Fara í innihald

Ford T

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá T-Ford)
Ford T

Ford T eða Ford Model T var bifreið sem Ford Motor Company framleiddi á árunum 1908 til 1927. Hann var fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn og átti með því að vera ódýr þannig að sem flestir hefði efni á honum. Hann var jafnframt fyrsti bíllinn, árið 1914, sem var settur saman á flæðilínu, en áður höfðu bílar verið settir saman án línulegs samsetningarkerfis. Fram til ársins 1924 voru bílarnir allir svartir en með tilkomu sellulósalakksins varð aukið framboð á litum.

Auglýsing fyrir Ford T

Ford T var einfaldur bíll með plötuklæddan yfirvagn sem var klæddur með ódýrri eftirlíkingu af leðri sem minnir nokkuð á Gervileður nútímans. Bæði grind og öxlar voru úr krómvanadínstáli sem var framleitt í stálverksmiðjum fyrirtækisins. Þannig var Ford T um 700 kg að eiginþyngd á meðan samkeppnisaðilar voru um 300 kg þyngri, eða um 1 tonn.

Ford T hafði 2,9-lítra 4-strokka vél. Hún skilaði um 20 hestöflum og var hámarkshraði bílsins 60 km/klst. Vélin eyddi um 11,1 til 18,7 lítrum á hundraðið.[1]

Þó svo að Ford T væri vatnskældur var ekki vatnsdæla í bílnum nema fyrstu gerðunum. Hún var tekin út til að lækka framleiðslukostnað. Í staðinn kom hringrennsli sem byggði á misjafnri þéttni vatns eftir hitastigi. Þannig steig heitt vatn efst í vatnskassann þar sem það kólnaði og rann niður á vélina á nýjan leik og kældi hana. Þetta hringrennsli hélt áfram svo lengi sem vélin var í gangi.

Gírkassi og drifrás

[breyta | breyta frumkóða]
Pedalar og gírstöng í Ford T 1923-árgerð

Bíllinn var afturdrifinn með þrjá gíra: tvo áfram og einn afturábak. Gírkassanum var stýrt með þremur fetlum (pedölum) og stöng til vinstri við ökumann. Þá var handolíugjöf við hlið stýrisins. Gírkassinn var úr vandadínstáli og í olíubaði. Ford T hafði enga kúplingu eins og þekkist nútildags. Þess í stað var skipt um gír með fetlunum þremur; frá vinstri talið var hár- og lágur gír, afturábak og bremsa. Stöngin til vinstri sá um að aftengja gírkassann frá kasthjóli, til að koma honum í hlutlausan, og sem handbremsa sem hafði bara áhrif á afturhjólin. Bremsan virkaði ekki á hjólin heldur á gírkassann.

Fjöðrun og hjól

[breyta | breyta frumkóða]

Það voru ekki höggdeyfar í bílnum og hann var því dálitið hastur á malarvegum þess tíma. Í staðinn var gormur á hverju hjóli og tók fjöðrunin þá til hvers öxuls fyrir sig. Sjálfstæð fjöðrun, þar sem hvert hjól fjaðrar óháð öðrum, var því ekki til staðar. Framöxullinn var heilhamraður úr vanadínstáli.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Media.Ford.com - Model T facts“. Sótt 13. júlí 2008.