Timothy Leary
Timothy Francis Leary (22. október 1920 - 31. maí 1996), var bandarískur sálfræðingur og rithöfundur sem var eindreginn stuðningsmaður notkunar skynörvandi lyfja (e. psychedelic drugs) og stóð fyrir frægum tilraunum og rannsóknum á notkun lyfsins LSD.[1]
Leary lauk doktorsgráðu í sálfræði frá Kaliforníu-háskóla í Berkeley árið 1950 og kenndi síðar klíníska sálfræði við Harvard-háskólann. Hann stóð fyrir nafntogaðri rannsókn á vegum Harvard um notkun lyfjanna LSD og psilocybin á árunum 1960-1962, The Harvard Psilocybin Project, en bæðin lyfin voru á þeim tíma lögleg í Bandaríkjunum. Ekki voru allir á eitt sáttir um gagnsemi rannsókna Learys og m.a. þótti siðferðislega ámælisvert að hann neytti sjálfur skynörvandi lyfja með þátttakendum í rannsóknunum, og þrýsti jafnframt á nemendur sína að gera slíkt hið sama. Ferli Learys við Harvard lauk með brottrekstri árið 1963.
Gagnmenning sjöunda áratugarins
[breyta | breyta frumkóða]Timothy Leary var mjög áberandi í menningarstríðum sjöunda og áttunda áratugarins sem einn helsti boðberi notkunar hugvíkkandi efna, nafntogaður langt út fyrir nýju vinstrihreyfinguna og gagnmenninguna (e. counter-culture). Leary tók skynörvandi lyf með helstu listamönnum og rithöfundum sjötta og sjöunda áratugarins, á borð við Allen Ginsberg, Jack Keruac og William Burroughs. Hann komst í kast við lögin oftar en einu sinni, var landflótta um tíma og þurfti að sitja í mörg ár í fangelsi vegna fíkniefnadóma.
Leary er höfundur eins frægasta slagorðs hippatímabilsins: „Turn on, tune in, drop out“ - sem gæti útlagst á íslensku „kveiktu, stilltu þig inn, slepptu takinu“. Með því vildi hann hvetja fólk til þess að taka hinu nýja og breytta menningarsamfélagi opnum örmum og nýta sér skynörvandi og hugvíkkandi efni til að losa um gamlar hömlur og kreddur. Hugmyndir Leary höfðu mikil áhrif á gagnmenningu hippatímans og 1968 kynslóðarinnar. Sækadelía hippatímans fæddist úr andófi gagnmenningarinnar, vitundarvíkkandi efnum og rokktónlist. Eitt af þekktustu skáldum þeirrar bylgju var svarti gítarleikarinn Jimi Hendrix.[2]
Richard Nixon og Stríðið gegn eiturlyfjum
[breyta | breyta frumkóða]Notkun LSD var bönnuð í Bandaríkjunum árið 1968, í forsetatíð Lyndon B. Johnson. Eftirmaður hans, Richard Nixon Bandaríkjaforseti lýsti yfir stríði gegn fíkniefnum árið 1971. Nixon sagði eiturlyf grafa undan bandarísku samfélagi. Stríðið gegn fíkniefnum beindist þó fyrst og fremst að andstæðingum forsetans, hippum og svörtu fólki og var hluti af stríði forsetans gegn vinstriróttæklingum og forsprökkum gagnmenningarinnar. Nixon kallaði Timothy Leary meðal annars „hættulegasta mann í heimi.“ [3]
Frá aldamótum hefur stuðningur við afglæpavæðingu skynörvandi efna aukist. Oregon er fyrsta fylkið til að afglæpavæða LSD. Í kosningum haustið 2020 samþykkti 58% kjósenda fylkisins lagabreytingu sem afglæpavæðir notendaskammta allra harðra eiturlyfja, þar á meðal LSD.[4][5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Laura Mansnerus (1. júní 1996). „Timothy Leary, Pied Piper Of Psychedelic 60's, Dies at 75“. The New York Times. Sótt 3. desember 2020.
- ↑ Hartman, Andrew (2019). A war for the soul of America, 2nd ed. The University of Chicago Press. bls. 16. ISBN 978-0-226-62191-3.
- ↑ LoBianco, Tom (24. mars 2016). „Aide says Nixon's war on drugs targeted blacks, hippies“. CNN. Sótt 3. des 2020.
- ↑ Oregonian/OregonLive, Noelle Crombie | The (27. nóvember 2020). „Here are the drug limits under Oregon's first-of-its-kind decriminalization law“. oregonlive (enska). Sótt 4. janúar 2021.
- ↑ Selsky, Andrew (4. nóvember 2020). „Oregon leads the way in decriminalizing hard drugs“. AP. Sótt 3. desember 2020.