2]

Tomiichi Murayama fæddist 3. mars 1924 í héraðinu Ōita. Hann var sá sjöundi í ellefu barna systkinahópi.[3] Faðir hans, Hyakutarō, var fisksali og yngri sonur útgerðarmanns (japanska: 網元; amimoto).[4] Faðir hans lést þegar Tomiichi Murayama var 14 ára gamall[4] og hann neyddist því vegna fjárskorts að hætta skólagöngu sinni eftir átta ár, sem var þá lágmarksskólaskylda í Japan.[5] Móðir hans reyndi að sjá fyrir fjölskyldunni með því að selja fisk á mörkuðum. Fyrstu stjórnmálaskoðanir Murayama mótuðust af fátæklegu uppeldi hans.[6]

Murayama fór ungur út á vinnumarkaðinn og fór á kvöldnámskeið samhliða vinnu til að eiga möguleika á að fara einn daginn í háskóla. Þegar hann varð tvítugur árið 1944 var hann kvaddur til herþjónustu en hann þurfti aldrei að yfirgefa Japan.[5]

Murayama útskrifaðist frá stjórnmála- og hagfræðideild Meiji-háskóla stuttu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, árið 1946.[7]

Murayama var meðlimur í japanska Sósíalistaflokknum, sem var endurnefndur Jafnaðarmannaflokkurinn árið 1996. Þegar Murayama varð forsætisráðherra árið 1994 var hann fyrsti sósíalíski forsætisráðherra landsins í næstum hálfa öld, en sá síðasti hafði verið Tetsu Katayama frá 1947 til 1948. Murayama fór fyrir samsteypustjórn Sósíalistaflokksins með Frjálslynda lýðræðisflokknum (hinum hefðbundna andstæðingi sósíalista í Japan) og Nýja flokknum Sakigake.

Þann 15. ágúst 1995, þegar 50 ár voru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, gaf Murayama frá sér svonefnda Murayama-yfirlýsingu þar sem hann baðst opinberlega afsökunar á stríðsglæpum Japana í stríðinu.[8]

Stjórnartíð Murayama einkenndist meðal annars af jarðskjálftanum í Hanshin, sem olli gríðarlegu eignartjóni, og eiturgasárásinni á neðanjarðarlestarkerfið í Tókýó, sem var mannskæðasta hryðjuverkaárás í sögu Japans. Murayama sagði af sér þann 5. janúar árið 1996 vegna áforma í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar um að ríkið verði miklum fjárhæðum í að forða húsnæðislánafyrirtækjum frá gjaldþroti. Andstæðingar áformanna töldu að með þeim væri stjórnin að bjarga bændum, sem áttu félögin, á kostnað skattgreiðenda.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Benedikt Stefánsson (3. júlí 1994). „Á vit fortíðar eða aukinnar sundrungar“. Morgunblaðið. bls. 6.
  2. „Sópi ekki sögunni undir teppið“. mbl.is. 10. júlí 2015. Sótt 24. ágúst 2025.
  3. Sam Jameson (30 júní 1994). „Socialist Named Premier in Japan“. Los Angeles Times (enska). Sótt 12 apríl 2020.
  4. 1 2 Akio Watanabe (2016). The Prime Ministers of Postwar Japan, 1945–1995: Their Lives and Times (enska). Lanham: Lexington Books. bls. 362. ISBN 978-1-4985-1002-8.
  5. 1 2 Edgar A. Porter; Ran Ying Porter (2017). Japanese Reflections on World War II and the American Occupation (enska). Amsterdam: Amsterdam University Press. bls. 61. ISBN 978-90-485-3263-6.
  6. Teresa Watanabe (1 júlí 1994). „New Japanese Premier Not Exactly Groomed for Top Job“. Los Angeles Times (enska). Sótt 12 apríl 2020.
  7. „Profile of Prime Minister Tomiichi Murayama“. www.mofa.go.jp (enska). Sótt 13 apríl 2020.
  8. „Japon : l'ex-Premier ministre Tomiichi Murayama, qui s'était excusé pour les atrocités de la 2e Guerre mondiale, est décédé - RTBF Actus“. RTBF (franska). Sótt 17 október 2025.
  9. „Kosningum spáð á næstu mánuðum“. Morgunblaðið. 6. janúar 1996. bls. 19.


Fyrirrennari:
Tsutomu Hata
Forsætisráðherra Japans
(30. júní 1994 – 11. janúar 1996)
Eftirmaður:
Ryūtarō Hashimoto


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum og Japan er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.