Tónabíó
Tónabíó var kvikmyndahús í Skipholti 33 í Reykjavík sem var opnað 23. apríl 1962. Það var reist af Tónlistarfélagi Reykjavíkur yfir Tónlistarskólann í Reykjavík sem starfaði á efri hæðinni. Tónabíó tók við af Trípólíbíói sem Tónlistarfélagið rak á Melunum í Vesturbæ Reykjavíkur. Fyrsta kvikmyndin sem sýnd var í Tónabíói var Enginn er fullkominn (Some Like It Hot) með Marilyn Monroe, Tony Curtis og Jack Lemmon í aðalhlutverkum. Tónabíó sýndi aðallega myndir frá United Artists, meðan Austurbæjarbíó sýndi myndir frá Warner Bros. Í Tónabíói voru þannig sýndar kvikmyndaraðir á borð við spagettívestra Sergio Leone, myndirnar um Bleika pardusinn og James Bond-myndirnar. Árið 1987 keypti Tónabíó hf. húsið af Tónlistarfélaginu en það félag varð gjaldþrota aðeins tveimur árum síðar. Síðasta kvikmyndin sem það sýndi var hryllingsmyndin Fyrsti apríl (April Fool's Day).
Stórstúka Íslands keypti Tónabíó og hóf að halda þar bingó árið 1990. Húsið fékk í kjölfarið heitið Vinabær. Árið 2022 var Vinabær svo seldur og bingóstarfsemi hætt.