Tilleiðsluvandinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Tilleiðsluvandinn eða aðleiðsluvandinn er heimspekilegt vandamál varðandi réttlætingu tilleiðslu sem ályktunaraferðar. Vandinn snýst um hvort og hvenær tilleiðsla sé skynsamleg leið til að draga ályktanir. Það er að segja, hvernig réttlætum við:

  1. alhæfingar um eiginleika einhvers hóps hluta á grundvelli einhvers tiltekins fjölda athugana á einstökum tilfellum (til dæmis, „Allir hrafnar sem við höfum séð eru svartir og þess vegna eru allir hrafnar svartir“); eða
  2. ályktanir um að atburðir muni gerast í framtíðinni með sama hætti og þeir hafa gerst í fortíðinni (til dæmis, „þyngdarlögmálið hefur gilt hingað til, þess vegna mun það gilda áfram á morgun“).

Áhrifamenn[breyta | breyta frumkóða]

Francis Bacon, Isaac Newton og ýmsir aðrir a.m.k. fram á síðari hluta 19. aldar töldu að tilleiðsla væri kjarninn í vísindalegri aðferð – tilleiðslu er beitt nú á dögum, enda þótt einnig sé beitt afleiðslu og ályktun um bestu skýringuna. Þegar tilleiðslu er beitt í vísindum eru gerðar athuganir og á grundvelli þeirra er alhæft. Ef tilleiðslu er beitt skynsamlega og af nákvæmni gerir hún öðrum kleift að sleppa því að gera samskonar athuganir og leyfir þeim að styðjast í staðinn við alhæfinguna til að spá fyrir um hvað muni í framtíðinni eiga sér stað við tilteknar aðstæður. Til dæmis er mögulegt að álykta út frá athugunum sem sýna að vatn frjósi við 0 °C við sjávarmál að næst þegar við sjáum vatn í 0 °C við sjávarmál muni það frjósa – en bara ef tilleiðslan virkar. Þegar slík forspá reynist rétt, þá styður það athuganirnar, og forspáin sem reyndist rétt bætist í þeirra hóp; það sýnir þó ekki fram á áreiðanleika tilleiðslu sem slíkrar, nema á grundvelli tilleiðslu. Vandinn er þá sá að finna réttlætingu fyrir slíkri ályktun.

David Hume[breyta | breyta frumkóða]

David Hume setti vandann fram í Rannsókn á skilningsgáfunni[1]. Hume færði m.a. rök fyrir því að það sé ekki röklega nauðsynlegt að framtíðin verði neitt í líkingu við fortíðina. Að réttlæta tilleiðslu á þeim grundvelli að hún hafi virkað í fortíðinni jafngildir því að gefa sér það sem sýna skal fram á. Þá væri tilleiðslu beitt til þess að réttlæta tilleiðslu og það er ekkert annað en hringavitleysa. Enn fremur þarf ekki nema eitt tilfelli til þess að hrekja alhæfinguna, enda þótt fjölmargar aðrar athuganir séu samrýmanlegar henni. Hume leiddi einnig rök að því að það sé enginn röklegur grundvöllur fyrir trúnni á einsleitni náttúrunnar.

Afstaða Humes var sú að í stað óuppbyggilegrar róttækrar efahyggju um hvaðeina væri hann að halda fram vísindalegri efahyggju byggðri á heilbrigðri skynsemi, þar sem óhjákvæmileiki tilleiðslu er tekinn gildur (en ekki útskýrður). Hume benti á að sá sem færi fram á gild afleiðslurök fyrir öllu myndi svelta, vegna þess að viðkomandi myndi til dæmis ekki gera ráð fyrir á grundvelli fyrri athugana hvenær árs skyldi sá eða hver seldi brauð eða jafnvel að brauð hefði áður nært hann sjálfan og aðra. Arfleifð Hume er eigi að síður sú að hafa sýnt að í tilleiðslu er ekki möguleiki á algerri fullvissu, jafnvel þegar engin tilfelli eru um hið gagnstæða. Bertrand Russell fjallaði um greiningu Humes í 6. kafla bókar sinni Gátum heimspekinnar frá 1912[2].

Karl Popper[breyta | breyta frumkóða]

Karl Popper, áhrifamikill vísindaheimspekingur, reyndi að leysa vandann í samhengi vísindalegrar aðferðar, að hluta með því að halda því fram að vísindin styðjist ekki fyrst og fremst við tilleiðslu, heldur afleiðslu, og gerði modus tollens að kjarna kenningar sinnar. Samkvæmt þessari kenningu ætti maður, þegar lagt er mat á vísindalega kenningu, að hyggja fremur að þeim gögnum sem brjóta í bága við hana heldur en þeim gögnum sem styðja hana. Popper gekk lengra og fullyrti að tilgáta sem gefur ekki færi á að hún vera prófuð með athugunum eða tilraunum sé óvísindaleg.

Þeir sem gagnrýna aðferð Poppers við að leysa vandann, eins og hinn frægi nytjastefnumaður Peter Singer, leiða hins vegar rök að því að Popper sé einungis að gera óskýrt hvert hlutverk tilleiðslu er í vísindum með því að fela hana í afsönnun. Með því eiga þeir við að staðhæfingin að eitthvað hafi verið hrakið sé í sjálfri sér vísindaleg kenning og það sé einungis hægt að gera ráð fyrir henni með tilleiðslu. Af þessum sökum, meðal annarra, líta nútímavísindi á allar tilgátur og kenningar sem bráðabirgða kenningar, sem eru staðfestar misvel fremur en að þær séu sannar eða ósannar staðhæfingar.

Nelson Goodman[breyta | breyta frumkóða]

Nelson Goodman setti fram nýja útgáfu tilleiðsluvandans í greininni „Nýi vandinn um tilleiðslu“ (1966). Goodman setti fram hugmynd um nýjan lit, „grauðan“. Hlutur er grauður ef hann er grænn fram að einhverjum tímapunkti og rauður æ síðan. „Nýi“ tilleiðsluvandinn er sá hvernig hægt er að vita að hlutir sem virðast vera grænir eða rauðir séu grænir eða rauðir en ekki grauðir; hvernig er til dæmis hægt að vita að gras sé grænt en ekki grautt? Venjulegu vísindalegu viðbrögðin við vandanum eru fólgin í beitingu rakhnífs Ockhams.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. David Hume, Rannsókn á skilningsgáfunni, §4.1.20-27, §4.2.28-33
  2. Bertrand Russell, The Problems of Philosophy

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:David Hume: Metaphysics and Epistemology
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Deductive and Inductive Arguments
  • „Hvað eru skynsamleg rök?“. Vísindavefurinn.